Það er erfitt að lifa sig almennilega inn í leiðindin ef fólk er svo flissandi út um allt. Bara eins og það sé hægt að hafa gaman af öllu mögulegu. Það viljum við ekki.

Mér finnst stundum svo merkilegt hvaða augum sumt fólk lítur lífið. Það er aldrei neitt svo gott að ekki megi finna á því neinn galla og stundum má varla finna neitt gott fyrir göllunum. Þannig er Ísland ömurlegt land með endalaust myrkur á veturna.

Ég hef tamið mér að líta á björtu hliðarnar. Hugsa frekar um björtu sumarnæturnar og svona almennt reyna að líta á það góða í samfélaginu og fólki. Vissulega er Ísland rokrassgat en hér er þó hreint loft og ferskt vatn. En auðvitað er margt sem við þurfum að bæta.

Það er svo sem allt í lagi að við höfum ekki sömu skoðun á öllu. Það væri frekar glatað ef við værum alltaf sammála. En ég á kannski í aðeins meiri erfiðleikum með að sætta mig við að þessu fólki virðist helst ekki líða vel nema það dragi aðra með sér. Áhyggjur þess og pirringur þarf helst að ná til okkar hinna líka.

Um daginn skrifaði kona á Facebook og kvartaði undan því að það væru of hláturmildir umsjónarmenn í einhverjum þáttum á Rás 1. Það færi alveg ógurlega í taugarnar á henni og gerði það að verkum að hún missti jafnvel af efni sem hún hefði viljað hlusta á. Þetta fannst henni ósanngjarnt. Skiljanlega. Það er erfitt að lifa sig almennilega inn í leiðindin ef fólk er svo flissandi út um allt. Bara eins og það sé hægt að hafa gaman af öllu mögulegu. Það viljum við ekki.

En svo skánar nú heldur betur heimur þessa fólks. Kemur ekki í ljós að Ísland er svona miklu spilltara en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Í 17. sæti af 200 þjóðum sem voru mældar. Einhver gæti sagt að mögulega væri ekki glatað að vera í hópi efstu tíundar í svona mælingu en ekki okkar fólk. Það nær næstum því að brosa yfir því sem það hefur alltaf vitað: Þetta er allt ömurlegt.

En það er merkilegt að lesa um það hvernig svona listi verður til. Viðskiptablaðið og Kjarninn fóru nefnilega ofan í saumana á þessu í vikunni og í ljós kemur að það eru sjö aðilar sem koma að þessu. Gagnauppsprettur eins og það er kallað. Sex af þeim eru stórar alþjóðlegar stofnanir, oft með ítarlega spurningalista, sem skila áliti. Þar eru allt frá nokkur hundruð manns upp í nokkur þúsund sem koma að niðurstöðunni. Ef niðurstaða þeirra væri metin þá væri Ísland í hópi tíu óspilltustu ríkja heims. Í sama sæti og Þýskaland, svo dæmi sé tekið.

En okkur til bjargar koma tveir Íslendingar sem sjá til þess að þetta brosmilda fólk vinni nú ekki enn einn sigurinn. Þeir meta spillingu á Íslandi á pari við Pólland, Búlgaríu og Mexíkó. Það eru þjóðir sem eru að meðaltali 35 sætum neðar en Íslendingar á listanum stóra.

Nú er ég náttúrlega ekki hagfræðingur og þrátt fyrir að hafa lokið 25 ára námi í stjórnmálafræði get ég ekki talið mig sérfræðing í þessum efnum. En mér finnst þetta pínu undarlegt. Allir hinir komast að nokkurn veginn samhljóða niðurstöðu en okkar menn eru á öndverðum meiði. Merkilegt.

Nú munum við öll eftir því, á árunum fyrir hrun, að enginn mátti segja neitt ljótt um ástandið á Íslandi. Það er enginn að biðja um það. Frekar að reyna að komast að því af hverju upplifun okkar fólks er svona langt frá öllum þessum útlendu sérfræðingum.

Eitt af því sem við lærðum einmitt á hruninu var að hlusta á erlendar raddir en ekki treysta okkur sjálfum þegar kemur að því að meta ástand mála á Íslandi. En það virðist hafa breyst. Auðvitað er miklu betra að hafa okkar eigin sérfræðinga svo við þurfum ekki að hlusta á einhverja útlendinga flissa yfir ástandinu hér heima.

Eins og Woody Allen orðaði það: Lífið er ekkert nema eymd, þjáning og einmanaleiki. Og svo er það búið alltof snemma.