Dómstóll Hæstiréttur Íslands kvað í gær upp sýknudóm yfir Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, í ærumeiðingarmáli.
Dómstóll Hæstiréttur Íslands kvað í gær upp sýknudóm yfir Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, í ærumeiðingarmáli. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Sigurðsson Nordal Karítas Ríkharðsdóttir Hæstiréttur Íslands staðfesti í gær sýknudóm yfir fyrrverandi hæstaréttardómaranum Jóni Steinari Gunnlaugssyni vegna meiðyrðamáls sem höfðað var á hendur honum, en málið hefur verið í dómskerfinu síðan 2018.

Jón Sigurðsson Nordal

Karítas Ríkharðsdóttir

Hæstiréttur Íslands staðfesti í gær sýknudóm yfir fyrrverandi hæstaréttardómaranum Jóni Steinari Gunnlaugssyni vegna meiðyrðamáls sem höfðað var á hendur honum, en málið hefur verið í dómskerfinu síðan 2018. Sóknaraðili málsins var Benedikt Bogason, núverandi forseti Hæstaréttar. Hann krafðist þess að ákveðin ummæli Jóns Steinars í bók hans, Með lognið í fangið - Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun , skyldu dæmd dauð og ómerk, en Benedikt taldi ummælunum beint að sér, auk þriggja fyrrverandi dómara við réttinn. Umrædd ummæli má finna í kafla bókarinnar sem fjallar um mál ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi í Hæstarétti árið 2012 fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi, en Benedikt sat í meirihluta dómsins í því máli. Ágreiningur Benedikts og Jóns Steinars laut því aðallega að notkun þess síðarnefnda á hugtakinu „dómsmorð“ í bók sinni.

Klofinn Hæstiréttur

Málið hefur nú farið fyrir dóm á öllum þremur dómstigum Íslands; í héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti. Niðurstaða allra þeirra dómstiga er sýknun Jóns Steinars af meintum meiðyrðum í garð Benedikts. Þar sem Benedikt er núverandi forseti Hæstaréttar, og var aðili að dómsmálinu, voru allir aðrir dómarar við réttinn vanhæfir til að fara með málið. Af þeim sökum voru fimm utanaðkomandi einstaklingar settir hæstaréttardómarar fyrir þetta eina mál; tveir lögmenn, tveir héraðsdómarar og settur landsréttardómari. Í niðurstöðu sinni klofnaði Hæstiréttur og skiluðu tveir dómendur sératkvæði, þær Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómarar. Þær sögðu ummælin fela í sér „alvarlega aðdróttun sem ekki á sér neina stoð í staðreyndum málsins“ og töldu það rétt að þau skyldu ómerkt í samræmi við kröfu Benedikts. Þá töldu þær Benedikt einnig eiga rétt til miskabóta úr hendi Jóns Steinars, án þess að nefna þar nákvæma fjárhæð.

Ekki fallist á aðildarskort

Í málsvörn sinni byggði Jón Steinar m.a. á því að ummælum hans um „dómsmorð“ hefði verið beint að Hæstarétti sem stofnun, en ekki Benedikt sem persónu, og því ætti að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts, þ.e. að Benedikt hefði ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu dómsmálsins þar sem ummælin væru ekki um hann. Þetta féllst Hæstiréttur ekki á, og sagði ummæli Jóns Steinars „verða ekki skilin öðruvísi en sem gagnrýni á störf þeirra fjögurra dómara sem mynduðu meirihluta“ í umræddu dómsmáli. Þá benti rétturinn á að nöfn dómaranna væru birt í dómnum á vefsíðu réttarins og auk þess nafngreinir Jón Steinar þá í bók sinni. Jón Steinar gefur lítið fyrir þau rök. „Þetta eru efnisatriði og Benedikt var ekkert þar sérstaklega til umræðu, frekar en aðrir dómarar sem dæmdu. Hann var nefndur í lok kaflans þar sem er sagt hvaða dómarar höfðu staðið að þessum dómi,“ sagði hann við mbl.is í gær eftir að dómur Hæstaréttar hafði fallið.

Skilgreining „dómsmorðs“

Meginágreiningur Benedikts og Jóns Steinars laut að þýðingu orðsins „dómsmorð“ í því samhengi sem það var notað í bókinni. Í dómi sínum rakti meirihluti Hæstaréttar skilyrði þess að ummæli sem þessi gætu talist til ólögmætra ærumeiðinga, en meðal þeirra er að ummælin innihaldi „staðhæfingu um staðreynd“ frekar en svokallaðan „gildisdóm“, sem ekki þarf að sanna og fólki er almennt ekki refsað fyrir. Eftir ítarlega útskýringu sagði Hæstiréttur síðan að fallist yrði á að Jón Steinar „hafi notað hugtakið dómsmorð í táknrænni og yfirfærðri merkingu en ekki í bókstaflegri merkingu, til að leggja áherslu á þá skoðun sína að illa hafi tekist til við niðurstöðu meirihluta réttarins“. Þessu er minnihluti Hæstaréttar ósammála og segir að „sú skilgreining á dómsmorði sem [Jón Steinar] kýs að nota felur í sér ásetning til að misfara með dómsvald,“ og sé því staðhæfing um staðreynd.

Lítil viðbrögð við dóminum

Jón Steinar segist ekki búast við því að afleiðingar dómsins verði miklar. „Ef marka má venjuleg viðbrögð hér á landi er eins og yfirvöld dómsmála séu svo liðónýt að það sé ekki brugðist við svona. Auðvitað hljóta þetta að vera alvarleg tíðindi,“ segir hann. Ekki náðist í Benedikt Bogason við vinnslu fréttarinnar.