Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu munu taka lengri tíma en ráðgert var.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu munu taka lengri tíma en ráðgert var. Skýringin sé meðal annars lengri undirbúningur og umhverfismat á verkum sem þurftu þess ekki áður.

Fyrir vikið verði meðal annars ekki lokið við mislæg gatnamót á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar fyrr en árið 2025.

Það er fjórum árum síðar en ráðgert var þegar samgöngusáttmálinn var undirritaður haustið 2019. Með honum átti að rjúfa framkvæmdastopp í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og undirbúa uppbyggingu innviða fyrir borgarlínu.

Tvívegis endurskoðuð

Að sögn Sigurðar Inga munu tafir á verkþáttum sáttmálans einnig ná til borgarlínunnar og uppbyggingin almennt verða síðar á ferðinni en upphaflega var áætlað. Verkáætlunin hafi tvisvar verið endurskoðuð.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir ekki óviðbúið að tímaáætlunin hafi tekið breytingum.

„Það leið hálft ár frá því samgöngusáttmálinn var undirritaður þar til samgönguáætlun var samþykkt á Alþingi,“ segir Dagur.

Kynning á fyrsta áfanga borgarlínu marki tímamót í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er mjög mikilvægur áfangi vegna þess að þarna er búið að hugsa sig í gegnum þessa lykilleið sem er fyrsti áfanginn frá Hamraborg og upp í Ártúnshöfða,“ segir Dagur.

14 km í fyrsta áfanga
» Fyrsti áfangi fyrirhugaðrar borgarlínu hefur verið kynntur.
» Þetta er 14 km leið frá Ártúnshöfða niður í miðbæ og yfir Fossvog í Hamraborg.
» Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir stokkagerð fyrir borgarlínu á Sæbraut fyrsta áfangann í Sundabraut.