Smáhýsin Fyrstu húsin fyrir heimilislausa voru tekin í notkun í Gufunesi haustið 2020. Fleiri hús verða sett upp.
Smáhýsin Fyrstu húsin fyrir heimilislausa voru tekin í notkun í Gufunesi haustið 2020. Fleiri hús verða sett upp. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð hefur samþykkt afnotasamning um lóðina Kleppsmýrarveg 11 í Laugarnesi. Fram kemur í greinargerð eignaskrifstofu borgarinnar að um sé að ræða 1.569 fermetra lóð sem er í eigu Faxaflóahafna.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt afnotasamning um lóðina Kleppsmýrarveg 11 í Laugarnesi.

Fram kemur í greinargerð eignaskrifstofu borgarinnar að um sé að ræða 1.569 fermetra lóð sem er í eigu Faxaflóahafna. Samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir allt að þremur smáhýsum (ca. 35 m 2 hvert) á lóðinni. Smáhýsin verða nýtt sem búsetuúrræði fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs. Reykjavíkurborg tekur lóðina á leigu til næstu fimm ára og greiðir krónur 926.851 á ári fyrir afnotin.

Nú þegar er búið að koma fyrir fimm smáhýsum í Gufunesi. Gert er ráð fyrir að koma fyrir 15 smáhýsum til viðbótar á völdum stöðum í borginni á þessu ári, segir í greinargerð eignaskrifstofunnar.

Þessi áform um smáhýsi í borginni hafa verið umdeild eins og margoft hefur komið fram í fréttum. Það á einnig við um smáhýsin fyrirhuguðu við Kleppsmýrarveg.

Eignarhaldsfélagið Sigtún hefur í bréfi til borgarinnar haft uppi mótmæli. Bendir bréfritari á að nú þegar sé mikill bílastæðavandi á þessum slóðum og bílum sé lagt við gangstéttarkantsteina meðfram umferðargötum (Köllunarklettsvegi og Héðinsgötu), inni á einkalóðum og hverju því svæði sem hægt sé að koma bíl fyrir. Fyrirhuguð byggingalóð, sem ætluð sé undir smáhýsin, sé eina svæðið í hverfinu sem skilgreint sé sem almennt bílastæði (28 bílastæði). „Nú þegar er stórhætta á þessu svæði fyrir jafnt gangandi og akandi vegfarendur og er svæðið á engan hátt tilbúið til búsetu,“ segir m.a. í bréfi Sigtúns.

Þingvangur ehf., eigandi þriggja lóða á svæðinu, mótmælir einnig. Ljóst sé að smáhýsin feli í sér íbúðarnot sem eigi ekkert skylt við bráðabirgðaúrræði. Aform um smáhýsi geti leitt til verðmætarýrnunar á lóðum Þingvangs.

Ítrekar Þingvangur mótmæli og sömuleiðis er ítrekað boð um að sértæku búsetuúrræði verði komið fyrir tímabundið á annarri lóð í eigu fyrirtækisins.