Lovísa Hallgrímsdóttir
Lovísa Hallgrímsdóttir
Eftir Lovísu Hallgrímsdóttur: "Í leikskólum snúast störfin um nám ungra barna, uppeldi og umönnun. Störf sem ekki verða lögð til hliðar eða geymd."

Lífskjarasamningarnir nýju eru sagðir tímamótasamningar eða sáttmáli ríkisins, sveitarfélaga og stéttarfélaga. Samningur um aukin lífsgæði fyrir alla. Samkomulagið heimilar styttri vinnudag/vinnuviku og í samræmi við eðli og sérstöðu starfs um allt að 4 klst. á viku. Þannig að vinnuvikan verði 36 klst. á viku eða nálægt 7 klst. á dag. Samningurinn er háður því að starfsstöðvar hliðri til í störfum sínum án þess að skerða gæði þeirrar þjónustu sem veitt er og án þess að til komi aukakostnaður. Samningarnir eru sannarlega tímamótasamningar með verulegum launahækkunum, boði um styttri vinnudag og samkomulagi m.a. um 30 daga orlof fyrir alla. Styttri vinnudagur á samkvæmt orðanna hljóðan m.a. að bæta vinnustaðamenningu, stuðla að bættum lífskjörum og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.

Ég efast ekki eitt augnablik um að styttri vinnudagur mun að lokum verða samfélaginu öllu til góða. Ég hef lengi verið talsmaður þess og talað fyrir því lengi að 7 stunda vinnudagur væri mjög fjölskylduvæn aðgerð og hef enga trú á öðru en að það sé framkvæmanlegt. Já, ég er talsmaður þess að skapa meiri ró og fleiri gæðastundir í samfélaginu. Ég efast hinsvegar um gæði þess að henda samkomulagi um vinnutímastyttingu ókláruðu inn á alla vinnustaði landsins. Þar sem fólk á að sammælast um gæði, aðferðir og framkvæmd án þess að til komi aukakostnaður. Í leikskólum þar sem ég þekki hvað best til er þetta mjög erfitt enda snúast störfin okkar um nám ungra barna, uppeldi og umönnun. Störf sem ekki verða lögð til hliðar eða geymd. Það er verulega erfitt að stytta vinnudag starfsfólks í leikskólum án þess að til komi aukakostnaður og er sennilega alls ekki hægt. Já, það hefði verið samningsaðilum til meiri sóma að ná samkomulagi um að stytta vinnudaginn í 7 klukkustundir hjá öllum og að klára útfærsluna. Auðvitað veit ég að vinnustaðir eru margvíslegir og annað fyrirkomulag gæti verið til bóta á einstaka stað. Ef vinnutímastytting á að leiða til fjölskylduvænna samfélags, sem var jú eitt af markmiðum samninganna, þurfum við að hafa börnin okkar inni í þeirri mynd.

Ég spyr mig: Hvað með „vinnutíma“ barna? Verða börn áfram 8,5-9 klst. á sínum „vinnustað“ meðan vinnutími fullorðinna er að styttast að meðaltali í 7 tíma á dag? Þá komum við líka að spurningunni: Hverjum ber að standa vörð um hagsmuni barna? Já, einmitt, það erum við fullorðna fólkið í lífi barnanna; foreldrar og fjölskyldur, stjórnendur, kennarar og starfsfólk skóla, sveitarstjórnir og að sjálfsögðu ráðamenn þjóðarinnar. Það er von mín að okkur takist að láta hagsmuni fullorðinna og barna fara saman í styttingu vinnudagsins. Það er ekki síst verkefni okkar nú að vinna vel, samhent og skipulega að því!

Höfundur er stofnandi Regnbogans leikskóla og áhugamaður um velferð barna. lovisa@regnbogi.is