[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég reyni alltaf að lesa meðfram námi, með misjöfnum árangri, en í fyrra lögðum við kærastan okkur sérstaklega fram við að lesa meira. Í hvatningarskyni skráðum við bækurnar sem við lásum hvort á sinn listann sem héngu í svefnherberginu okkar.

Ég reyni alltaf að lesa meðfram námi, með misjöfnum árangri, en í fyrra lögðum við kærastan okkur sérstaklega fram við að lesa meira. Í hvatningarskyni skráðum við bækurnar sem við lásum hvort á sinn listann sem héngu í svefnherberginu okkar. Keppninni lauk með jafntefli en okkur tókst báðum að lesa töluvert meira í fyrra en árið á undan. Bækurnar sem standa helst upp úr hjá mér eru Líf meðal villimanna eftir Shirley Jackson, Nafn rósarinnar eftir Umberto Eco og Karamazov-bræðurnir eftir Fjodor Dostojevskí.

Líf meðal villimanna segir frá húsmóður í Vermont-fylki í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar og hversdagsamstri hennar, t.d. vandræðagangi eiginmannsins, uppátækjum barnanna þeirra, húsnæðisvandamálum og mörgu fleira. Höfundur lýsir fáránlegum uppákomum í heimilislífinu sem hvílir allt á herðum húsmóðurinnar og skrifar um leið hárbeitta ádeilu um þessa hefðbundnu fjölskyldueiningu. Bókin er meinfyndin.

Seinni tvær bækurnar voru liður í því að „hámenningarvæða“ leslistann minn eftir að hafa sætt gagnrýni fyrir að lesa tvær Tinna-bækur í röð. Það kom skemmtilega á óvart hvað báðar bækurnar hafa mikið afþreyingargildi. Nafn rósarinnar er fyrsta glæpasagan sem ég les í mörg ár. Bókin er bræðingur af Sherlock Holmes og miðöldunum með smá keim af Erlendi rannsóknarlögreglumanni. Munkur finnst myrtur í ítölsku klaustri á miðöldum og aðkomumunkur og hjálparsveinn hans ráðast í það að leysa glæpinn. Karamazov-bræðurnir er aftur á móti réttarhaldadrama af bestu gerð með tilheyrandi siðferðisspurningum. Þrír hálfbræður sem er öllum í nöp við föður sinn komast í kast við lögin þegar faðirinn er óvænt myrtur og öll spjót beinast að einum bræðranna sem þverneitar að hafa framið glæpinn.

Annars langar mig að nefna smásagnasafnið Vetrargulrætur eftir Rögnu Sigurðardóttur sem stóð, að mínu mati, upp úr í íslenskri bókaútgáfu árið 2019. Í fimm sögum segir frá fimm ólíkum, listhneigðum einstaklingum í krísu. Þ.ám. er listakona á sjötta áratugnum sem áttar sig á því að eiginmaður hennar lítur ekki á hana sem jafningja sinn í listsköpun, íslensk hefðarfrú sem hýsir gamlan skólafélaga sinn sem er landflótta á tímum nasista og leikskólakennari á 21. öld sem reynir að hafa uppi á barni sem týndist á hennar vakt.

Að lokum vil ég vekja athygli á væntanlegri ljóðabók Þórðar Sævars Jónssonar – Brunagaddi – sem las ég nýverið yfir. Bókin er verulega fyndin og sniðug og ég held að margir muni hafa gaman af henni.