Flóttamenn Borgarastríðið hefur skilið eftir djúp sár í Jemen.
Flóttamenn Borgarastríðið hefur skilið eftir djúp sár í Jemen. — AFP
Stríðandi fylkingar í Jemen fögnuðu í gær ákalli Joe Bidens Bandaríkjaforseta um að leitað yrði friðar í borgarastyrjöldinni sem geisað hefur þar undanfarin sex ár.

Stríðandi fylkingar í Jemen fögnuðu í gær ákalli Joe Bidens Bandaríkjaforseta um að leitað yrði friðar í borgarastyrjöldinni sem geisað hefur þar undanfarin sex ár. Vöruðu sérfræðingar í málefnum landsins hins vegar við því að hægara yrði sagt en gert að binda enda á átökin.

Biden sagði í fyrstu forsetaræðu sinni um utanríkismál að stríðinu yrði að ljúka, og að Bandaríkin myndu hætta öllum stuðningi við „sóknaraðgerðir“ í stríðinu. Sagði Biden að í því fælist að vopnasölu frá Bandaríkjunum til Jemens yrði hætt. Biden útnefndi jafnframt Timothy Lenderking sem sérstakan erindreka sinn í Jemen, og er honum falið að liðka fyrir friðarsamningum.

Hin alþjóðlega viðurkennda ríkisstjórn Jemens, sem studd er af Sádi-Aröbum, fagnaði yfirlýsingu Bidens og sagði brýnt að styðja við diplómatískar leiðir til að koma á friði.

Uppreisnarmenn úr röðum Huthi-manna sögðust einnig styðja friðarumleitanir Bidens, en þeir ráða nú yfir megninu af landinu, þar á meðal höfuðborginni Saana. Sagði talsmaður uppreisnarmanna hins vegar að binda þyrfti enda á allar árásir og aflétta viðskiptabanni sem sett hefur verið á landið.

Fagnaði „sögulegri ræðu“

Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, sagði að ræða Bidens hefði verið „söguleg“ og að Sádi-Arabar hlökkuðu til að vinna með Bandaríkjamönnum að friði, líkt og í sjö áratugi á undan.

Sérfræðingar sem AFP-fréttastofan ræddi við sögðu hins vegar að þó að ræðan hefði lofað góðu, væri allt annað mál að koma á friði, meðal annars vegna stirðra samskipta Bandaríkjamanna og Sádi-Araba við Írani, en þeir hafa stutt við bakið á uppreisnarmönnum um langa hríð.