Tónleikar í Mengi
Tónleikar í Mengi
Tónlistarborgin Reykjavík og nokkrir tónleikastaðir í borginni hafa fengið fimm milljóna króna styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undir átakinu Music Moves Europe: Co-operation of Small Music Venues.

Tónlistarborgin Reykjavík og nokkrir tónleikastaðir í borginni hafa fengið fimm milljóna króna styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undir átakinu Music Moves Europe: Co-operation of Small Music Venues. Með því að stuðla að nýsköpun og auknu samstarfi á milli tónleikastaða er talið að til verði sjálfbærara umhverfi fyrir lifandi tónlist, þar sem samkeppnishæfni staðanna eykst og sömuleiðis færni þeirra til að rata um það reglugerðarumhverfi sem þeim er búið.

Fjöldi umsókna barst víða að um stuðning en umsókn Tónlistarborgarinnar er ein af 12 sem fékk brautargengi.

Tónleikastaðirnir sem sóttu um ásamt Tónlistarborginni eru Gaukurinn, Mengi, Dillon og Hannesarholt en verkefnið verður þó unnið með öllum áhugasömum tónleikastöðum í borginni.

Markmiðin eru að búa til vettvang þar sem stofnanir og skrifstofur innan borgarinnar miðla þekkingu til tónleikastaðanna; að stuðla að uppbyggilegu samtali á milli þessara aðila og tónleikastaðanna; og að fræða rekstraraðila og tónlistarfólk um tónleikahald og kynningu og markaðsmál.