Gríman er óþægileg, krækist í eyrnarlokkum, flækist í hári, móðar gleraugun og stundum líður manni eins og maður nái ekki andanum. Örugglega líka mjög slæm fyrir andfúla.

Um daginn var ég stödd í röðinni í Bónus sem er ekki í frásögur færandi. Nema hvað, konan á undan mér snýr sér við og starir djúpt í augun á mér. Ég horfi vandræðalega til baka og hugsa: „Af hverju starir hún svona á mig?“ Ég lít aftur fyrir mig til að sjá hvort hún væri mögulega að stara á eitthvað annað og lít svo snöggt á hana aftur til að sjá hvort hún væri ekki farin að snúa sér að öðru. En nei, það mætti mér aftur starandi og spyrjandi augnaráð. Það var engum blöðum um það að fletta að hún var að stara á mig. Í nokkrar sekúndur runnu á mig tvær grímur.

Svo var eins og hulu væri lyft. Gardína dregin frá glugga. Ég þóttist kannast við konuna! Jú, þetta var hún besta vinkona mín síðan við vorum tíu ára; vinkonur í heil 44 ár. Og ég þekkti hana ekki þar sem hún stóð þarna með grímu!

(Hún hafði ákveðið að sjá hvað það tæki mig langan tíma að þekkja sig og sagði því ekki orð).

Svo var það konan sem heilsaði annarri konu kumpánlega í Krónunni. „Blessuð, hvað er að frétta? Gaman að sjá þig hér!“ Hin svarar glaðlega: „Jú, allt fínt bara!“

Þær ræddu saman stutta stund þegar þær áttuðu sig báðar á því að þær þekktust hreint ekki neitt.

Svona er þessi nýi grímuklæddi veruleiki; maður heilsar fólki sem maður þekkir ekkert og þekkir svo ekki bestu vinkonuna! Og hvernig í ósköpunum eiga einhleypingar að skoða hitt kynið, nú eða aðrir sem það gera? Ég spurði skiptinema sem hjá mér býr hvort það væru ekki sætir strákar í Versló. Hún sagðist hreinlega ekki vita það; það væru allir með grímu.

Já, það er ekkert gaman að þessum grímum á neinn hátt, en við látum okkur þó hafa það enda lítil fórn í stóru myndinni. Gríman er óþægileg, krækist í eyrnalokkum, flækist í hári, móðar gleraugun og stundum líður manni eins og maður nái ekki andanum. Örugglega líka mjög slæm fyrir andfúla.

Kostirnir eru auðvitað að maður getur vel farið út úr húsi þótt maður hafi vaknað með ljótuna. Það þekkir mann enginn hvort sem er.

Hver hefði trúað því fyrir nákvæmlega ári að gríma yrði normið. Að fólk án grímu yrði litið hornauga!

Svona er mannfólkið fljótt að aðlagast breyttum aðstæðum og taka upp nýja siði. En mikið verður dásamlegt þegar heimurinn getur andað léttar, laus við kórónuveiruna og laus við grímurnar. Þá verður engin hætta á að maður þekki ekki sína nánustu úti í búð!