Stjörnur Ofurhetjur eru stjörnur þáttanna.
Stjörnur Ofurhetjur eru stjörnur þáttanna.
Í svartasta skammdeginu í byrjun janúar horfði ég á þættina The Boys á streymisveitunni Amazon Prime. Þættirnir eru framleiddir af Prime og bera það með sér en þær þáttaraðir sem ég hef horft á hingað til frá Prime eiga allar nokkra hluti sameiginlega.

Í svartasta skammdeginu í byrjun janúar horfði ég á þættina The Boys á streymisveitunni Amazon Prime. Þættirnir eru framleiddir af Prime og bera það með sér en þær þáttaraðir sem ég hef horft á hingað til frá Prime eiga allar nokkra hluti sameiginlega. The Boys fjallar um ungan mann í heimi þar sem ofurhetjur eru eins og hverjar aðrar Hollywood-stjörnur. Þær mæta á viðburði, kyssa börn og eiga skemmtigarða sér til heiðurs. Maðurinn ungi uppgötvar hina myrku hlið þessara vinsælustu stjarna Bandaríkjanna þegar unnusta hans deyr fyrir hendi einnar þeirra. Einkenni Amazon Prime-þátta, sem ég nefndi hér fyrr, eru einlægur en súrrealískur húmor þar sem venjulegt fólk finnur sig oft í óvenjulegum aðstæðum, jafnvel að bjarga heiminum, með skrautlegum aukapersónum og grófu ofbeldi. Undirtónninn er myrkur og tekið er á öllum helstu málefnum samtímans, kynþáttafordómum, kynbundnu ofbeldi og tilvistakreppu þúsaldarbarnanna. Það sem setur þó punktinn yfir i-ið og virðist vera rauði þráðurinn í þáttum Amazon er að ógnin sem stafar að heiminum eru nasistar frá seinni heimsstyrjöldinni, sem tókst að flýja örlög sín og hafa allar götur síðan skipulagt nýja aðför að heimsyfirráðum.

Karítas Ríkharðsdóttir

Höf.: Karítas Ríkharðsdóttir