Hressir Félagarnir Kristján Steingrímur, Tumi Magnússon og Pétur Magnússon í Listasafni Árnesinga í vikunni.
Hressir Félagarnir Kristján Steingrímur, Tumi Magnússon og Pétur Magnússon í Listasafni Árnesinga í vikunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Tvær sýningar verða opnaðar í dag í Listasafni Árnesinga í Hveragerði, annars vegar sýning Bjargeyjar Ólafsdóttur, Rófurass , og hins vegar Troika , samsýning þriggja myndlistarmanna, þeirra Kristjáns Steingríms, Péturs Magnússonar og Tuma Magnússonar. Troika er rússneskt orð og þýðir hópur þriggja og er stundum þýtt þríeyki. Segir í tilkynningu að það geti einnig átt við rússneskan þjóðdans þriggja dansara eða ungverskan hestvagn dreginn af þremur hestum sem séu beislaðir með löngu bili á milli framan við sleða eða vagn. Yfirleitt sé miðjuhesturinn látinn brokka á meðan ytri hestarnir séu á stökki. Orðið sé einnig notað í yfirfærðri merkingu til að lýsa þrem jöfnum leiðtogum sem vinni saman í hópi: þríeyki. „Það skiptir ekki máli hvaða skilgreiningu á orðinu við veljum, troika þýðir alltaf hraðvirkur og samheldinn hópur,“ segir í tilkynningu og að sýningargesta sé að velja hver listamannanna þriggja sé á brokki. Sýningarstjóri beggja sýninga er Svíinn Jonathan Habib Engqvist.

Einhvers konar taug tengir allt saman

Kristján Steingrímur segir blaðamanni að samskipti þríeykisins við sýningarstjórann hafi byrjað með nútímafundaháttum, í gegnum netið. „Síðan kom hann til landsins við illan leik, í gegnum nokkur lönd með tilheyrandi sóttkvíadvölum,“ segir Kristján kíminn. Hugmyndina að samsýningunni hafi Tumi átt upphaflega og hún endað í safninu í Hveragerði. Upp úr því hafi Engqvist verið kallaður til.

„Það sem tengir okkur þrjá saman er eiginlega bakgrunnur okkar,“ segir Kristján um þríeykið. „Við erum aldir upp af fluxus- og konseptlistamönnum á sínum tíma og síðan dettum við eiginlega inn í nýja málverkið, við töldum það mikla frelsun fyrir okkur. Nýja málverkið var vissulega ákveðið andóf gegn ríkjandi liststefnum en það reið fljótt yfir, tók skamman tíma. Við erum með þennan sérkennilega bakgrunn,“ segir Kristján og að þeir vinirnir hafi unnið úr þessum áhrifum hver með sínum hætti.

Hann segir sýningartitilinn frá sýningarstjóranum kominn. „Okkur fannst þetta áhugaverður og skemmtilegur titill sem hefur ýmsar merkingar,“ segir Kristján. Merkingarnar megi svo heimfæra upp á verkin á sýningunni. „Ég held að einhvers konar taug, sem hefur með okkur að gera, tengi þetta allt saman þótt við séum á margan hátt ólíkir listamenn því við erum líka á margan hátt líkir. Við erum einhvers konar blanda af þessum bakgrunni sem ég nefndi við þig, einhvers konar nútímaútgáfa af því þótt við séum komnir á miðjan aldur,“ segir Kristján glettinn og nefnir að lokum að á morgun, sunnudaginn 7. febrúar, verði boðið upp á listamannaspjall með sýningarstjóra klukkan 14.

Eigum heima í náttúrunni

Á sýningu Bjargeyjar, Rófurass , má sjá teikningar, ljósmyndir, skúlptúr, kvikmyndir, málverk og hljóðverk og því mikil fjölbreytni í miðlum. Samhliða sýningunni kemur út bók þar sem finna má sömu verk sem og fleiri, að sögn Bjargeyjar.

Hún er beðin um að útskýra titilinn Rófurass , hvaðan hann komi. „Þetta er bara svo geggjað orð og náttúrlega gæluorð í íslensku, notað yfir lítil dýr með rófur og ég hef heyrt fólk nota þetta yfir lítil börn líka,“ segir Bjargey.

Blaðamaður nefnir að verkin á sýningunni séu unnin í mjög marga miðla og segir hún sýninguna þá fyrstu þar sem hún sameini alla þá miðla sem hún hafi unnið í. En hvað tengir verkin saman? „Þetta snýst allt um hunda og hundinn hið innra, spendýrið og villidýrið í okkur,“ svarar Bjargey. Verkin snúist um alls konar voffa, m.a. samójed-hunda sem eiga uppruna sinn að rekja til Síberíu.

Ljós og myrkur leika líka hlutverk í sýningunni sem kemur fram í myndskeiði frá 16 mm filmu og í fósfór-málverkum. „Með þessu breytist andrúmsloft verkanna frá því að snúast um hreina gleði yfir í að sýna uggvænlegan andlegan undirtón sem liggur eins og rauður þráður í gegnum sýninguna,“ stendur í tilkynningu og fremst í henni er vitnað í orð Orhan Pamuk þess efnis að hundar tali en aðeins til þeirra sem kunni að hlusta.

„Ég hef alltaf verið mikill dýravinur,“ segir Bjargey blaðamanni og að hún fari að ráðum fyrrum ofurfyrirsætunnar Helenu Christiansen sem sagðist í viðtali hlusta á hroturnar í hundinum sínum til að slaka á. Enda gæludýr bæði góður félagsskapur og andlega nærandi. „Við eigum í grunninn heima í náttúrunni með hinum dýrunum,“ nefnir Bjargey að lokum. Hún verður viðstödd opnunina og tekur þátt í fyrrnefndu listamannaspjalli á morgun.