Stefán Karlsson fæddist 17. september 1979. Hann lést 19. janúar 2021.

Útförin fór fram 29. janúar 2021.

Í dag kveð ég kæran vin minn

Það er svo skrýtið að sama hve ég hugsa þá man ég ekki hvenær ég hitti þig fyrst. Finnst þú alltaf hafa verið hluti af mínu lífi, bæði sem eiginmaður Sillu æskuvinkonu minnar sem og einn af mínum kærustu og skemmtilegustu vinum.

Allt sem þú gerðir var af heilum hug og heilindum. Ég held ég muni aldrei þekkja neinn sem gat orðið vinur allra í salnum á kortéri og fengið þá til að fylgja sér. Ég gat alltaf treyst á þig, bæði í alvöru og í leik. Kunni að meta að þú varst ekki mikið að kíkja á klukkuna þegar það var gaman, kunni að meta einlægt spjall okkar um núið og framtíð, kunni að meta kærleikann milli ykkar Sillu og hve mikill fyrirmyndarfaðir þú varst.

Ég á óteljandi minningar með þér kæri vinur. Það eru forréttindi að hafa fengið að eiga vin eins og þig.

Þá ósjaldan að við sungum ...

Fyrirheit enginn á, aðeins von eða þrá. Tíminn fellur í gleymskunnar dá.

Fyrirheit enginn á, aðeins drauma og þrá.

Svo á morgun er allt liðið hjá.

Næst þegar ég tek þetta erindi mun ég hugsa til þín

Það er erfitt að ímynda sér framtíð án þín, elsku Stebbi minn. Hugur minn er hjá Sillu og strákunum, sem ég skal hafa auga með fyrir þig.

Sé þig í því næsta, þín vinkona,

Hera.

Það er með mikilli sorg í hjarta sem ég set niður nokkur orð um kæran vin sem kvaddi okkur alltof snemma.

Stefán Karlsson, eða Stebbi, var minn elsti og kærasti vinur. Ég á ekki minningar úr æsku þar sem hann var ekki vinur minn og ég ætlaði mér aldrei að þurfa að feta lífsins veg án hans. Við ætluðum að vera samferðamenn í lífinu og deila sigrum okkar og sorgum.

Stebbi var einn af þessum mönnum sem fólk hópaðist að. Hann hreif fólk með sér og fólk vildi kynnast honum og kalla hann vin sinn. Þess vegna get ég ekki verið annað en þakklátur fyrir þann tíma sem við þó fengum og að hann hafi kallað mig sinn vin. Það er djúpt skarð höggvið í mína tilveru. Hlaupin verða ekki eins, hittingarnir verða ekki eins og vikurnar verða fátæklegri án símtala frá Stebba, sem alltaf hafði rúm og tíma til að hlusta og stappa í mann stálinu.

Við eiginkonu Stebba, Sillu, og strákana þeirra þrjá, Kristófer, Rúnar og Ingimar, vil ég segja að ég samhryggist einlæglega. Ykkar missir er mestur.

Hvíl í friði elsku vinur – með þökk fyrir allt og allt.

Guðmundur Sverrisson.