Hús Lögreglubílar við húsið í Malling í Danmörku þar sem Freyja bjó.
Hús Lögreglubílar við húsið í Malling í Danmörku þar sem Freyja bjó. — Ljósmynd/Øxenholtfoto/Ritzau
Þó nokkrir hafa verið yfirheyrðir vegna morðsins á Freyju Egilsdóttur Mogensen sem myrt var á heimili sínu í Malling í Danmörku, að sögn Michaels Kjeldgaards, yfirlögregluþjóns á Austur-Jótlandi.

Þó nokkrir hafa verið yfirheyrðir vegna morðsins á Freyju Egilsdóttur Mogensen sem myrt var á heimili sínu í Malling í Danmörku, að sögn Michaels Kjeldgaards, yfirlögregluþjóns á Austur-Jótlandi.

Hann segir að nú séu allir möguleikar skoðaðir og reynir lögreglan hvað hún getur til að afla frekari sönnunargagna.

Fyrrverandi eiginmaður Freyju hefur játað að hafa myrt hana og er hann nú í gæsluvarðhaldi.

Kjeldgaard kveðst ekki geta sagt hvar börn Freyju og mannsins voru stödd þegar hún var myrt. Núna eru þau hjá nánum ættingjum og hafa þau fengið aðstoð frá sérfræðingum. „Rannsóknin gengur vel en vegna rannsóknarhagsmuna get ég ekki farið nákvæmlega út í hvað hún hefur leitt í ljós,“ segir Kjeldgaard.

Krufningu á líki Freyju er lokið en Kjeldgaard gat ekki gefið frekari upplýsingar um krufninguna þegar blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við hann í gærkvöldi.

Miðlæg rannsóknardeild íslensku lögreglunnar hefur boðist til að hjálpa lögreglunni á Austur-Jótlandi við rannsóknina en ekki hefur enn komið til þess. Kjeldgaard kveðst þó ekki útiloka að samband verði haft við íslensku lögregluna ef bakgrunnsupplýsingar vantar.

Minningarathöfn um Freyju fór fram í Malling í gær. freyr@mbl.is