— AFP
Eftir margra mánaða lokun vegna kórónuveirufaraldursins var í vikunni aftur tekið að hleypa gestum í einstakt listasafn Vatíkansins.

Eftir margra mánaða lokun vegna kórónuveirufaraldursins var í vikunni aftur tekið að hleypa gestum í einstakt listasafn Vatíkansins. Fáum er hleypt inn í einu og vandlega hugað að sóttvörnum enda hefur Ítalía, þar sem Vatíkanið er í Rómaborg, verið hart leikin af veirunni.

Innst í safninu er hin einstaka Sixtínska kapella með óviðjafnanlegum freskum Michelangelos frá árunum 1508 til 1512 í loftinu og verki hans Dómsdegi frá 1534 til 1541 á altarisveggnum. Þá eru eldri verk eftir aðra endurreisnarmálara á hliðarveggjum.

Alla jafna er mikil þröng gesta í kapellunni að dást að dýrðinni en nú er mun rýmra um þá sem hleypt er inn og því eflaust þægilegra að skoða verkin.