Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Ég hygg að hvergi sé meiri verðmætasköpun í sjávarútvegi en á Íslandi. Til hliðar hefur myndast hátækniiðnaður og hugbúnaðargerð sem eiga fáa sína líka. Er góð ástæða til að hrófla mikið við slíkum máttarstólpa? Væri það ekki heimskra manna ráð?

Sjálfsgagnrýni var mikið stunduð á síðustu öld í stjórnmálaflokkum sem hafa sem betur fer lagt upp laupana. Nú tekur helsti launaði ráðgjafi Sjálfstæðisflokksins upp kefli sjálfsgagnrýninnar og spyr hvenær Sjálfstæðisflokkurinn hætti að vera flokkur breytinga. Hann tekur ýmis dæmi, en athygli hlýtur að vekja hvar ráðgjafinn telur að helst sé pottur brotinn. Hafi gagnrýninni verið ætlað að skora hjá okkur sjálfstæðismönnum, þá tel ég hana hafa misst marks. Þannig tel ég, gagnstætt ráðgjafanum, að stefna Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálum sé til hreinnar fyrirmyndar og hafi lengi verið; að fara sér hægt og breyta henni eftir þörfum í víðtækri þjóðarsátt.

Sjávarútvegur og landbúnaður

Stefna flokksins í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum er meðal þess sem verður skotspónn ráðgjafans. Sjávarútvegsstefna Íslands hefur breytt þessum atvinnuvegi á 30 árum frá því að hjara á reddingum dag frá degi í að verða hátæknigrein. Ég hygg að hvergi sé meiri verðmætasköpun í sjávarútvegi en á Íslandi. Til hliðar hefur myndast hátækniiðnaður og hugbúnaðargerð sem eiga fáa sína líka. Er góð ástæða til að hrófla mikið við slíkum máttarstólpa? Væri það ekki heimskra manna ráð?

Munu heimsviðskipti alltaf haldast ótrufluð hvað sem á gengur? Þjóðin, eða meirihluti hennar, skilur hvers virði það er að geta reitt sig á innlenda matvælaframleiðslu. Gæði framleiðslunnar eru meiri en víðast hvar. Um það er ekki deilt. Öryggi á neyðartímum verður ekki tryggt nema með innlendum landbúnaði. Þetta er öðrum þjóðum líka ljóst. Ekki er nema rúmur áratugur frá að á þetta reyndi hér á landi þegar reynt var að koma í veg fyrir gjaldeyrisviðskipti við Ísland og munaði minnstu að tækist. Sjálfsagt má eitt og annað bæta, en úrslitaatriði er að öflugur íslenskur landbúnaður sé áfram stundaður.

Orku- og loftslagsmál

Ráðgjafinn vill haga orkumálum eins og Danir. Þarna hlýtur hann nú að eiga við einhverja afmarkaða þætti, en ekki orkuframleiðslu Dana. Við Íslendingar getum verið stoltir af árangri okkar í nýtingu hreinnar orku. Við gætum að vísu lokað álverunum og framleiðslan flyttist þá til Kína. Þar með minnkaði kolefnissporið margumtalaða um 80% hér en breytti auðvitað engu fyrir loftslagið í heiminum nema til hins verra. Hitt væri skoðunar vert að fara yfir kolefnisspor netverslunar þar sem vörur eru fluttar frá Asíu til Evrópu með flugi og síðan keyrðar í hvert hús. Ef skila þarf vörunni er það sama upp á teningnum. Mikil sóun er svo fylgifiskurinn. Við ætlum svo að taka forystu í málaflokknum og bjarga heiminum. Brosir maður ekki bara að þeirri tillögu? Hitt er svo annað mál að loftslagsstefna þar sem Kína eykur stöðugt kolefnislosun meðan Bandaríkin og Evrópa minnka hana gengur ekki upp; hún skilar heiminum engum ávinningi.

Dagar Sjálfstæðisflokkinn uppi?

Hægriflokkar í Evrópu hafa minnkað eða þá dagað uppi. Það á t.d. við um sænsku móderatana, en einkum danska Íhaldsflokkinn. Kristilegir demókratar og franskir hægrimenn mega muna sinn fífil fegri. Sá flokkur sem nú stendur upp úr er breski Íhaldsflokkurinn. Hann stendur við sína grundvallarstefnu án afsláttar. Þar er góð fyrirmynd (þótt við verðum auðvitað að halda EES-samstarfinu). Hinir fyrrnefndu hafa misst sambandið við kjósendur með því að eltast við mýrarljós í kappi við vinstriflokka. Nóg framboð er af slíkum flokkum á Íslandi án þess að Sjálfstæðisflokkurinn bætist í flóruna. Nú heldur Ísland á heimsmetinu í skattheimtu og vilja margir bara bæta í! Útgjöld til ýmissa málaflokka hafa verið sett á sjálfstýringu. Þarna og víðar á Sjálfstæðisflokkurinn brýnt erindi. Þau mál sem ráðgjafinn nefndi eru ekki líkleg til að höfða til sjálfstæðisfólks að mínu mati. – Sem betur fer.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.