Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson
Eftir Kristján Þór Júlíusson: "„...með endurskoðun búvörusamninga á þessu kjörtímabili hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar á starfsskilyrðum íslensks landbúnaðar til hins betra.“"

Endurskoðun rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins er lokið. Samkomulag sem undirritað var í vikunni er mikilvægur og ánægjulegur áfangi, enda er nú lokið fyrstu endurskoðun á öllum fjórum búvörusamningunum sem tóku gildi 1. janúar 2017.

Í opinberri umræðu koma reglulega fram kröfur um uppstokkun á íslenska landbúnaðarkerfinu eða því haldið fram að kerfið hafi ekkert breyst. Þótt minna fari fyrir meitluðum tillögum í þeirri umræðu er hún samt sem áður jákvæð. Gagnrýni og vangaveltur um hvernig hægt er að gera betur eru öllum holl. Því hef ég sagt, meðal annars í tengslum við mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem nú stendur yfir, að við eigum ekki að óttast endurskoðun á landbúnaðarkerfinu frá grunni.

Á sama tíma er í mínum huga óumdeilt, eins og neðangreind umfjöllun ber með sér, að með endurskoðun búvörusamninga á þessu kjörtímabili hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar á starfsskilyrðum íslensks landbúnaðar til hins betra.

Aukið jafnvægi í sauðfjárrækt

Sumarið 2018 óskaði ég eftir að endurskoðun sauðfjársamningsins yrði flýtt til að bregðast við erfiðleikum í greininni. Í janúar 2019 var skrifað undir slíkt samkomulag. Markmið þess var einna helst að stuðla að auknu jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir. Mikilvægast af öllu er að nú sjást merki um að hagur sauðfjárbænda sé að vænkast, meðal annars með hærra afurðaverði, þótt enn vanti þar upp á.

Þá tel ég að þeir aðlögunarsamningar sem samið var um hafi gefið góða raun en með þeim var bændum gert kleift að hætta eða draga úr sauðfjárframleiðslu og ráðast í staðinn í fjölbreytt verkefni í sveitum landsins. Við þurfum hins vegar áfram að leita leiða til að styrkja tekjugrunn sauðfjárræktarinnar og byggja undir stöðugan atvinnurekstur til frambúðar og stendur nú yfir vinna ráðuneytisins og Landssambands sauðfjárbænda til að svo megi verða. Henni verður lokið í vor með sameiginlegri aðgerðaáætlun.

Fallið frá afnámi kvótakerfis

Í samkomulag um endurskoðun nautgripasamningsins í október 2019 voru gerðar grundvallarbreytingar á hinum upphaflega samningi. Þannig var fallið frá afnámi kvótakerfis í mjólkurframleiðslu sem stefnt var að með undirritun nautgripasamningsins í febrúar 2016 og átti að taka gildi þann 1. janúar 2021. Óumdeilt er að núgildandi framleiðslustýring hefur átt ríkan þátt í að stuðla að jafnri stöðu mjólkurframleiðenda um land allt og tilsvarandi byggðafestu. Jafnframt hefur þetta kerfi ýtt undir þá miklu hagræðingu sem orðið hefur í greininni á undanförnum árum en sú þróun hefur orðið til hagsbóta fyrir bæði greinina og neytendur.

Stjórnvöld og bændur sameinuðust um leið um þá metnaðarfullu stefnumörkun að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Það er jafnframt ánægjulegt, og til marks um þá ríku áherslu sem lögð er á þessa stefnumörkun, að stjórnvöld og bændur eru sammála um að ráðstafa fjármagni af samningnum til aðgerða til að ná þessum markmiðum. Möguleikar bænda til loftslagsverkefna eru breytilegir og ætlunin er að nýta fjármunina sem best eftir aðstæðum á hverjum stað. Það mun skila bestum árangri.

Blásið til sóknar í garðyrkju

Með endurskoðun garðyrkjusamningsins í maí sl. var blásið til sóknar í íslenskri garðyrkju. Stjórnvöld og bændur sameinuðust um að bregðast strax við þeirri þróun að markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu á innanlandsmarkaði helstu garðyrkjuafurða fell í tonnum úr 75% árið 2010 í 52% árið 2018. Gerðar voru grundvallarbreytingar á starfsumhverfi greinarinnar og með því skapaðar forsendur þess að hægt verði að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu þremur árum og auka þannig markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu. Til þess að ná þessu markmiði var árlegt fjárframlag stjórnvalda til samningsins hækkað um 200 milljónir króna á ári, úr um 660 milljónum í um 860 milljónir. Þeir fjármunir verða m.a. nýttir til að stórauka framlög vegan raforkukostnaðar, auka við jarðræktarstyrki til að stuðla að fjölbreyttari ræktun á grænmeti hér á landi og til að tryggja að fleiri tegundir njóti beingreiðslna.

Búvörumerki fyrir íslenskar vörur

Í samkomulaginu sem undirritað var í vikunni er að finna ákvæði sem ég er sannfærður um að muni styrkja undirstöður landbúnaðarins, m.a. ákvæði um að ný landbúnaðarstefna fyrir Ísland verði grunnur að endurskoðun búvörusamninga árið 2023. Um leið verður mælaborð landbúnaðarins skref í að skapa betri yfirsýn yfir stöðu greinarinnar á hverjum tíma og útfærsla búvörumerkis fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir að norrænni fyrirmynd verður mikilvægt til að tryggja sérstöðu íslenskra vara á markaði, til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur. Um leið er að finna í samkomulaginu sameiginlegan skilning ríkis og bænda á því að tollvernd sé hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins.

Öflugur íslenskur landbúnaður

Að baki endurskoðun þessara fjögurra samninga er mikil vinna og ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komu að henni, meðal annars samninganefndum en Unnur Brá Konráðsdóttir var formaður samninganefndar ríkisins. Einnig vil ég þakka samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga undir forystu Brynhildar Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna, og Haraldar Benediktssonar alþingismanns fyrir þeirra mikilvæga framlag til vinnunnar.

Í mínum huga er afrakstur þessarar umfangsmiklu vinnu sá að undirstöður íslensks landbúnaður hafa verið treystar. Næsta stóra varðan í þeim efnum er mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem nú er í fullum gangi og mun ljúka í vor. Það eru því spennandi tímar fram undan.

Það er mikill velvilji í íslensku samfélagi til bænda. Hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma er að búa þeim sanngjörn starfsskilyrði og hjálpa þeim að nýta tækifæri sín sem best. Að því höfum við unnið með endurskoðun búvörusamninganna. Ég er sannfærður um að framtíðin er björt þó að landbúnaðurinn og þjóðfélagið í heild þurfi nú tímabundið að takast á við áföll af öðrum orsökum.

Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.