Drengir njóta sín ekki í íslenska skólakerfinu og það getur haft alvarlegar afleiðingar

Strákar standa höllum fæti í íslensku skólakerfi. Á það hefur margsinnis verið bent og Ísland sker sig heldur ekki úr að þessu leyti. Þessi vandi veldur víða áhyggjum og leita menn svara við því hvað valdi og reyna um leið að átta sig á hvað sé til bragðs.

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins hafa þessi mál verið tekin fyrir í blaðinu nú um helgina og fyrir viku og verður þeirri umfjöllun haldið áfram í næsta blaði. Þar kom fram að árið 1975 hefði kynjahlutfall þeirra, sem luku stúdentsprófi á Íslandi, verið jafnt, en árið 2018 var hlutfall kvenna orðið 60%. Breytingin er enn meira afgerandi í háskólanámi. Árið 1973 voru 76% þeirra sem luku námi karlar, árið 1985 var hlutfallið jafnt og nú er hlutfall karla, sem ljúka háskólanámi, 36%.

Lykilvandi í grunnskólum er hvað lesskilningi er ábótavant, sérstaklega hjá drengjum. Samkvæmt alþjóðlegu PISA-könnuninni, sem lögð var fyrir 15 ára nemendur árið 2018 hafði hlutfall nemenda á Íslandi sem ekki ná grunnhæfni í lesskilningi hækkað úr 22% í 26% milli kannana. Hjá drengjum var hlutfallið komið upp í 34% úr 29%. Það er skuggalega há tala.

Finnar hafa verið einna atkvæðamestir í að leita lausna á þessum vanda um leið og þeir hafa verið duglegir að efla hjá sér skólakerfið og gera það skilvirkara. Þar í landi standa unglingar sig einna best í PISA-könnuninni. Finnskir drengir eru þar ofar stúlkum á Íslandi í lesskilningi, en samt eru þeir langt á eftir finnskum stúlkum, eins og kom fram í viðtali við Hermund Sigmundsson, prófessor í lífeðlisfræðilegri sálarfræði við Háskólann í Reykjavík og Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi, í Sunnudagsblaðinu fyrir viku.

Hermundur hefur farið rækilega ofan í saumana á þessum málum og þráfaldlega bent á leiðir til úrbóta. Hann vill auka hreyfingu og leggja áherslu á valgreinar til að kveikja ástríðu og hjálpa nemendum að tengja við námið. Þetta sé sérstaklega mikilvægt fyrir drengi. Það þurfi að hjálpa börnum og unglingum að finna fjölina sína og því fyrr sem það gerist því betra.

Í umfjölluninni var athyglisvert innlegg frá Tryggva Hjaltasyni, formanni Hugverkaráðs og starfsmanni tölvuleikjafyrirtækisins CCP. Hann bendir á að enginn iðnaður verji jafn miklum tíma og peningum í að skilja hegðun og áhugasvið drengja og tölvuleikjaframleiðendur. Þeirra markmið sé að kenna þeim á flóknar vörur þannig að þeir njóti þess að læra og virkja drifkraft þeirra. Tryggvi segir að vitaskuld sé ekki hægt að yfirfæra þetta beint, en hins vegar megi nýta sér þessa þekkingu og reynslu. Þar vegi tilgangur þungt: „Ef þú hefur skýran tilgang fyrir því af hverju þú ert að læra og taka þátt í þessum nýja heimi þá margfaldast líkurnar á því að þú sért tilbúinn að leggja á þig fórnir og njótir þess að læra,“ segir Tryggvi í viðtalinu.

Í blaðinu fyrir viku var megináherslan á skólana, en í Sunnudagsblaðinu nú um helgina er fjallað um mikilvægi foreldra og að gott samstarf sé milli þeirra og skólanna. „Foreldrar eru fyrstu og mikilvægustu kennarar barna og hafa úrslitaáhrif á líðan þeirra og námsárangur,“ segir Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskyldu- og hjónaráðgjafi, sem hefur velt vanda drengja í íslenska skólakerfinu mikið fyrir sér.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að leiðrétta slagsíðu og mismunun gagnvart konum og hefur mikið unnist í þeim efnum þótt enn sé verk að vinna. Tilgangurinn er vitaskuld að ná jafnvægi, en ekki að pendúllinn sveiflist þannig að til verði ný slagsíða.

Í lok janúar birtist frétt um að konur hjá Strætó væru með 16,4% hærri laun heldur en karlar að meðaltali hjá fyrirtækinu. Kom fram að ástæðan væri sú að hjá Strætó væru konur í meirihluta í í sérhæfðari stjórnunar- og sérfræðistörfum. Þegar breytur á borð við menntun og ábyrgð í starfi hefðu verið teknar út væri óútskýrður launamunur aðeins 0,3% konum í hag. Kynjaskipting hjá Strætó er 80% karlar og 20% konur. Konur sinna hins vegar sérfræði- og stjórnunarstörfum í 67% tilvika hjá fyrirtækinu, en karlar í 33% tilvika. Þetta eru nokkurn veginn sömu hlutföll og eru milli kvenna og karla sem nú ljúka háskólanámi.

Skekkjan í skólakerfinu getur orðið afdrifarík. Miklu púðri er eytt í menntun og það er grátlegt að hún nýtist ekki til að tryggja að sem flestir nái að njóta sín og nýta hæfileika sína til fulls. Það gengur ekki að kerfið sé þannig uppbyggt að annað kynið njóti sín betur en hitt. Allt of margir átta sig ekki á því hvar hæfileikar þeirra liggja fyrr en seint og um síðir og eiga þá að baki mörg ár þar sem þeir hafa þurft að glíma við vanmetakennd og erfiðleika vegna þess að þeir náðu sér ekki á strik í skólanum. Þessi skekkja getur líka haft grafalvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið allt. Það er ekki nóg að vita af vandanum, það þarf að bregðast markvisst við og það er mikið í húfi.