Fundur Lavrov og Borrell á fundi sínum í Moskvuborg í gær.
Fundur Lavrov og Borrell á fundi sínum í Moskvuborg í gær. — AFP
Rússnesk stjórnvöld ákváðu í gær að vísa sendiráðsstarfsmönnum þriggja aðildarríkja Evrópusambandsins úr landi, en þeir voru sakaðir um að hafa tekið þátt í mótmælum til stuðnings Alexei Navalní.

Rússnesk stjórnvöld ákváðu í gær að vísa sendiráðsstarfsmönnum þriggja aðildarríkja Evrópusambandsins úr landi, en þeir voru sakaðir um að hafa tekið þátt í mótmælum til stuðnings Alexei Navalní.

Ekki kom fram hversu mörgum hefði verið vísað úr landi, en sendiráðsstarfsmennirnir voru frá Póllandi, Þýskalandi og Svíþjóð. Var greint frá ákvörðuninni á meðan Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, fundaði með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Fordæmdi Borrell brottreksturinn þegar í stað, og hafnaði öllum ásökunum um að mennirnir hefðu brotið gegn skyldum sínum sem erlendir erindrekar.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði sömuleiðis að ekki væri hægt að réttlæta ákvörðun Rússa, og Svíar sögðust vera að íhuga að svara Rússum í sömu mynt.

Megintilefni heimsóknar Borrells var að ræða meðferð Navalnís við Lavrov, en Evrópusambandið hefur mótmælt fangelsun hans harðlega. Sagði Borrell við Lavrov að samskipti Rússlands og ESB væru „undir miklu álagi“ og að mál Navalnís væri „lágpunktur“.

Góðar fréttir fyrir mannkynið

Þetta var fyrsta heimsókn háttsetts embættismanns Evrópusambandsins til Rússlands frá árinu 2017, en auk Navalní-málsins ræddu Borrell og Lavrov einnig vonir um samstarf varðandi framleiðslu og kaup Evrópusambandsríkjanna á rússneska Spútník 5-bóluefninu gegn kórónuveirunni. Viðurkenndu þeir þó að Navalní-málið varpaði skugga á þær vonir.

Sagði Borrell að góð virkni bóluefnisins væri „góð tíðindi fyrir mannkynið“ og að hann vonaðist til að það fengi markaðsleyfi í Evrópu bráðum, þar sem skortur væri á bóluefni innan ESB.

Sagði Lavrov að Rússar og Bandaríkjamenn hefðu samþykkt að kanna hvort svigrúm væri til samstarfs um bóluefni, og bætti við að nokkur Evrópuríki hefðu einnig lýst yfir vilja til að hefja framleiðslu á Spútník-efninu.