[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir kynninguna á fyrsta áfanga borgarlínu marka tímamót í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir kynninguna á fyrsta áfanga borgarlínu marka tímamót í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.

En nánar er fjallað um kynninguna í grein hér neðar á síðunni.

„Þetta er mjög mikilvægur áfangi vegna þess að þarna er búið að hugsa sig í gegnum þessa lykilleið sem er fyrsti áfanginn frá Hamraborg og upp í Ártúnshöfða. Það er auðvitað í mörg horn að líta í svo stórri framkvæmd en meginmálið er að þarna tekst að búa til heildarhugsun fyrir kerfið í heild sem tryggir þá að almenningssamgöngur verði frábær valkostur á höfuðborgarsvæðinu til langrar framtíðar. Borgarlína verður í sérrými 70% leiðarinnar. Það er lykillinn að því að ná árangri í að breyta ferðavenjum og létta á umferðinni fyrir alla að hafa framúrskarandi almenningssamgöngur,“ segir Dagur. Um frumdrög sé að ræða. Markmiðið sé meðal annars að fá viðbrögð við tillögunum.

Væntanlega útboð á næsta ári

Spurður hvenær uppbygging fyrsta áfanga gæti hafist segir Dagur að verkefnið verði á hönnunar- og undirbúningsstigi með breytingum á skipulagi út allt þetta ár. „Fyrstu framkvæmdir, ef frá eru taldir smá stubbar sem þegar eru komnir af stað að segja má, færu þá væntanlega til útboðs á næsta ári,“ segir Dagur um framhaldið.

Því sé raunhæft að hefja umfangsmeiri framkvæmdir á næsta ári.

Áformin fela meðal annars í sér gerð brúar yfir Elliðavog og lagningu Sæbrautar í stokk á sömu leið. Að sögn Dags er stokkahluti verkefnisins á frumstigi. Hann vonist til að geta kynnt drög í vor.

„Framvæmdir við Sæbrautarstokkinn gætu mögulega hafist í ekki svo fjarlægri framtíð. Við erum að vinna að frumdrögum og meta valkostina en segja má að stokkurinn sé fyrsti áfangi Sundabrautar. Báðar útfærslur hennar myndu leiða til aukinnar umferðar sem núverandi Sæbraut þolir ekki og það ásamt borgarlínu kallar á stokkalausn,“ segir Dagur.

Fleiri verkefni séu í farvatninu. Fram undan sé frekari uppbygging á stofnstíganeti fyrir hjólandi og gangandi og endurbætur á stýringu umferðarljósa í samvinnu við alþjóðlegt greiningarfyrirtæki.

Uppbygging á Ártúnshöfða

Þá muni framkvæmdir á Ártúnshöfða geta hafist á næsta ári. Síðar í þessum mánuði verði haldinn streymisfundur um fyrirhugað deiliskipulag þar. Það er bæði skipulag fyrir Ártúnshöfðann og stækkun Bryggjuhverfis en sú uppbygging er þegar hafin. Stendur m.a. til að reisa stóra biðstöð fyrir borgarlínu á Ártúnshöfða, á svonefndu Krossmýrartorgi, sem verður hverfiskjarni.

Gatnamótin í frumhönnun

Spurður um fyrirhuguð mislæg gatnamót á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar segir Dagur verkefnið í frumhönnun. Verið sé að greina valkosti. Hvort verkefnið geti hafist í ár velti meðal annars á því hvort breyta þurfi skipulaginu.

Hvað varðar Arnarnesveg segir Dagur unnið að deiliskipulagi á því verkefni. Útfærsla framkvæmdarinnar hafi verið kynnt.

Árið 2019 undirrituðu ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu – Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes – svonefndan samgöngusáttmála til fimmtán ára. Fól hann í sér uppbyggingu á umferðarmannvirkjum og innviðum borgarlínu.

Samkvæmt kynningu á sáttmálanum (sjá graf) átti að ljúka mislægum gatnamótum við Bústaðaveg/Reykjanesbraut og lagningu Arnarnesvegar – frá Rjúpnavegi til Breiðholtsbrautar – á þessu ári.

Dagur segir ekki óviðbúið að tímaáætlunin hafi tekið breytingum.

„Það leið hálft ár frá því samgöngusáttmálinn var undirritaður þar til samgönguáætlun var samþykkt á Alþingi. Ég er ekki að segja að munurinn liggi í því en ég veit ekki betur en að það hafi verið unnið ötullega að undirbúningi allra verkefna sem í sáttmálunum eru. Hann er á mikilli siglingu í góðri sátt allra sem að honum koma,“ segir Dagur.

Þrýstu á ákveðin verkefni

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans hafi verið yfirfarin að minnsta kosti tvisvar. Við kynninguna á sáttmálanum hafi komið fram að tímalínur gætu breyst.

„Við þrýstum á að ákveðnum verkefnum yrði flýtt, meðal annars með hliðsjón af atvinnuástandi. Síðan taka verkin þann tíma sem þau þurfa að taka. Ég tala nú ekki um þegar jafnvel þarf að fara í umhverfismat við lagfæringar á vegum eins og nýleg túlkun og skilningur Skipulagsstofnunar vitnar um,“ segir Sigurður Ingi um þessa þróun.

Dæmi séu tafir á vegaframkvæmdum á Kjalarnesi vegna umhverfismats. Var um að ræða viðbætur við þjóðveginn á Kjalarnesi.

Að sögn Sigurðar Inga hefur Vegagerðin breytt verklagi í kjölfar málsins svo menn fái slíkar tafir ekki í bakið, enda kosti þær tíma og fé.

Arnarnesvegur boðinn út í ár

„Svo eru dæmi um að verkefni hafi verið í ágreiningi milli sveitarfélaga, eins og til dæmis Arnarnesvegurinn, en ég veit ekki betur en að þar sé komin ástættanleg niðurstaða sem er blanda af mislægum gatnamótum og brú. Mér skilst að náðst hafi samkomulag milli tveggja sveitarfélaga og ég er sáttur við þá niðurstöðu,“ segir Sigurður Ingi. Raunhæft sé að bjóða verkið út í ár og hefja framkvæmdir árið 2022.

Lengra sé í að framkvæmdir við mislæg gatnamót við Bústaðaveg/Reykjanesbraut geti hafist.

„Það er verið að vinna frumdrög og er reiknað með að þurfa tvö ár í for- og verkhönnun og allt sem því tilheyrir en ég býst við að þar undir sé meðal annars umhverfismat.

Það er hin þrönga túlkun Skipulagsstofnunar að jafnvel á vegum sem þarf að lagfæra, sem menn hafa ekki litið svo á að þyrftu að fara í umhverfismat, þurfi að fara í slíkt mat. Samkvæmt okkar nýjustu áætlunum lýkur gerð þessara gatnamóta ekki fyrr en árið 2025,“ segir Sigurður Ingi um stöðu málsins.

Sömu áhrif á borgarlínuna

Það sama megi almennt segja um uppbyggingu borgarlínu. Undirbúningur sé tímafrekari en áætlað var þegar sáttmálinn var undirritaður.

„Það er vaxandi vandamál sem ráðherra framkvæmda er ekkert endilega glaður með að það líður orðið sífellt lengri tími frá því menn taka ákvörðun um að fara í verkefni og þar til hinar raunverulegu framkvæmdir hefjast. Hin hliðin á þeim peningi er sú að því betur sem menn undirbúa verkin og gefa sér meiri tíma í undirbúninginn því betur gengur framkvæmdin og er þar af leiðandi líka innan fjárheimilda,“ segir Sigurður Ingi.

Samgöngusáttmálinn átti að kosta 120 milljarða. Ríkið skyldi leggja fram 45 milljarða og sveitarfélög 15 ma. Gert var ráð fyrir að sérstök fjármögnun skilaði 60 milljörðum.

Fyrsti áfangi borgarlínu verður 14 km langur

• Liggur frá Ártúnshöfða um miðborgina að Hamraborg Fyrsta framkvæmdalota borgarlínu mun standa yfir frá 2021 til 2025 og vera samtals 14 km löng frá Ártúnshöfða í Reykjavík niður í miðbæ og yfir Fossvog í Hamraborg í Kópavogi. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina er 24,9 milljarðar, en samhliða uppbyggingu borgarlínu er gert ráð fyrir 18 km af nýjum hjólastígum og 9 km af göngustígum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu með frumdrögum um fyrstu framkvæmdalotu borgarlínuverkefnisins, sem kynnt var í gær. Er skýrslan aðgengileg á vefslóðinni borgarlinan.is.

Árni M. Mathiesen, stjórnarformaður félagsins Betri samgangna ohf., sagði við mbl.is að með skýrslunni sé stiginn stór áfangi og að loksins sé komið fram eitthvað sem hönd á festi sem geti verið útgangspunktur í umræðum um hönnun og framkvæmd verkefnisins.

Árni sagði að lengi hafi verið rætt um borgarlínuverkefnið í opinberri og almennri umræðu án þess að hafa fulla vitneskju um viðfangsefnið. „Núna geta menn gert það með hliðsjón af þessum gögnum.“

Árni segir að þrjár megináskoranir séu í tengslum við borgarlínuverkefnið. „Í fyrsta lagi að tímasetningar standist. Í öðru lagi að kostnaðaráætlun standist og í þriðja lagi að markmið um samgönguhegðun náist. Og þetta síðasta er lykilatriði í verkefninu í heild.“

Gert er ráð fyrir að frumhönnunarvinna í fyrstu lotunni verði fyrstu tvö árin og framkvæmdir geti hafist að einhverju leyti árið 2023 og fari svo af stað af fullum krafti árið 2024. Tekið er fram í skýrslunni að 40% óvissa sé í kostnaðaráætluninni. Árni segir að meðan aðeins sé um frumdrög að ræða sé þetta hefðbundið óvissuhlutfall. Ekki sé hægt að gera endanlegar kröfur um nákvæmari áætlanir fyrr en hönnun er lokið.

Ítarlegar fréttir og viðtöl um málið er að finna á mbl.is.

thorsteinn@mbl.is