[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Finnsson fæddist 7. febrúar 1926 í húsinu Hóli á Ísafirði og verður því 95 ára á morgun.

Jón Finnsson fæddist 7. febrúar 1926 í húsinu Hóli á Ísafirði og verður því 95 ára á morgun. Hann ólst upp á Ísafirði til 15 ára aldurs þegar hann fluttist til Akureyrar til að taka gagnfræðipróf en það þurfti til að komast inn í menntaskólann á Akureyri. Hann var tvö sumur í sveit hjá Jóni Fjalldal á Melgarðseyri við Ísafjarðardjúp, tvö ár var hann kallari á síldarplaninu á Siglufirði og 15 ára fór hann á sjó hjá Ólafi Júlíussyni skipstjóra á Sæbirni sem var fyrsti vélbátur Samvinnufélags Ísfirðinga.

Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1946 og cand.juris. frá Háskóla Íslands 1951. Hann hlaut þýskan námsstyrk 1957 og dvaldi í ár við nám í sjórétti og flugrétti við háskólann í Hamborg og við háskólann í Frankfurt.

Jón hóf störf hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1951 og gegndi fyrst stöðu lögreglustjóra á Keflavíkurvelli frá ágúst 1951 til loka janúar 1954 í umboði sýslumanns, eða þar til Keflavíkurflugvöllur var gerður að sérstöku lögsagnarumdæmi. Þá flutti hann til Hafnarfjarðar og var fulltrúi þar til hann hóf lögmennsku 1.3. 1966, fyrir utan námsleyfi í Þýskalandi í eitt ár.

„Ég hafði nú frekar hugsað mér starfsferil sem embættismaður en lögmaður eins og 14 ára starfstími minn hjá embættinu í Hafnarfirði ber með sér. Ég varð hins vegar mjög ósáttur við skipun í embætti bæjarfógetans í Hafnarfirði og sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu í nóvember 1965 þegar gengið var fram hjá Birni Sveinbjörnssyni sem hafði verið settur sýslumaður í níu ár. Ég gagnrýndi þennan gerning opinberlega með gildum rökum að mér fannst og sagði upp starfi. Af þessu varð mikið pólitískt uppistand, deilur á Alþingi og í blöðunum. Í kjölfarið stofnaði ég lögmannsstofu ásamt Birni, Skúla J. Pálmasyni og Sveini Hauki Valdimarssyni. Ég hætti lögmennsku árið 2003, þá 77 ára gamall.“

Jón sat m.a. í Kjaradómi og kjaranefnd og var formaður Kjaradóms 1988-1993. Hann sat í stjórn Lögmannafélags Íslands 1975-1977 og var varaformaður síðara árið, en árið 2002 var hann gerður að heiðursfélaga. Hann var meðdómari í héraðsdómsmálum og varadómari í Hæstarétti. Hann var í stjórn Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar um árabil og formaður þess 1970-1974, og formaður Landssambands stangaveiðifélaga 1970-1973.

„Við hjónin og Friðrik Guðmundsson, yfirtollvörður á Keflavíkurflugvelli, byggðum tvíbýlishús á Sunnuveginum í Hafnarfirði ásamt eiginkonu hans, Elínu Kristbergsdóttur, og fluttum þar inn árið 1956. Þar áttu fjölskyldur okkar góð ár saman. Við Friðrik höfðum báðir áhuga á veiði með stöng og vorum miklir veiðifélagar. Einkum eru minnisstæðar veiðiferðir í Haukadalsá og Hlíðarvatn sem Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar leigði um árabil og sérstaklega vegna þess að þá voru báðar fjölskyldurnar með og oft glatt á hjalla.

Ég hef verið við góða heilsu og synt reglulega og verið duglegur að ganga en nú er aldurinn farinn að segja til sín og með því breytist margt. Ég hef alltaf lesið mikið og fylgst vel með fréttum. Við Kristbjörg ferðuðumst mikið með dóttur okkar um landið og til útlanda og eftir að barnabörnin komu til sögunnar fóru þau og tengdasonur okkar með í ferðirnar. Ég fór á Vestfirðina fyrir fimm árum með tengdasyni mínum og þræddum við alla firðina meira og minna. Mér fannst mikið til vegamannvirkjanna koma, því þegar ég fluttist til Akureyrar 15 ára gamall voru engir vegir þar á milli. Það þurfti að fara sjóleiðina ef fólk þurfti að komast á milli landshluta. Nú keyrum við um á rafmagnsbílum eins og ekkert sé. Þegar ég var að alast upp þá var ekki rafmagn í Neðstakaupstað á Ísafirði þar sem ég ólst upp og ekki var ísskápur eða þvottavél.

Pabbi var alltaf á þingi fyrir sunnan og ráðskonur sáu um heimilið, en mamma dó þegar ég var níu ára. Það hlýtur að hafa verið mikil vinna hjá þeim að sjá um stórt heimili en við systkinin vorum sex. Mér er svo minnisstætt að jólatréð hjá okkur var með lifandi kertum og óskiljanlegt að ekki hafi kviknað í út frá því.“ Jón mun verja afmælisdeginum á morgun með fjölskyldunni heima hjá dóttur sinni.

Fjölskylda

Eiginkona Jóns var Kristbjörg Jakobsdóttir, f. 16.5. 1926 í Lundi á Akureyri, d. 5.1. 2009, húsmóðir og starfsmaður Háskóla Íslands. Fyrsta heimili Jóns og Kristbjargar var á Keflavíkurflugvelli en svo fluttust þau til Hafnarfjarðar þar sem heimili þeirra stóð jafnan síðan á Sunnuvegi 9. Foreldrar Kristbjargar voru hjónin Jakob Karlsson, 17.8. 1885, d. 22.6. 1957, skipaafgreiðslumaður og bóndi í Lundi á Akureyri, og Kristín Sigurðardóttir, f. 1.11. 1881, d. 30.1. 1957, húsmóðir frá Lundi í Fnjóskadal.

Dóttir Jóns og Kristbjargar er Kristín Jónsdóttir, f. 30.12. 1961, félagsráðgjafi. Maki: Ásbjörn Sigþór Snorrason rafeindavirki. Barnabörn eru Kristbjörg Tinna, f. 1985, Jón, f. 1992, Tindur Orri, f. 1995, og Ylfa Hrönn, f. 1997. Barnabarnabörn eru Styrmir Ási Kaiser, f. 2008, og Jón Flóki Pálsson, f. 2020, synir Kristbjargar Tinnu. Sambýlismaður hennar er Páll Kristjánsson lögmaður.

Systkini Jóns voru Þuríður, f. 27.7. 1915, d. 25.9. 1993, húsmóðir og skrifstofumaður; Birgir, f. 19.5. 1919, d. 1.6. 2010, alþingismaður og forseti sameinaðs Alþingis; Ásta, f. 10.9. 1919, d. 1.11. 2007, verslunarmaður; Ingibjörg, f. 19.10, 1921, d. 30.6. 2003, húsmóðir og skrifstofumaður; Finnur, f. 29.1. 1923, d. 23.10. 2000, kennari.

Foreldrar Jóns voru hjónin Finnur Jónsson, f. 28.9. 1894, d. 30.12. 1951, póstmeistari á Ísafirði, síðar framkvæmdastjóri, alþingismaður og ráðherra, og Auður Sigurgeirsdóttir, f. 2.4. 1888, d. 30.6. 1935, húsmóðir. Finnur kvæntist aftur og var síðari kona hans Magnea Magnúsdóttir, f. 21.11. 1914, d. 23.6. 2002.