Laura Frederikke Claessen fæddist 24. janúar 1925. Hún lést 13. janúar 2021.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku mamma, nú ert þú farin, við töluðum stundum um að sá tími myndi koma.

Þrátt fyrir það og langa ævi þína er svo erfitt að kveðja.

Þú hefur alltaf verið alger klettur, dugleg og kom það sterkt fram þegar pabbi lést.

Þú hafðir svo gaman af að ferðast og varst endalaust ættrækin. Elskaðir að heimsækja fjölskylduna þína í Kaupmannahöfn og það síðast rétt fyrir 95 ára afmælið, þar sem þú labbaðir stolt yfir nýju göngubrúna frá Nýhöfn til Christianshavn. Þú fórst líka á hverju ári til Þýskalands til fjölskyldunnar þar. Vildir ólm hitta nýja ættingja í fjölskyldunni og fylltist stolti yfir barnabörnunum og barnabarnabörnunum þínum.

Ég gekk í Oddfellow, þar sem þú hafðir starfað í mörg ár og var það nú aldeilis rétt ákvörðun. Þú varst svo ánægð með að geta verið með mér og við áttum svo margar stundir saman á fundum. Ég var alltaf svo stolt af hversu eldklár þú varst og fróðleikurinn sem þú geymdir kom mér sífellt á óvart.

Það sem vegur þyngst þegar ég hugsa til þín er að þú varst alltaf til staðar þegar á þurfti að halda.

Þú skilur eftir stórt tómarúm hjá okkur Kidda, dætrum okkar og barnabörnum. Sérstaklega á jólunum og öðrum tyllidögum þar sem þú varst alltaf með okkur. Við erum þakklát fyrir allar minningarnar sem þú hefur skilið eftir hjá okkur og þær munum við ávallt geyma í hjörtum okkar. Guð veri með þér og takk fyrir allt.

Þú getur fellt tár því að hún er farin

Eða þú getur brosað yfir því að hún

lifði

Þú getur lygnt aftur augunum og beðið þess að hún komi tilbaka

Eða þú getur opnað augun og séð allt sem að hún skildi eftir.

(David Harkins)

Þín dóttir,

Halla.