Fjármálaráðuneytið Samantekt sýnir nýtingu stuðningsúrræða.
Fjármálaráðuneytið Samantekt sýnir nýtingu stuðningsúrræða. — Morgunblaðið/Þorkell
Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem nýttu sér úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru í fyrra var með tíu launamenn eða færri. Þannig voru þau um 82% þeirra sem nýttu úrræðin eða alls rúmlega 2.500 fyrirtæki.

Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem nýttu sér úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru í fyrra var með tíu launamenn eða færri. Þannig voru þau um 82% þeirra sem nýttu úrræðin eða alls rúmlega 2.500 fyrirtæki. Þetta kemur fram í samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins á gögnum Hagstofunnar um nýtingu á helstu stuðningsúrræðum stjórnvalda.

„Alls hefur nú hátt í 70 milljörðum króna verið varið til stuðnings við fyrirtæki og hefur um fjórðungur fyrirtækja í öllum stærðarflokkum nýtt sér einhver úrræðanna. Mikill fjöldi mjög smárra rekstraraðila fékk ekki síst stuðning í lokunarstyrkjum þegar ýmis persónuleg þjónusta var stöðvuð,“ segir í frétt á vef ráðuneytisins.

Jafnframt segir þar að gögn Hagstofunnar sýni einnig að stuðningur stjórnvalda hafi stóraukist frá og með janúar, eftir að hafa minnkað nokkuð síðastliðið haust. „Er sú aukning til komin vegna fjölda tekjufallsstyrkja sem afgreiddir hafa verið frá því um miðjan janúar en frá þeim tíma hafa vel á níunda hundrað rekstraraðila fengið greidda tekjufallsstyrki fyrir um fimm milljarða króna.

Síðustu mánuði hafa á fjórða þúsund rekstraraðilar og tugþúsundir einstaklinga nýtt sér ýmis úrræði stjórnvalda sem eru á annan tug talsins – styrki, lán, gjaldfresti og annan stuðning,“ segir í umfjöllun um stuðninginn.

Fram kemur að rúmir fimm milljarðar fóru í greiðslur tekjufallsstyrkja, hlutabætur og stuðnings- eða viðbótarlán í janúar sl.