Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Kjarasamningar sjómanna í Sjómannasambandi Íslands hafa verið lausir í rúmt ár.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Kjarasamningar sjómanna í Sjómannasambandi Íslands hafa verið lausir í rúmt ár. Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri SSÍ, segir að viðræður við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi séu í gangi og ef ekki fari að þokast í samkomulagsátt líði að því að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara. Nokkurrar óþreyju sé farið að gæta hjá félagsmönnum.

Hólmgeir segir að kröfugerð sambandsins hafi legið fyrir í febrúar í fyrra og aðilar hafi hist nokkrum sinnum til að fara yfir málin. Hann segir að hægt hafi gengið og kórónufaraldurinn og óvissa samfara honum eigi þátt í því að rólegt hafi verið yfir viðræðum. Enn sé ekki farið að reyna á hvar eða hvort menn strandi í þessum viðræðum.

Hluti af vinnunni sé að fara yfir bókanir sem gerðar voru við samningsgerð að loknu verkfalli í febrúar 2017. Með þeim hafi m.a. verið ætlunin að einfalda samningana og gera þá aðgengilegri fyrir þá sem eiga að vinna eftir þeim. Sum þessara atriða séu flókin og krefjist vinnu, en um önnur geti orðið ágreiningur. „Menn eru farnir að hotta á okkur að klára málin og á einhverjum tímapunkti verður að spýta í lófana. Menn reyna sitt besta, en ef það dugar ekki fer málið í ákveðinn feril,“ segir Hólmgeir.

Mál fyrir Félagsdómi

Málflutningur var fyrir Félagsdómi 2. febrúar vegna ágreinings um einn lið kjarasamningsins. Þar er kveðið á um að þegar afli er seldur til skylds aðila sé skiptaverð 0,5% hærra en þegar afli er seldur óskyldum aðila. Hólmgeir segir að SFS haldi því fram að um tímabundið ákvæði hafi verið að ræða sem hefði átt að falla út 1. desember 2019. Sjómannasambandið haldi því hins vegar fram að ákvæðið sé enn hluti kjarasamnings. Viðtekin venja sé að ef nýr samningur sé ekki gerður áður en síðastgildandi samningur rennur út þá gildi eldri samningur.

SFS dregur lappirnar

Fjallað var um stöðuna í kjaraviðræðunum í pistli á heimasíðu Framsýnar á Húsavík í lok janúar þar sem sagt var frá aðalfundi sjómannadeildar félagsins. Þar segir að SFS hafi dregið lappirnar með því að ganga ekki að sanngjörnum kröfum sjómanna. „Viðræður við útgerðarmenn hafa vægast sagt gengið mjög illa og því lítið að frétta. Allar tillögur frá samtökum sjómanna til SFS varðandi það að liðka til í samningamálum hafa verið slegnar út af borðinu nánast án þess að þær væru skoðaðar frekar,“ segir í pistlinum.

Um málið sem nú er fyrir Félagsdómi segir að steininn hafi tekið úr þegar SFS hafi ákveðið einhliða að hluti kjarasamnings gildi ekki lengur og falli út úr samningnum. „Slík vinnubrögð hafa ekki verið viðhöfð áður í sögu kjarasamninga sjómanna á Íslandi, það er að annar samningsaðilinn taki út grein úr kjarasamningi þar sem hún hentar honum ekki lengur,“ segir á heimasíðunni.