Undir rauðum fána Íbúar borgarinnar Jangon hafa tekið til við að hengja rauða fána út við glugga til merkis um stuðning sinn við Aung San Suu Kyi.
Undir rauðum fána Íbúar borgarinnar Jangon hafa tekið til við að hengja rauða fána út við glugga til merkis um stuðning sinn við Aung San Suu Kyi. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Efnt var til mótmæla gegn valdaráni herforingjastjórnarinnar í Búrma, sem einnig er þekkt sem Mjanmar, í gær eftir að herinn handtók Win Htein, einn helsta ráðgjafa Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarflokksins NLD.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Efnt var til mótmæla gegn valdaráni herforingjastjórnarinnar í Búrma, sem einnig er þekkt sem Mjanmar, í gær eftir að herinn handtók Win Htein, einn helsta ráðgjafa Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarflokksins NLD. Suu Kyi er sögð við góða heilsu í stofufangelsi sínu, en ekki hefur sést til hennar síðan herinn lét til skarar skríða.

Um 200 kennarar og stúdentar við Dagon-háskólann í Jangon, stærstu borg Búrma, efndu til mótmælafundar og héldu þátttakendur á lofti þremur fingrum, en það er mótmælatákn sem lýðræðissinnar í Taílandi hafa tekið upp á sína arma. Stúdentarnir hrópuðu slagorð til stuðnings Suu Kyi, eða „móður Suu“, og báru rauða fána, en rauður er flokkslitur NLD-flokksins.

Rauð flögg og rauðir borðar

Win Win Maw, lektor við háskólann, sagði í samtali AFP-fréttastofuna að ef allir opinberir starfsmenn legðu niður störf yrði herforingjunum gert nær ómögulegt að stjórna landinu áfram, en læknar og hjúkrunarfræðingar víða um Búrma ákváðu fyrr í vikunni að sinna einungis neyðartilfellum í mótmælaskyni. Settu margir þeirra upp rauða borða til að sýna andstöðu sína við valdaránið.

Þetta voru fyrstu stóru mótmælaaðgerðirnar í landinu eftir valdaránið á mánudaginn og dreifðust þær til annarra borga. Í höfuðborginni Naypyidaw tók fjöldi ráðuneytisstarfsmanna þátt í látlausum aðgerðum og sátu þeir fyrir á hópmyndum með þrjá fingur á lofti og rauða borða.

Undanfarin kvöld hafa svo íbúar í helstu borgum tekið til við að berja í potta og pönnur og skapa annan hávaða til þess að láta óánægju sína í ljós. Lögreglan í Mandalay, næststærstu borg landsins, brást við með því að handtaka rúmlega 20 manns fyrir að trufla friðinn og voru þeir dæmdir í gær í sjö daga fangelsi.

Skoða sértækar refsiaðgerðir

Joe Biden Bandaríkjaforseti vék í fyrstu ræðu sinni um utanríkismál í fyrrinótt að valdaráninu og fordæmdi það. Sagði hann að her Búrma ætti að gefa eftir öll völd, sleppa öllum úr haldi sem handteknir hefðu verið og létta á fjarskiptatruflunum sínum, en herforingjastjórnin lét loka fyrir Facebook í fyrradag.

Bandaríkin skoða nú að beita leiðtoga valdaránsins sértækum viðskiptaþvingunum og myndu refsiaðgerðir þeirra einnig miða að því að trufla starfsemi fyrirtækja, sem tengjast hernum nánum böndum.