Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur: "Kjarni málsins er að erlend lántaka ríkissjóðs eykur hættuna á því að ekki verði til lengri tíma unnt að verja velferðarkerfið. Sú áhætta er veruleg."

Sagt er að skaftfellskum vatnamönnum hafi þótt óráðlegt að snúa við í miðju straumvatni. Þessi gömlu hyggindi löngu liðins tíma komu mér í hug þegar ríkisstjórnin kúventi í stefnu sinni í peningamálum án útskýringa og nauðsynlegrar pólitískrar umræðu.

Í upphafi faraldursins í fyrra sagði seðlabankastjóri að bankinn hefði í verkfæratösku sinni öll þau tól, sem þyrfti til að bregðast við kreppunni. Mikilvægast var að bankinn sagðist hafa verkfæri til að tryggja ríkissjóði nauðsynleg lán á lágum vöxtum innanlands.

Þetta er það sem kallast peningaprentun. Sá möguleiki að geta gripið til hennar við óvenjulegar aðstæður hefur verið talinn helsti kostur þess að hafa sjálfstæða mynt. Skýrar yfirlýsingar um að þetta verkfæri yrði nýtt skapaði langþráð traust og fyrirsjáanleika.

Á dögunum var frá því greint að verðbólgan hefði brotið efri viðmiðunarmörk peningastefnunnar. Í öllum öðrum ríkjum Evrópu hefur samdráttur í þjóðarframleiðslu leitt til minni verðbólgu. Hér hefur hún hins vegar rokið upp úr öllu valdi í samdrætti.

Nú eru verkfærin gegn verðbólgu ekki til

Kjaraskerðing er þekktasta afleiðing verðbólgunnar. En þessi mikla hækkun verðbólgu virðist líka hafa leitt til þess að ríkisstjórnin hefur snúið hestum sínum við í miðju straumvatninu. Í stað þess að nota verkfæri Seðlabankans til þess að tryggja ríkissjóði innlent lánsfé á nú að gera það með erlendum lánum.

Verðbólgan virðist hafa leitt til þess að Seðlabankinn getur ekki bæði stutt við krónuna og staðið við fyrirheitið um að búa til aðstæður fyrir ríkissjóð til að taka innlend lán á viðráðanlegum kjörum.

Ráðgjöf Seðlabankans til stjórnvalda er að ríkissjóður taki erlend lán til að halda uppi verðgildi krónunnar. Ekki er hægt að draga aðra ályktun af þessu en að peningastefnu Seðlabankans skorti trúverðugleika þannig að peningaprentun valdi ekki gjaldeyrissölu, gengissigi og verðbólgu. Ekki einu sinni hinn sögulega stóri gjaldeyrisvaraforði virðist duga til að byggja trúverðugleika.

Enginn, nema stjórnvöld, virðist hafa trú á krónunni. Nú hafa stjórnvöld kúvent og hyggjast fjármagna hallann með erlendri lántöku. Þar sem allt er með felldu ræðst gengi gjaldmiðla af verðmætasköpun. Hér er genginu hins vegar haldið uppi með lántökum.

Gengisáhættan

Evrulánin eru sannarlega hagstæð. En þeim fylgir mikil gengisáhætta. Bara á síðasta ári hækkuðu erlendar skuldir ríkissjóðs um 45 milljarða króna vegna falls krónunnar. Salan á Íslandsbankabréfunum rétt dugar til að mæta þessu tapi.

Kjarni málsins er sá að erlend lántaka ríkissjóðs eykur hættuna á því að ekki verði til lengri tíma unnt að verja velferðarkerfið. Sú áhætta er veruleg. Stefnubreyting ríkisstjórnarinnar þýðir að hækki skuldirnar vegna gengisbreytinga er velferðarkerfið sett að veði. Það kemur svo í hlut næstu og þar næstu ríkisstjórnar að glíma við afleiðingarnar.

Aðeins er unnt að verja velferðarkerfið með lántökum þegar vextir eru lágir og gengisáhættan engin. En krónu án gengisáhættu höfum við aldrei haft. Þann veruleika þekkjum við ekki.

Yfirlýsingar Seðlabankans í fyrra byggðu upp traust. Þessar aðgerðir stjórnvalda rýra það traust.

Viðvörunarmerki kalla á umræðu

Stefnan í peningamálum heyrir undir forsætisráðherra. Grundvallarbreyting af þessu tagi er ákveðin án skýringa og án umræðu á Alþingi. Það er til marks um umræðuflótta. Hann staðfestir aftur að stefnubreytingin er gerð í veikleika; fæturnir eru valtir.

Í þeim tilgangi að knýja fram pólitíska umræðu um þessi efni hyggst Viðreisn óska eftir skýrslu forsætisráðherra þar sem gerð yrði grein fyrir líklegri þróun vaxta og gengisáhættu í ljósi þeirra gífurlegu lána, sem ríkissjóður þarf að taka. Jafnframt er nauðsynlegt að bera niðurstöðuna saman við þá möguleika sem evran myndi skapa.

Verðbólgan og kúvending ríkisstjórnarinnar eru viðvörun og hættumerki. Eins og í umferðinni verðum við að líta til beggja átta og meta aðstæður. Hitt er síðan óábyrgt að loka augunum þegar hættumerkin birtast.

Höfundur er formaður Viðreisnar.