— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Aðeins er rétt rúmur mánuður frá formlegri útgöngu Breta úr ESB.

Aðeins er rétt rúmur mánuður frá formlegri útgöngu Breta úr ESB.

Gott mál eða vont?

Nokkuð er í það að kveða megi upp úr með vissu hvort útgangan sú hafi verið bresku þjóðinni til farsældar eða ekki. Við þá einkunnagjöf verða brúkaðar hagtölur af ýmsu tagi. Þær hafa iðulega þótt handhægar sem molar í slíka sönnunarfærslu, en sömu tölur geta hæglega ýtt undir mismunandi niðurstöðu. Þar ræður framsetning og túlkun þá mestu. Við þekkjum það mörg á okkar skrokki Íslendingar að algengir vísar eins og „hagvöxtur,“ sem er breiðvirkandi upplýsing, svo notaður sé talsmáti lyfjabókarinnar, segja ekki alla söguna. Enda margsannað að þótt allra viðurkenndra þátta sé gætt getur hagvöxtur liðins árs breyst mikið frá fyrsta ári og til hins fjórða eða fimmta, því þau kurl eru lengur að koma til grafar en handhægt er.

Seðlabankamenn og þeir sem fikta við fjárlagagerð horfa þó jafnan til fyrstu niðurstöðu og hafa sem bakhjarl við sínar ákvarðanir um líklega þróun í næstu framtíð. Þeirra getur verið að ýta undir eða draga úr tiltekinni atburðarás með hliðsjón af meintum hagvexti árið á undan eða rúmlega það.

Hefur margur seðlabankamaður fengið roða í kinn þegar þriggja eða fjögra ára gamlar tölur, og réttari en þær fyrri sem því nemur, sýna að hagvöxturinn á þeirri tíð, sem var lykilstærð fyrir spáforsögn til næstu tveggja ára, var nú gjörbreyttur frá fyrstu tölum um liðið ár.

Og þegar „spár“ eru nefndar þá er ekki átt við næstu ár heldur getgátur um nýliðinn tíma. Ekkert þykir hagfræðingum flottara en að svara fjölmiðlafólki til með því að segja: „Það er mjög flókið að spá um nýliðna fortíð.“ Og í næstu andrá frábiðja þeir sér ályktun af nýveifaðri speki, að sé svo torsótt að spá fyrir liðna tíð hljóti að vera alls ómögulegt að spá um framtíðina. „Nei,“ segja þeir, „framtíðin er í raun fastari í hendi en sú fortíð sem er á bak og burt og enginn fær neitt við ráðið.“

En svo haldið sé strikinu um útgöngu Breta úr ESB, þá er sennilegast að matið á stjórnmála- og efnahagslegum afleiðingum hennar muni fara mest eftir því hvernig sá var stefndur sem kynnir mat sitt á meintum afleiðingum. En fyrir aðra, utan sem innan Bretlands, stendur sennilega efst í minningunni hversu tæpt stóð að ákvörðun þjóðarinnar fengi að ganga eftir, hvað sem öllum heitstrengingum líður um að óhugsandi væri að nokkur reyndi að hlaupa frá þeirri niðurstöðu.

„Víst er hún flöt“-liðið

Systurflokkarnir á Íslandi, Samfylking og Viðreisn, hafa fátt handbært til að veifa nú sem mæli með inngöngu Íslands í ESB, eins og álit og atburðarás hafa leikið sambandið síðustu ár. Það sem helst er reynt að hanga í er ímyndaður ávinningur af myntinni sem Íslendingar „fengju að taka upp“ álpuðust þeir inn. Þeirri sömu mynt sem tryggði að þau lönd sem í hana voru hnýtt voru mörgum árum lengur að jafna sig en Ísland eftir bankaslysið. Orðalagið „fengju“ er kúnstugt þegar staðreyndin er sú að lengi var það valkvætt fyrir þjóðir sem vildu inn hvort þær tækju upp myntina, en nú er gerð ófrávíkjanleg krafa um að þær neyðist til þess. Bretar komust því hjá því að taka myntina upp, þótt Tony Blair berðist á hæl og hnakka þá náði hann því ekki fram. Fullyrt var að metnaður Blair til að fá að gegna öðru hvoru forystuembætti ESB, í kommissarahópi eða leiðtogaráði, hefði verið bundinn því skilyrði að hann kæmi Bretum í myntina áður en hann færi. ESB-fræðimenn halda því fram að Svíum hafi í raun verið skylt að taka upp evru þegar þeir fóru inn á sínum tíma. Sænskir stjórnmálamenn töldu að tillaga um inngöngu hefði verið felld ef það skilyrði væri upplýst. Svíar hafa formlega hafnað því að taka upp evru en stjórnmálagerið þar, sem allt er meira eða minna eins, bíður og vonar að eitthvað óvænt gerist svo afstaða þjóðarinnar breytist og þá megi sæta lagi. Dæmin héðan hræða. Svíar virðist þó í augnablikinu fremur hneigjast til annarrar áttar en þeirrar. Enda töldu margir þar á bæ að þeir hefðu haft skjól af Bretum inni í sambandinu gegn allsráðandi blokk þýskra og franskra.

Litla myntin

Hér á Íslandi ráða fyrrnefndir pólitískir tvíburar illa við umræðuna um myntina og forðast því raunverulega umfjöllun um hana. Þeir tyggja einungis að krónan sé „of lítil mynt“. Meginmálið er að myntin lesi stöðu síns þjóðfélags eins og krónan gerir og bregðist við. Viðbrögðin geta orðið skörp. En þau taka mið af beinhörðum þjóðarhagsmunum. Seðlabankinn horfir í sömu andrá til hagsmuna landsins. Dettur einhverjum í hug að Seðlabankinn í Frankfurt myndi gera það? Að sjálfsögðu ekki. Það væri heimskulegt af honum. Í því tilviki væri rétt að tala um að hagsmunirnir væru alltof, alltof litlir! Mestu skiptir að krónan er sinnar þjóðar mynt. Hún les það sem að henni snýr og lagar sig að því. Margir gerðu sitt til að draga íslenska þjóð að landi eftir bankafallið fyrir rúmum áratug. En enginn þó eins og krónan. Með þessu tali um smákrónuna mætti ætla að þar sem fjöldinn er mestur væri allt í mestum sóma.

Stóra myntin

Kína slær flest út í því skilyrði. En samt býr Kína í senn við eina mynt og tvær. Þær heita báðar sömu tveimur nöfnunum (renminbi-yuan). Seðlarnir eru þeir sömu, en það sem öllu skiptir er að virði þeirra er mjög ólíkt. Í alþjóðlegri merkingu (ISO) fyrir ríkismyntir eru þær merktar með CNY annars vegar og CNH hins vegar. Önnur er ætluð til innanríkisviðskipta en hin til utanríkisviðskipta. Á síðustu áratugum hefur umfang og afl kínverskrar framleiðslu til utanríkisviðskipta við hinn vestræna heim bólgnað hratt út. Peningaflæði gjaldeyris inn í Kína hefur margfaldast, og það svo að það orð nær ekki utan um þá þróun. Kínastjórn var í mun að ná að binda innstæður í sínum bönkum í miklum fúlgum án þess að skerða möguleika hennar á að hafa fullt vald á því hvernig efnahagsleg starfsemi þróaðist innanlands. Lausnin varð sú að hafa tvær algjörlega hliðstæðar myntir, sem þó lytu ólíkum lögmálum.

Ítalir vildu út eða langleiðina

Fyrir fáeinum árum voru kröfur vaxandi á Ítalíu um að koma yrði landinu út úr evrunni áður en myntsamstarfið um evru næði að leiða það í endanlega efnahagslega glötun. Berlusconi forsætisráðherra reyndi að beina þessum kröfum yfir í millileið og að ítalska líran yrði tekin upp á ný við hlið evrunnar. Þeim í Brussel var mjög brugðið og sendu einn af kommissörum sínum, Mario Monti, til Rómar til að setjast í forsæti ríkisstjórnar „tæknimanna“. Ítalía sat undir hótunum sambandsins, sem hún réð ekki við. Berlusconi vék til hliðar og það var látið heita að forseti Ítalíu byði Monti og tæknimönnum hans að taka við stjórninni. Tæpu ári síðar var komið að kosningum á Ítalíu, Monti hafði gefið sver loforð um að hann myndi þá hverfa af vettvangi. En þegar nær dró snerist honum hugur og hann vildi halda í nýfengið vald og virðingu. Stofnaði hann flokk í kringum sig en sá fékk aðeins um 10% atkvæða og var þá draumur Monti úti. Stuðningur við ESB er tæpur á Ítalíu, og hefur minnkað enn eftir klúðrið með bóluefnið, sem segir svo mikla sögu. En það er ekki þar með sagt að Ítalir treysti sér í slag eins og þann sem Bretar tóku og munaði engu að hefðist. Tök kommissaranna í Brussel á Ítalíu eru mun öflugri en var gegn Bretum, því þeim tókst að koma í veg fyrir að pundinu yrði fórnað fyrir evru.

Blaðafulltrúar

Það er með nokkrum ólíkindum hversu „blaðafulltrúum“ eða „fjölmiðlafulltrúum“ hefur fjölgað í ráðuneytum og stofnunum hér á landi, svo ekki sé minnst á ósköpin í Ráðhúsinu. Bréfritari var í rúm 9 ár á borgarskrifstofunum og kom sér aldrei upp blaðafulltrúa og borgarstjóraskrifstofan var fámenn mjög miðað við ósköpin sem nú eru. Í beinu framhaldi var sami í tæp 13 og hálft ár samfleytt í forsætisráðuneytinu og sleppti því þann tíma að koma sér upp blaðafulltrúa. Það virtist ekki koma að sök. Rétt er að taka fram að aðrir forsætisráðherrar þar á undan höfðu stundum haft blaðafulltrúa sér til halds og trausts, en fjarri því allir. Blaðafulltrúaheitið er sniðugt því það snýr óneitanlega við myndinni um að meginhlutverk þessara sé í raun að draga upp eins geðþekka mynd af yfirboðurum sínum og frekast er fært og viðfangsefnum þeirra. Þeir eru ekki fulltrúar blaða frekar en að umboðsmaður hefur nokkru sinni verið umboðsmaður Alþingis.

Frægir blaðafulltrúar

Það kemur fyrir að þeir blaðafulltrúar sem eru málpípur helstu fyrirmanna veraldar verði sjálfir þekktir á heimsvísu, a.m.k. á meðan kastljósin hafa þá í punktinum, og sumir raunar upp frá því.

Það gildir ekki síst um blaðafulltrúa forseta Bandaríkjanna. Á síðustu árum eru þeir ekki endilega lengi í sínum starfa enda getur gengið nokkuð á. Áður fyrr sáust þó gjörólík dæmi. Enginn mun þó ná að slá blaðafullrúa Franklins D. Roosevelt út. Sá gegndi starfi sínu fyrir sama forsetann í rúm 12 ár. Í skjóli stríðsins lét Roosevelt ekki duga að sitja út 8 árin. Hann var endurkjörinn eftir þau og aftur eftir 12 ár. Hann hefði því getað setið í 16 ár samfleytt, en varð bráðkvaddur 12. apríl 1945. Séu þeir sem fylgjast best með málum vestra beðnir að nefna tvo blaðafulltrúa forsetans (og þeir nýjustu undanskildir) þá koma tvö nöfn oftast upp. James Brady, blaðafulltrúi Ronalds Reagan, og Pierre Salinger, blaðafulltrúi Johns F. Kennedy. Skotárásir á húsbónda þeirra, forseta Bandaríkjanna, koma við þeirra sögu. Salinger var reyndar staddur í flugvél á leið til Japan ásamt Dean Rusk utanríkisráðherra þegar fréttir bárust um skotárás á Kennedy. Flugvélinni var snúið við þegar í stað.

Brady var hins vegar með Reagan forseta í Washington á þeim stutta speli frá Hilton-hóteli þar inn í bílalestina, þegar skotárás var gerð af léttrugluðum manni, John Hinckley, sem taldi að morðtilræði við Reagan myndi hækka hann í áliti hjá leikkonunni Jodie Foster! Reagan fékk í sig skot og var nærri dauða þegar kom á sjúkrahúsið en læknum tókst að gera að og ná kúlunni burt. En Brady blaðafulltrúi slapp ekki nógu vel. Hann fékk kúlu í höfuðið og náði sér aldrei eftir heilaskaða og var bundinn við hjólstól. Þegar hann lést 33 árum síðar var samhengið talið augljóst og „myrtur“ var fært á dánarvottorðið. Hann hafði aðeins gegnt embætti blaðafulltrúa í rúma 2 mánuði þegar þetta varð. En á meðan hann barðist fyrir lífi sínu og svo fyrir bættri heilsu var litið svo á að hann væri enn í fullu starfi sem blaðafulltrúi forsetans og það stóð út embættisskeið Reagans, í full átta ár. Löngu síðar gat hann verið viðstaddur, ásamt konu sinni, þegar þáverandi forseti, George W. Bush, tók á móti honum og öðrum fyrrverandi blaðafulltrúum í endurgerðu fundarherbergi í Hvíta húsinu, sem bar síðan nafn Bradys. Sjálfur helgaði hann líf sitt baráttu gegn skotvopnum.

Góð kynni af Salinger

Pierre Salinger var mjög áhugaverður maður. Hann hafði samband við bréfritara 1988 áður en hann kom til Íslands. Var farið með hann og samferðamann hans í Höfða og leiðtogafundurinn ræddur þar og áttum við svo notalegan kvöldverð á Hótel Holti. Hann gaf í lok hans áritaða bók sína „With Kennedy“ sem er áhugaverð og sendi bréfritara síðar boðsbréf um að sækja sig heim í London.

Pierre Salinger hafði ætlað sér að helga tónlistinni líf sitt. Þegar hann var barn að aldri (6 ára) hélt hann einleikstónleika með ótrúlega kröfuhörð verk á efnisskránni.

Hann segir frá því að Kennedy forseti hafi ekki aðeins verið lítið fyrir tónlist, heldur verið beinlínis illa við hana. Taldi hana fara illa í sig og valda sér óþægindum. En blaðafulltrúinn fann bandamann í forsetafrúnni og lét forsetinn eftir þeim að stofna til tónleikahalds í Hvíta húsinu með fjölmörgum snillingum samtímans og mætti forsetinn þar og lét eins og hann nyti þess.

Nefndi Salinger að það væri skondið að tónlistarhöllin góða í höfuðborginni bæri nafn forsetans.

En að öðru leyti leyndi rík vinsemd og aðdáun á húsbóndanum sér aldrei í samtölum við hann.

Fróðlegt er að lesa í þessari nú gömlu bók frásögn af löngum fundum Salingers með Nikita Krutsjoff, einvaldi Sovétríkjanna. Og þegar horft er til dellukenninganna um að Rússar hefðu stuðlað að kosningu Trumps haustið 2016, er fróðlegt að lesa að aðalritarinn lýsti afskiptum sínum af málum sem voru ofarlega í samskiptum stórveldanna 1960 í aðdraganda kosninganna og vonum Nixons sem keppti þá við Kennedy um tiltekin afskipti Krutsjoffs.

Salinger segir þá við Krutsjoff á þessa leið: „Hefðir þú orðið við óskum í þá átt hefði Nixon unnið!“ „Það var þess vegna sem ég tryggði að það yrði ekki gert,“ svaraði kommúnistaleiðtoginn.

Það er fátt nýtt undir sólinni.