Ljóst er að margir sem tengjast íþróttahreyfingunni urðu fyrir vonbrigðum í gær þegar nýjar tilslakanir í sóttvarnaaðgerðum voru kynntar. Iðkendur fá aðeins meira rými en áður en áhorfendur mega ekki mæta á íþróttaviðburði til 3. mars, hið minnsta.
Ljóst er að margir sem tengjast íþróttahreyfingunni urðu fyrir vonbrigðum í gær þegar nýjar tilslakanir í sóttvarnaaðgerðum voru kynntar. Iðkendur fá aðeins meira rými en áður en áhorfendur mega ekki mæta á íþróttaviðburði til 3. mars, hið minnsta. Staðan verður því áfram sú sama og frá 13. janúar þegar keppni var leyfð á nýjan leik.

Ólafur Þór Jónsson skrifaði í gær í pistli á netmiðlinum Karfan.is: „Það hljóta að vera ákveðin vonbrigði fyrir félögin að geta ekki fengið inn tekjur af miðasölu í fyrirsjáanlegri framtíð. Núverandi tilslakanir gilda til 3. mars. Á sama tíma og áhorfendabannið stendur er hins vegar aukið við fjölda í tilslökunum í leikhúsum, líkamsræktum, búðum, söfnum og fleiri stöðum.“

Ómar Ingi Guðmundsson knattspyrnuþjálfari sagði á Twitter í gær: „Ef ég skutla barninu mínu á ÍR-völlinn að keppa má ég ekki standa þar utandyra að horfa. Betra að ég fari í bíó í næsta húsi á meðan leikurinn er og sitji innandyra og í lengri tíma meðal fjölda sem væri áhorfendamet í 5. flokki.“

Miðað við litla útbreiðslu veirunnar í samfélaginu, og aðrar tilslakanir, væri eflaust hægur vandi að hleypa 50 til 100 grímuklæddum áhorfendum á leiki, þar sem aðstæður bjóða upp á slíkt. Allt misræmi, eins og það sem nefnt er hér að ofan veldur ávallt deilum og pirringi.

En nú er ekki annað í boði en að halda niðri í sér í andanum í þrjár vikur enn og skoða stöðuna að þeim liðnum. Vetrargreinarnar hagnast mest á því að fá áhorfendur í apríl og maí. Betra að fá ekki bakslag fyrir þann tíma. Eftir það verður ástandið vonandi farið að nálgast það að geta kallast eðlilegt á ný.