Ágreiningur Aung San Suu Kyi, forseti Búrma, og Min Aung Hlaing, yfirmaður hersins í Búrma, áður en sá síðarnefndi rændi völdum.
Ágreiningur Aung San Suu Kyi, forseti Búrma, og Min Aung Hlaing, yfirmaður hersins í Búrma, áður en sá síðarnefndi rændi völdum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Búrma, sem einnig er þekkt sem Mjanmar, er líklega eitt besta dæmi um þverstæðu alþjóðastjórnmála þar sem aðgerðir hinna frjálsu lýðræðisríkja til stuðnings lýðræðissinnum og mannréttindum hafa beinlínis orðið til þess að Búrma halli sér í sífellt auknum mæli í átt að alræðisríkinu Kína, sem nú hefur komið sér í lykilstöðu gagnvart her Búrma, sem fyrir fáeinum dögum tók völdin í landinu á ný.

Fréttaskýring

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Búrma, sem einnig er þekkt sem Mjanmar, er líklega eitt besta dæmi um þverstæðu alþjóðastjórnmála þar sem aðgerðir hinna frjálsu lýðræðisríkja til stuðnings lýðræðissinnum og mannréttindum hafa beinlínis orðið til þess að Búrma halli sér í sífellt auknum mæli í átt að alræðisríkinu Kína, sem nú hefur komið sér í lykilstöðu gagnvart her Búrma, sem fyrir fáeinum dögum tók völdin í landinu á ný.

Herstjórnin í Búrma hafði frá valdatöku sinni 1962 fram að lýðræðisumbótum á 21. öld unnið að því að halda landinu lokuðu og staðið gegn of djúpu efnahagssamtarfi við erlend ríki. Hefur herinn talið það ógna fullveldi ríkisins að verða of háð erlendum öflum. Áhrif Kína í landinu urðu hins vegar sífellt meiri þar sem Búrma varð sífellt einangraðra á alþjóðavettvangi vegna viðskiptaþvingana og annarra aðgerða Vesturlanda sem miðuðu af því að styðja lýðræðisumbætur í landinu.

Þetta breyttist þegar aðgerðum Vesturlanda var aflétt á síðasta áratug í kjölfar töluverðra breytinga á stjórnarfari Búrma sem hófust við samþykkt nýrrar stjórnarskrár 2008. Thein Sein, síðasti leiðtogi herforingjastjórnarinnar, var búinn að opna landið og leyfði til að mynda andmælum almennings að stöðva framkvæmdir við Myitsone-vatnsaflsvirkjunina í eigu kínversks ríkisorkufyrirtæki árið 2011, en ásælni kínverskra fyrirtækja í auðlindir Búrma höfðu hlotið töluverða gagnrýni.

Með velvild hersins

Kosningar fóru fram 2010 en Aung San Suu Kyi, leiðtogi lýðræðissinna, fékk ekki að bjóða sig fram til þings fyrr en 2012 og náði hún kjöri í embætti forseta árið 2016. Ekki má þó telja að herinn hafi með öllu gefið frá sér völdin þar sem herinn skipaði áfram meðal annars stóran hluta þingmanna óháð niðurstöðum kosninga og var honum veitt neitunarvald að því er varðar breytingar á stjórnarskrá landsins. Suu Kyi var með öðrum orðum gert að stýra landi í átt að aukinni velmegnun og lýðræðisumbótum, á sama tíma og hún þurfti að tryggja að allar ákvarðanir fengju blessun yfirmanna hersins til að viðhalda stöðugleika og tryggja að í landinu væri stjórn með vott af lýðræðislegu umboði.

Leiðtogi lýðræðissinna, Suu Kyi, var því milli steins og sleggju árið 2017 þegar herinn hóf að beita þjóðflokk Róhingja ofsóknum og grófu ofbeldi, sem sumir tala um sem þjóðarmorð. Til að halda í einhverja von um stöðugleika innan Búrma gat hún ekki opinberlega gert það sem íbúar lýðræðisríkja ætluðust til af henni; mótmæla aðgerðum hersins. Þetta leiddi til þess að Búrma var á ný beitt ýmsum þvingunaraðgerðum af hálfu Vesturlanda.

Líklega ekki stutt af Kína

Hentaði þetta kínverskum yfirvöldum ágætlega sem tóku á móti Búrma með opnum örmum, enda höfðu lýðræðisumbæturnar valdið kínverskum stjórnvöldum höfuðverk með því að tefja langtímaáætlanir kínverskra yfirvalda. Ummerki um breyttar áherslur sáust greinilega í síðasta mánuði en 11. janúar var Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, mættur til Búrma og hét því að styðja ríkið í baráttunni gegn kórónuveirunni og hvatti mjanmörsk yfirvöld til að hraða uppbyggingu á „efnahagsgöngum“ Kína og Búrma, sem eru innviðaverkefni sem eiga að tengja kínverska hagkerfið við Indlandshaf.

Greinendur takast nú á um hvort valdarán hersins 1. febrúar hafi verið framkvæmt með velvild kínverskra yfirvalda og hefur ýtt undir slíkar kenningar að Kína hafi á þriðjudag beitt neitunarvaldi í öryggisráðinu gegn ályktun þar sem meðal annars er krafist að kjörnir fulltrúar verði látnir lausir úr haldi hersins. Benda sumir greinendur einnig á þá hagsmuni sem Kína hefur af því að hafa vinveitta stjórn í Búrma. Hins vegar gekk kínverskum yfirvöldum vel að rækta gott samband við Búrma fyrir valdatöku hersins einmitt vegna einangrunar ríkisins síðustu ár og er talið ólíklegt að opinber heimsókn hafi átt sér stað í janúar ef vitað var hvað myndi gerast við mánaðamót.

Arkitekt ódæðisverka

Nýlegar yfirlýsingar Joes Bidens, forseta Bandaríkjanna, um að beita landið frekari þvingunaraðgerðum vegna valdaránsins eru líklega ekki til þess fallnar að grafa undan áhrifum Kína. Kínverska ríkið er í þeirri stöðu að geta aukið áhrif sín sama hvernig fer og teflir því nú sjálfu sér fram sem sáttasemjara. Hneykslun, fordæming, réttlætiskennd og tilheyrandi aðgerðir vestrænna lýðræðisríkja hafa því í raun ekki gert annað en að styðja við áhrif andlýðræðislegra afla.

Eitt er þó ljóst og það er að Róhingjar í flóttamannabúðum í Bangladess sem fögnuðu handtöku Suu Kyi hafa litla ástæðu til að gleðjast. Leiðtogi nýju herstjórnarinnar, herforinginn Min Aung Hlaing, er sá sem skipulagði og sá um framkvæmd aðgerða hersins gegn Róhingjum. Herinn hefur allt frá 1982 níðst á þessum minnihluta en þá voru Róhingjar sviptir ríkisborgararétti.