Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson: "... var ég í reynd að hlífa þeim við því að halda því fram að þeir hafi ekki haft næga lögfræðiþekkingu til að dæma málið."

Ég hef nú verið sýknaður á þremur dómstigum af málsýfingum Benedikts Bogasonar gegn mér. Tilgangur hans virðist hafa verið að hræða menn frá því að bera fram gagnrýni á verk Hæstaréttar Íslands. Geri þeir það megi þeir eiga von á málsóknum og peningaútgjöldum.

Dómstólar fara með afar þýðingarmikið þjóðfélagsvald. Dómarar eru æviskipaðir og þurfa því ekki að standa neinum reikningsskil gerða sinna eins og handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds þurfa að gera. Þess vegna skiptir miklu máli að borgarar hafi rúmt frelsi til að gagnrýna þá fyrir meðferð þeirra á valdi sínu. Sú gagnrýni þarf að vera málefnaleg og rökstudd ef hún á að skipta máli.

Nú gekk hæstaréttardómur í máli sem einn þeirra höfðaði gegn mér fyrir kafla í bók minni „Með lognið í fangið“ sem út kom í nóvember 2017. Ég var sýknaður eins og reyndar hafði orðið reyndin líka í héraði og Landsrétti. Í öllu talinu um þetta hefur að mestu leyti gleymst að nefna þau efnisatriði í dómi Hæstaréttar í málinu gegn Baldri Guðlaugssyni á árinu 2012 sem ég gagnrýndi. Þau eru flest þannig að tilefni þeirra var augljóst og átti brýnt erindi við almenning.

1. Ég taldi að Hæstiréttur hefði legið undir of miklu álagi og því ekki getað fjallað um málið á þann hátt sem nauðsynlegt var.

2. Þrýstingur hefði verið á dómstólinn um að sakfella í hrunmálum. Þetta var fyrsta málið úr þeim flokki sem dómstóllinn fékk til meðferðar.

3. Formaður dómsins hafi verið vanhæfur vegna hlutafjáreignar sinnar í Landsbankanum (þetta vissi enginn þegar dómurinn var kveðinn upp en kom í ljós síðar).

4. Ákærði hefði ekki búið yfir innherjaupplýsingum.

5. Landsbankinn hefði ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni ef rétt teldist að um innherjaupplýsingar hefði verið að ræða. Ákærða hefði því óbeint verið refsað fyrir brot bankans.

6. Fyrir lá að Fjármálaeftirlitið hefði vitað allt sem ákærði vissi, en ekki talið ástæðu til að meta upplýsingarnar sem innherjaupplýsingar og birta þær sem slíkar, eins og þá hefði verið skylt að gera.

7. Ákærði var dæmdur fyrir annað en ákært var fyrir. Munurinn skipti sköpum um vörn hans.

8. Samantekt um efni dómsins var breytt á heimasíðu Hæstaréttar eftir að rétturinn hafði áttað sig á að sakfellingin í dóminum stóðst ekki. Ég birti báðar útgáfurnar í bók minni.

9. Brotið var gegn reglunni um að ekki mætti ljúka máli tvisvar (ne bis in idem).

Ítarlegan rökstuðning var að finna í bók minni um öll þessi atriði.

Með því að segja að dómararnir hafi að minnsta kosti mátt vita um þessi atriði, þegar þeir kváðu upp dóminn, var ég í reynd að hlífa þeim við því að halda því fram að þeir hafi ekki haft næga lögfræðiþekkingu til að dæma málið. Ásökun um slíkt hefði í reynd verið mun alvarlegri fyrir þá.

Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar ákvað að bera undir dómstóla hvort réttmætt hafi verið að kalla dómaraverk hans í málinu gegn Baldri Guðlaugssyni dómsmorð. Hann hefur nú fengið spurningu sinni svarað á öllum þremur dómstigunum. Til hamingju Benedikt!

Höfundur er lögmaður.

Höf.: Jón Steinar Gunnlaugsson