Auglýsingin föstudaginn 5. júní.
Auglýsingin föstudaginn 5. júní.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ein af eftirlætissögum föður míns, Sigurðar Baldurssonar (1923-2005), var af auglýsingu um Vísiskaffið í dagblaðinu Vísi þar sem faðir hans, Baldur Sveinsson (1883-1932), hafði verið blaðamaður og seinna aðstoðarritstjóri.

Ein af eftirlætissögum föður míns, Sigurðar Baldurssonar (1923-2005), var af auglýsingu um Vísiskaffið í dagblaðinu Vísi þar sem faðir hans, Baldur Sveinsson (1883-1932), hafði verið blaðamaður og seinna aðstoðarritstjóri. Pabbi bar Hannes lækni Guðmundsson fyrir sögunni:

„Dagblaðið Vísir var lengi vel aðeins fjórar blaðsíður að stærð. Forsíðan var þakin auglýsingum en neðst yfir þvera forsíðu stóðu daglega þessi orð: Vísis kaffið gerir alla glaða.

Nú gerðist það nokkru sinni öðru hvorum megin við árið 1930, að setjararnir vildu prófa árvekni prófarkalesaranna, og varð þá auglýsingin svona: Vísis kaffið gerir alla graða.

Eigandi verslunarinnar Vísis að Laugavegi 1 var Sigurbjörn Þorkelsson, framámaður í KFUM, en meðal eigenda dagblaðsins Vísis var Guðmundur Hannesson prófessor.

Skömmu eftir að þessi auglýsing birtist, hittust þeir Sigurbjörn í Vísi kaupmaður og Hannes læknir, sonur Guðmundar Hannessonar prófessors. Sigurbjörn kaupmaður var ákaflega sár út af þessari auglýsingu og sagðist ætla í mál við eigendur dagblaðsins Vísis. Hannes lét lítið yfir því.

Nokkrum dögum síðar hittust þeir aftur Hannes læknir og Sigurbjörn kaupmaður. Hannes spyr hvort hann sé byrjaður á málsókninni. „Nei,“ sagði Sigurbjörn, „salan hefur aukist svo mikið.““

Þrátt fyrir áralanga eftirgrennslan með aðstoð starfsfólks Þjóðskjalasafns og handritadeildar Landsbókasafns í Safnahúsinu gamla fannst umrætt blað aldrei í hirslum safnsins – og ættingjar og vinir voru farnir að halda að þarna hefði munnlega hefðin heldur betur logið upp góðri sögu. Þegar við bræður vorum að ganga frá dánarbúi föður okkar rákumst við loks á vöndul í gömlum maskínupappír innan um dót frá Baldri afa – með heilum árgangi af Vísi frá árinu 1925!

Það stóð heima að í blaðinu birtist nokkrum sinnum í viku klisjuauglýsing um Vísiskaffið sem gerði alla glaða, en í laugardagsblaðinu 6. júní dró til tíðinda. Skyndilega hafði eitthvað komið fyrir eitt ellið í orðinu „glaða“, þannig að hrekklaus eða öllu heldur þannig þenkjandi lesandi gat látið sér detta í hug að þar ætti að standa eitthvað annað.

Eftir þetta hvarf auglýsingin úr blaðinu í liðlega mánuð og birtist ekki aftur fyrr en miðvikudaginn 8. júlí. Á þessum tíma má því ímynda sér að kaffisalan hjá Sigurbirni hafi aukist mikið og hann horfið frá málsókn.

Af þessu dæmi má álykta að enda þótt hin munnlega geymd hafi ekki skilað öllum staðreyndum málsins óbrjáluðum í gegnum einn millilið er ekki þar með sagt að við getum farið að tala um fantasíu höfundar sem notfærir sér sögulegan kjarna til að spinna upp skemmtilega lygasögu og vitna svo í heimildarmann til að gera frásögn sína trúverðuga í eyrum áheyrenda sinna – eins og stundum er sagt að hafi tíðkast þegar íslenskar fornsögur voru ritaðar.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is