Drög Svona gæti flugstöðin litið út að loknum framkvæmdum 2021-25 með nýrri tengibyggingu, viðbyggingu við suðurbyggingu og bílastæðahúsi.
Drög Svona gæti flugstöðin litið út að loknum framkvæmdum 2021-25 með nýrri tengibyggingu, viðbyggingu við suðurbyggingu og bílastæðahúsi. — Teikning/Isavia
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Isavia hyggst verja hálfum milljarði króna í markaðsstuðning til að stuðla að flugi til Íslands. Kemur hann til viðbótar hvatakerfinu á flugvellinum en m.a. er veittur afsláttur af notendagjaldskrá utan háannatíma.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Isavia hyggst verja hálfum milljarði króna í markaðsstuðning til að stuðla að flugi til Íslands. Kemur hann til viðbótar hvatakerfinu á flugvellinum en m.a. er veittur afsláttur af notendagjaldskrá utan háannatíma.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir stuðninginn standa öllum flugfélögum til boða. Þar með talið Icelandair vegna flugferða sem verða á háannatíma vallarins.

Félögin muni þurfa að uppfylla ýmis skilyrði. Þar með talið varðandi tíðni ferða. Þau geti þá haft styrkina til hliðsjónar þegar þau markaðssetja flug til Íslands og það verið hvati til að hefja flugið fyrr en ella.

Styður við uppbygginguna

Gengið var frá 15 milljarða króna hlutafjáraukningu á hluthafafundi Isavia 12. janúar.

Er henni ætlað að mæta rekstrartapi vegna kórónuveirufaraldursins og gera Isavia kleift að hefja uppbyggingu á flugvellinum á ný (sjá drög hér fyrir ofan). Þá nýtist hlutafjáraukningin til að tryggja markaðsstuðninginn.

Sveinbjörn segir að með hliðsjón af sterkri stöðu stærstu flugfélaganna sem fljúga til Keflavíkurflugvallar – Icelandair, Wizz Air og Easy Jet – verði staða vallarins sterk þegar alþjóðaflugið fer af stað á ný. Þá ekki síst vegna endurskipulagningar Icelandair en margt vinni með félaginu. Til dæmis að stóru flugfélögin hafi verið að leggja breiðþotum en það styrki stöðu félagsins í flugi yfir hafið. Þá sé að losna um Boeing Max-þotur Icelandair, ásamt því sem félög eins og Norwegian muni ekki veita félaginu jafn harða samkeppni.

Varðandi bandaríska flugmarkaðinn kveðst Sveinbjörn eiga von á því að stóru amerísku flugfélögin þrjú sem flogið hafa til Íslands – Delta Air Lines, American Airlines og United Airlines – verði lengur að taka ákvörðun um að hefja flug hingað en evrópsku lággjaldafélögin, sérstaklega í ljósi stöðunnar í Bandaríkjunum. Hvað snertir áhrif aukinnar flugdrægni á samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar sem tengistöðvar kveðst Sveinbjörn vongóður um að þróunin á markaðnum verði vellinum hagfelld. Asíumarkaður muni vaxa þegar faraldrinum lýkur, m.a. með tengingu um evrópska flugvelli til Keflavíkur.

Þá vinni það með Keflavíkurflugvelli að ferðalög muni vaxa hraðar en viðskiptaferðalög, enda sé hlutfall viðskiptaferða lágt í Keflavík.

Varðandi endurreisn WOW air kveðst Sveinbjörn ekki hafa heyrt í fulltrúum félagsins síðan hann fundaði með Michele Ballarin, eiganda nýja félagsins, þegar hún keypti vörumerkið úr þrotabúinu.

Sömuleiðis hafi Isavia ekki fengið fyrirspurnir frá félögum sem hafa ekki flogið til Keflavíkur.

Samkeppnin verður hörð

„Þegar viðsnúningurinn hefst held ég að lykilatriðið sé ekki að sækja nýja aðila heldur að hvetja þá sem hafa verið að fljúga hingað áður, og þekkja markaðinn, til þess að koma til Íslands. Þegar ferðatakmörkunum verður aflétt munu flugvellirnir gera hosur sínar grænar fyrir flugfélögunum. Þau eru flest lemstruð eftir faraldurinn og þurfa að velja vel hvert þau byrja að fljúga aftur. Flugfélögin munu fljúga leggi sem skila arðsemi eða a.m.k. jákvæðu sjóðstreymi. Það er því mikilvægt fyrir okkur að auðvelda þeim að taka ákvörðunina um að hefja á ný flug til Íslands,“ segir Sveinbjörn.

Varðandi áætlaðan farþegafjölda í Keflavík í ár segir Sveinbjörn að fyrri forsendur félagsins um hálfa milljón erlendra farþega muni ólíklega rætast úr þessu.

Vegna óvissu séu ekki forsendur til að spá fyrir um fjöldann 2022.