Nýbyggingin Þannig mun Steindórsreiturinn líta út þegar uppbyggingunni lýkur. Ofarlega til vinstri má sjá þekkt kennileiti, JL- húsið við Hringbraut.
Nýbyggingin Þannig mun Steindórsreiturinn líta út þegar uppbyggingunni lýkur. Ofarlega til vinstri má sjá þekkt kennileiti, JL- húsið við Hringbraut. — Tölvumynd/Plúsarkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Lokið er niðurrifi húsanna á Steindórsreit, Sólvallagötu 79, og eru þau nú rústir einar. Innan skamms hefjast framkvæmdir við nýbyggingu á reitnum. Lóðarhafi á Steindórsreit er U22 ehf., dótturfélag Kaldalóns hf.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Lokið er niðurrifi húsanna á Steindórsreit, Sólvallagötu 79, og eru þau nú rústir einar. Innan skamms hefjast framkvæmdir við nýbyggingu á reitnum.

Lóðarhafi á Steindórsreit er U22 ehf., dótturfélag Kaldalóns hf. Félagið hyggst byggja fjögur tveggja til fimm hæða fjölbýlishús á reitnum. +ARKITEKTAR eru hönnuðir bygginganna. Í húsunum er gert ráð fyrir 83 íbúðum, atvinnurýmum á götuhlið við Hringbraut og kjallara fyrir 82 bíla.

Fram kemur í umsókn til Reykjavíkurborgar um byggingarleyfi að húsin fjögur verði alls 9.184 fermetrar. Þar af verður atvinnurými 584 fermetrar. Húsin verða steinsteypt, einangruð að utan og með loftræstri klæðningu. Bílakjallarinn verður 2.700 fermetrar að stærð..

Jónas Þór Þorvaldsson, framkvæmdstjóri Kaldalóns, segir að enn sé ósamið um jarðvinnu og aðrar framkvæmdir á reitnum en stefnt að því að klára þau mál á næstu vikum. Framkvæmdir gætu vonandi hafist öðru hvoru megin við páska.

Eins og rifjað var upp í fréttagrein í Morgunblaðinu 28. janúar síðastliðinn átti húsið Sólvallagata 79 verðugan sess í tónlistarsögu Íslendinga. Þar voru nefnilega haldnir fyrstu stórtónleikarnir á Íslandi, mánudaginn 18. desember 1939. Hljómsveit, kór og einsöngvarar fluttu kórverkið Sköpunina eftir austurríska tónskáldið Franz Joseph Haydn undir stjórn Páls Ísólfssonar. Steindór Einarsson, sem kallaður var bílakóngur, reisti húsið og lánaði það endurgjaldslaust fyrir tónleikana. Áhuginn fyrir tónleikunum var geysimikill og sóttu þá rúmlega 2.000 manns. Þegar 50 ár voru liðin frá tónleikunum var festur skjöldur á húsið til minningar um þá.

Jónas Þór Þorvaldsson segir að Kaldalón hyggist gera tónleikunum góð skil á reitnum en í ljós komi síðar hvernig það verði gert. Því miður viti hann hins vegar ekkert um minningarskjöldinn þrátt fyrir að hafa reynt mikið að grennslast fyrir um hann innan sinna raða og fyrrverandi eiganda. En vonandi finnist skjöldurinn. Ættu þeir sem hafa vitneskju um hvar skjöldurinn er niðurkominn að gefa sig fram.

Kaldalón hf. er fasteignaþróunarfélag sem sérhæfir sig í byggingu íbúðarhúsnæðis. Félagið hefur fjárfest í lóðum á höfuðborgarsvæðinu að því er fram kemur á heimasíðu þess. Á lóðum félagsins er gert ráð fyrir að byggðar verði yfir 850 íbúðir. Stefna félagsins sé að byggja á hagkvæman hátt íbúðir sem falli að þörfum almennings.

Fram kemur á heimasíðu Kaldalóns að félagið standi að byggingaverkefnum í Urriðaholti í Garðabæ, Hafnarbraut og Bakkabraut í Kópavogi og Vogabyggð í Reykjavík. Fyrir utan framkvæmdirnar á Steindórsreit hyggst félagið byggja 176 íbúðir, alls 27.600 fermetra, í Vesturbugt við hlið Slippsins við Gömlu höfnina í Reykjavík.