Ljósaslóð Ólík ljósalistaverk lýsa upp miðborgina á kvöldin.
Ljósaslóð Ólík ljósalistaverk lýsa upp miðborgina á kvöldin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýning á ósamþykktum skissum Gerðar Helgadóttur að altaristöflu í Kópavogskirkju er meðal fjölmargra og ólíkra viðburða sem boðið er upp á á Vetrarhátíð nú um helgina.

Sýning á ósamþykktum skissum Gerðar Helgadóttur að altaristöflu í Kópavogskirkju er meðal fjölmargra og ólíkra viðburða sem boðið er upp á á Vetrarhátíð nú um helgina. Tillögurnar vann Gerður árið 1962 en samkomulag náðist ekki um innihald þeirra og urðu þær því ekki að veruleika. Á sýningunni gefst gestum færi á að skoða skissurnar í því samhengi sem þær voru hugsaðar, inni í kirkjunni ásamt steindum gluggum Gerðar. Sýningarstjórar eru Anna Karen Skúladóttir og Hallgerður Hallgrímsdóttir, sýning er opin kl. 12 til 16.

Meðal annarrs viðburða má nefna að í Kópavogi er líka boðið upp á ljóðagöngu í Lindahverfi. Ljóð ort af nemendum í Lindaskóla birtast í litlum ljóðakössum sem komið er fyrir á ljósastaurum í nágrenni skólans og bókasafnsins.

Á vefnum flaneri.is má svo sækja hljóðgöngur um sögu og samtíma Kópavogs í hlaðvarpsformi: Frásagnir, viðtöl, umhverfishljóð, staðreyndir og skáldskapur sveipa Kópavog nýjum blæ og fara með hlustendur í ferðalag á kunnuglegar en jafnframt framandi slóðir. Lengd göngu með fyrsta hlaðvarpi er 25-30 mínútur og hentar 12 ára og eldri.

Í Gerðarsafni verður Sprengju-Kata svo með krakkaleiðsögn um sýninguna Skúlptúr Skúlptúr en þar sýna Ólöf Helga Helgadóttir og Magnús Helgason verk sín á tveimur einkasýningum.

Í Garðabæ er boðið upp á rafræna leiðsögn með Birtu Guðjónsdóttur sýningarstjóra um fimm af útilistaverkum sem staðsett eru í bænum. Og kl. 15.30 í dag leiðir Einar Skúlason göngugarpur og sagnfræðingur göngu sem hefst við aðalbílastæði Vífilsstaða. Á Berklahælinu á Vífilsstöðum var lagt mikið upp úr útivist og fersku lofti og þegar sjúklingar gátu var hvatt til gönguferða. Einar mun að einhverju leyti ganga í fótspor berklasjúklinga meðfram Vífilsstaðavatni og upp á Gunnhildi. Á leiðinni verða tekin nokkur stopp og fróðleiksmolum kastað á loft og samtal eiga sér stað um lífið á Berklahælinu.

Á bókasafni Seltjarnaness hefur verið sett upp sýning á listaverkum sem safninu hafa verið gefin, „Listaverkin okkar“ er hún kölluð.

Meðal viðburða í Reykjavík má benda á Ljósaslóð Vetrarhátíðar en það er gönguleið frá Hallgrímskirkju og Hnitbjörgum, Listasafni Einars Jónssonar, niður Skólavörðustíg og niður á Austurvöll sem er vörðuð með ljóslistaverkum. Þessi ljóslistaverk munu lýsa upp miðbæinn frá 19 – 22 báða dagana.

Reykjavík GPS er gagnvirk tónlistarupplifun eftir bræðurna Úlf og Halldór Eldjárn, þar sem tónlistin hefur verið tengd við ákveðnar GPS-staðsetningar í miðbæ Reykjavíkur. Til að njóta verksins fer fólk í bæinn með heyrnartól og snjallsíma, fer á vefslóðina rvkgps.com, röltir svo um og heyrir tónlistina breytast.

Fjölbreytilega dagskrána má kynna sér í heild á vefslóðinni vetrarhatid.is.