[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Sigurðsson Nordal Þorgerður Anna Gunnarsdóttir Jóhann Ólafsson Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í gær tilslakanir á samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins sem gilda munu í þrjár vikur, frá 8. febrúar til 1. mars. Þakka má góðu gengi Íslendinga í baráttunni við faraldurinn þessar snemmbúnu breytingar, en til stóð að núgildandi reglugerð myndi gilda til 17. febrúar.

Jón Sigurðsson Nordal

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

Jóhann Ólafsson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í gær tilslakanir á samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins sem gilda munu í þrjár vikur, frá 8. febrúar til 1. mars. Þakka má góðu gengi Íslendinga í baráttunni við faraldurinn þessar snemmbúnu breytingar, en til stóð að núgildandi reglugerð myndi gilda til 17. febrúar.

Tilslakanirnar eru byggðar, að vanda, á minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og eru nokkuð varfærnar. Tveggja metra nálægðartakmörk verða enn í gildi, sem og grímuskylda í almenningssamgöngum, verslunum og þar sem ekki er hægt að halda viðunandi bili milli manna. Þá verða almennar fjöldatakmarkanir áfram 20 manns. „Þetta eru varfærin skref sem eru í samræmi við þá staðreynd að okkur gengur mjög vel hérna innanlands, en líka þá staðreynd að faraldurinn er á mikilli siglingu alls staðar í kringum okkur,“ segir heilbrigðisráðherra um tilslakanirnar.

Rýmri undanþágur

Meðal breytinga eru rýmri undanþágur frá fjöldatakmörkunum en áður hafa verið. Fjöldatakmörk gesta í sviðslistum verða aukin úr 100 í 150 manns og trú- og lífsskoðunarfélögum verður heimilt að halda athafnir, þar með taldar útfarir, með mest 150 manns. Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verður 150 manns með hliðsjón af fermetrafjölda og sama gildir um gesti á söfnum. Þá verður heilsu- og líkamsræktarstöðvum heimilt að opna búningsaðstöðu að nýju og æfingar í tækjasal verða leyfðar, að því gefnu að ekki séu fleiri en 20 manns í hverju rými. Hámarksfjöldi verður allt að 50% af leyfilegum fjölda líkamsræktarstöðvanna. Áfram þarf að skrá þátttöku fyrir fram.

Leyft að opna bari og krár á ný

Með tilkomu breytinganna mega krár, barir og skemmtistaðir hafa opið, en þó ekki lengur en til kl. 22. Sama gildir um spilakassa og spilasali. Veitingar skulu afgreiddar til gesta í sæti og ekki má hleypa nýjum gestum inn eftir kl. 21.

Þá leggur sóttvarnalæknir til að viðvörunarlitakóða vegna veirufaraldurins á Íslandi verði breytt úr appelsínugulum, sem stendur fyrir „aukna hættu“, í gulan, sem hvetur fólk til að „vera á verði“. Ráðherra bárust ekki tillögur um hertar sóttvarnaaðgerðir á landamærum Íslands, þrátt fyrir þá fullyrðingu sóttvarnalæknis að mesta ógnin stafi af landamærunum þar sem flest virk smit greinist þar í samanburði við smittölur innanlands.

Rekstraraðilar misánægðir

Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri líkamsræktarstöðvarinnar Hreyfingar, segir tilslakanirnar vera miklar gleðifréttir. „Þetta hefur frábær áhrif á þá þjónustu sem við getum boðið,“ segir hún. Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins, segir það gott að allur vafi sé nú tekinn af því hvort æfa megi í tækjasölum líkamsræktarstöðva, en að það muni langmestu að geta opnað búningsklefana á ný. Þau höfðu bæði gert sér vonir um að fleiri mættu koma saman, en dvelja ekki við það í bili. Ekki eru þó allir á einu máli um ágæti tilslakana ráðherra. „Við bareigendur erum enn mjög ósáttir með þá meðferð sem við höfum fengið og teljum að það hafi verið brotið á jafnræðisreglu,“ segir Björn Árnason sem rekur Skúla Craft Bar. Hann segist þó ánægður með að geta loksins haft opið aftur og að fá starfsfólk sitt til vinnu. Björn er í hópi bareigenda sem hyggjast höfða skaðabótamál vegna fyrri sóttvarnareglna sem neyddu vínveitingastaði til að stöðva rekstur svo mánuðum skipti. Hann vonast til að málareksturinn muni tryggja „samræmi í reglum um bari, kaffihús og veitingastaði, líkt og er í löndunum í kringum okkur“.

Tillögur um hertar aðgerðir á landamærum liggja ekki fyrir

• Breyting á sóttvarnalögum samþykkt á Alþingi í vikunni Dómsmálaráðherra höfðu í gær ekki borist tillögur frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni um hertar sóttvarnaaðgerðir á landamærum, enda þótt sóttvarnalæknir hafi boðað að með nýjum sóttvarnalögum sé lagður lagagrundvöllur fyrir slíku.

Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna í vikunni að til greina kæmi að herða ráðstafanir á landamærum enn frekar, en nú ber öllum sem hingað koma að fara í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra staðfesti gær við mbl.is að engar tillögur um breytingar á þessu sviði hafi borist henni frá sóttvarnalækni.

Breytingar á sóttvarnalögum voru samþykktar einróma á Alþingi á fimmtudag. Var breytingunum ætlað að skýra ákvæði laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir, m.a. á grundvelli fenginnar reynslu af yfirstandandi heimsfaraldri kórónuveiru.

Þórólfur sagði við mbl.is í gær, að mikilvægasta breytingin, sem gerð hafi verið á lögunum, sé sú að nú sé hægt að beita ákveðnum ráðstöfunum til að setja fólk í sóttkví jafnvel þó að ekki væri um staðfesta sýkingu að ræða, heldur aðeins grun um smit.

Einnig hafi sá möguleiki verið nefndur að vísa fólki úr landi ef það neitar að gangast undir reglurnar sem hér eru í gildi.

Þórólfur sagði á fimmtudag að í ljósi góðrar stöðu í faraldrinum hér á landi stafaði mesta ógnin af landamærunum; þar greindust flest virk smit í samanburði við smittölur innanlands. Þá nefndi hann hættuna af bresku afbrigði veirunnar, sem leikur nú margar nágrannaþjóðir grátt, enda talið meira smitandi en hefðbundin afbrigði kórónuveiru. karitas@mbl.is