— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hvernig kviknaði hugmyndin að leikritinu Útlendingurinn? Fyrir einu og hálfi ári flutti ég til Bergen í Noregi en kona mín fór þar í nám. Þar þurfti ég að aðlagast lífi þar sem ég hafði hvorki hlutverk né erindi.
Hvernig kviknaði hugmyndin að leikritinu Útlendingurinn?

Fyrir einu og hálfi ári flutti ég til Bergen í Noregi en kona mín fór þar í nám. Þar þurfti ég að aðlagast lífi þar sem ég hafði hvorki hlutverk né erindi. Ég fór að venja ferðir mínar í fallegan dal sem heitir Ísdalur. Ég komst að því að þar hafði fundist lík af konu fyrir hálfri öld. Líkfundurinn er einn umtalaðasti atburður sem átt hefur sér stað í Bergen í seinni tíð, en þetta mál hafði vakið heimsathygli og gerir enn.

Nú hverfur fólk oft og finnst látið. Hvað er svona merkilegt við þessa konu?

Einmitt, góð spurning. Líkið fannst brunnið og farangur konunnar fannst á lestarstöðinni. Þar mátti finna nokkra grunsamlega hluti, eins og dulargervi. Þar fannst líka vasabók með einkennilegum kóða sem reyndist vera ferðaáætlun. Hún ferðaðist undir dulnefnum. Margir héldu að hún væri njósnari en aðrir að hún væri veik á geði. Það tókst aldrei að leysa ráðgátuna um hver þessi kona var og margt sem vekur spurningar.

Er þetta hluti af ráðgátuþríleik?

Já. Ég skrifaði Club Romantica og það varð áhugi á að halda áfram með sama teymi í Borgarleikhúsinu. Þannig að ég skrifaði Útlendinginn og mun koma með þriðja leikritið síðar, sem mun snerta á sama þema. Ég er að leita að merkingu í heimi sem virðist á köflum vera merkingarlaus. Ég er líka að halda á lofti minningu fólks sem annars mundi gleymast.

Þú vilt ljá löngu liðnu fólki merkingu?

Já, það er kannski frávörpun á eigin ótta við að gleymast.

Leikritið Útlendingurinn er nú sýnt á Litla sviði Borgarleikhússins. Friðgeir Einarsson er höfundur og leikari verksins. Með honum á sviðinu er Snorri Helgason sem flytur eigin tónlist. Miðar fást á tix.is.