Chadwick Boseman
Chadwick Boseman
Bandaríski leikarinn Chadwick Boseman, sem lést úr krabbameini í ágúst í fyrra, braut í gær blað í sögu SAG-verðlaunanna með því að hljóta fjórar tilnefningar fyrir leik í kvikmyndum á einu og sama árinu.

Bandaríski leikarinn Chadwick Boseman, sem lést úr krabbameini í ágúst í fyrra, braut í gær blað í sögu SAG-verðlaunanna með því að hljóta fjórar tilnefningar fyrir leik í kvikmyndum á einu og sama árinu. Enginn leikari hefur hlotið svo margar tilnefningar fyrir störf sín á einu ári. Boseman er tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn í Ma Rainey's Black Bottom , aukahlutverk í Da 5 Bloods og einnig sem liðsmaður leikhóps í báðum myndum sem Netflix framleiddi.

SAG eru samtök „skjáleikara“ í Bandaríkjunum, þ.e. leikara í kvikmyndum og sjónvarpsefni, og þykja verðlaunin hafa forspárgildi hvað Óskarsverðlaunin varðar. Segir í frétt Deadline að tilnefningar SAG bæti upp fyrir það sem vantaði í tilnefningar Golden Globe, þ.e. fjölbreytni þegar kemur að kynþáttum en um helmingur tilnefndra hjá SAG er þeldökkt fólk eða fólk af asískum uppruna.

En líkt og með Golden Globe hlaut streymisveitan Netflix langflestar tilnefningar fyrir verk sín og kvikmyndirnar Ma Rainey's Black Bottom og Minari flestar en af sjónvarpsþáttum var það Crown sem stóð upp úr.