Metið og vegið Japönsku eftirlitsmennirnir Takuya Saegusa og Takanori Oya meta gæði og hrognafyllingu loðnunnar í uppsjávarfrystihúsi Eskju á Eskifirði á fimmtudaginn. Markaðir í Asíu eru mikilvægir fyrir loðnuafurðir.
Metið og vegið Japönsku eftirlitsmennirnir Takuya Saegusa og Takanori Oya meta gæði og hrognafyllingu loðnunnar í uppsjávarfrystihúsi Eskju á Eskifirði á fimmtudaginn. Markaðir í Asíu eru mikilvægir fyrir loðnuafurðir. — Ljósmynd/Benedikt Jóhannsson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Líklegt er að einhver íslensku loðnuskipanna haldi til veiða um miðja næstu viku. Mestur þungi verði hins vegar í veiðunum þegar loðnan nálgast hrygningu þegar líður á mánuðinn og reynt verði að gera sem mest verðmæti úr aflanum. Eftir loðnubrest í tvö ár var heildarkvótinn aukinn í 127.300 tonn eftir umfangsmiklar mælingar í janúar. Í sögulegu samhengi er þó ekki stór loðnuvertíð framundan.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Líklegt er að einhver íslensku loðnuskipanna haldi til veiða um miðja næstu viku. Mestur þungi verði hins vegar í veiðunum þegar loðnan nálgast hrygningu þegar líður á mánuðinn og reynt verði að gera sem mest verðmæti úr aflanum. Eftir loðnubrest í tvö ár var heildarkvótinn aukinn í 127.300 tonn eftir umfangsmiklar mælingar í janúar. Í sögulegu samhengi er þó ekki stór loðnuvertíð framundan.

Frystingu á um 300 tonnum af loðnu úr norska skipinu Senior lauk hjá Eskju á Eskifirði í fyrrakvöld. Loðnan var flokkuð og síðan komið fyrir í nýrri frystigeymslu fyrirtækisins. Líklegt er að hrygnan fari á markað í Asíu, en hængurinn á Austur-Evrópu. Japanskir matsmenn fylgdust með vinnslunni á Eskifirði og tóku sýni. Þeir eru fyrir nokkru komnir til landsins, en áður en þeir héldu austur á firði fóru þeir í tvöfalda skimun og fimm daga sóttkví.

Mikilvægt fyrir samfélagið

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í gær reglugerð um veiðar á loðnu. Íslenskum skipum er heimilt að veiða alls 69.834 tonn, en 57.466 tonn koma í hlut Norðmanna, Grænlendinga og Færeyinga í samræmi við gildandi samninga. Endurskoðuð lokaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er upp á 127.300 tonn og var hún gefin út að loknum loðnumælingum í síðustu viku.

Haft er eftir ráðherra að þessi ákvörðun sé afrakstur umfangsmestu loðnuleitar seinni árin. „Þetta er vissulega ekki mikið magn í sögulegu samhengi, en þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag enda útflutningsverðmæti upp á hátt í 20 milljarða. Öflugt samstarf stjórnvalda, sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og fyrirtækja í sjávarútvegi við þessa leit hefur verið lykillinn að þessum árangri.“

Fylgst verður með

Hafrannsóknastofnun fer ekki til mælinga að nýju að óbreyttu en mun fylgjast með fréttum af miðunum og bregðast við ef vísbendingar koma um nýjar loðnugöngur, segir í frétt ráðuneytisins.

Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun, segir að með yfirgripsmiklum mælingum á loðnu á stóru svæði í janúar sé komin heildarmæling á göngu loðnunnar og því hafi verið talað um lokaráðgjöf. Komi fréttir eða vísbendingar um nýjar göngur sem ekki hafi áður verið mældar verði staðan metin. Hann segist þó telja ólíklegt að stór ganga bætist við.

219 krónur fyrir kílóið

Áfram falla met hvað verð fyrir loðnu áhrærir. Þannig geiddi norska fyrirtækið Pelagia AS 14,52 krónur norskar eða sem nemur um 219 íslenskum krónum fyrir kílóið. Fyrirtækið rekur verksmiðjur á nokkrum stöðum í Noregi og keypti fimm farma á þessu verði.

Fiskeribladet/Fiskaren greindi frá því í gær að Norðmenn hefðu nú heimild til að veiða tæplega 42 þúsund tonn af loðnu við Ísland. Aukningin í fyrrakvöld hefði skilað norskum útgerðum 80 milljónum n.kr. (um 1,2 milljörðum) miðað við 10 krónur norskar fyrir kílóið.