Sigríður Pálsdóttir fæddist á Fit undir Eyjafjöllum 24. október 1930. Hún lést á Landspítalanum 27. janúar 2021.

Foreldrar hennar voru Jóhanna Ólafsdóttir húsmóðir á Fit, f. 21. júní 1901, d. 16. mars 1982, og Páll Guðmundsson bóndi á Fit, f. 22. júlí 1893, d. 30. janúar 1986. Alsystkini hennar eru Guðmundur, f. 21. september 1925, d. 4. ágúst 2012; Markús, f. 8. nóvember 1926, d. 16. september 1974; Ólafía, f. 23. desember 1927, d. 28. júlí 2008; Guðsteinn, f. 18. janúar 1929, d. 4. október 2013; Vigdís, f. 24. mars 1934, d. 24. mars 1934; Viggó, f. 24. febrúar 1936, og Þórdór, f. 4. apríl 1943. Systkini samfeðra voru Eggert f. 19. október 1916, d. 2. janúar 2000; Ásdís f. 13. júní 1919, d. 9. júlí 2005, og Ólafur f. 27. júní 1921, d. 2. maí 2005. Uppeldisbróðir hennar var Einar Sigurjónsson, f. 10. nóvember 1908, d. 11. janúar 1993.

Eiginmaður Sigríðar er Baldur Ólafsson bóndi á Fit, fæddur í Dísukoti í Þykkvabæ 30. október 1929, foreldrar hans voru Hrefna Jónsdóttir, f. 5. september 1905, d. 11. apríl 1991, og Ólafur Markússon frá Dísukoti í Þykkvabæ, f. 29. janúar 1905, d. 13. desember 1980.

Börn Sigríðar og Baldurs eru: 1) Ólafur, f. 14. september 1952, maki Gunnheiður Guðlaug Þorsteinsdóttir f. 22. febrúar 1954, börn þeirra eru Ragnheiður, maki Gunnar Óli Sigurðsson; Jóhanna, maki Gísli Jens Snorrason, og Sigríður Björk, maki Jóhann Jensson. 2) Jóhann, f. 12. maí 1955, maki Svanhvít Ólafsdóttir, f. 22. júlí 1957, börn þeirra eru Marý Linda; Elín, maki Samúel Sveinn Bjarnason, og Lóa, maki Eyjólfur Guðmundsson. 3) Óskar, f. 30. september 1961, maki Kristín Rós Jónsdóttir, f. 22. apríl 1964, börn þeirra eru Baldur Freyr, maki Sóley Ósk Einarsdóttir; Hólmfríður Jóna, maki Andri Már Halldórsson, og Ástrós, maki Kristján Már Ólafs. Langömmubörnin eru 20.

Sigríður fæddist og ólst upp á Fit, Þau Baldur bjuggu í Bjóluhjáleigu frá 1954 til 1957 en það ár tóku þau við búinu á Fit. Hún bjó þar alla tíð en dvaldi síðustu árin á Kirkjuhvoli á Hvolsvelli og fór reglulega heim að Fit.

Útför Sigríðar fer fram frá Stóra-Dalskirkju í dag, 6. febrúar 2021, klukkan 14. Streymt verður frá útför:

https://youtu.be/tv80Kyg99pM

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Enginn veit sína ævi fyrr en öll er, sagði amma oft.

Það er sannarlega rétt því móðir mín lést 27. janúar, hún náði sér ekki eftir lærbrot. Ég á eftir að sakna hennar, erfitt verður að fylla það skarð. Þegar horft er til baka sér maður hvílík kjarnorkukona hún var, oft var mikið að gera og hugsaði hún um móður sína sem var rúmliggjandi. Þeir sem hittu mömmu einu sinni mundu eftir henni. Gleðin alltaf í fyrsta sæti og var oft hlegið, hún var hrein og bein, átti til að segja mikið hefur þú fitnað, en það jafnaði sig alltaf í gleði hennar og framkomu. Matur var henni hugleikinn og þá sérstaklega saltað hrossakjöt sem var oft á borðum, eins var ísinn ofarlega á óskalistanum. Fyrr á tímum þegar flestir voru til heimilis á Fit var mikið gert til að birgja sig upp af mat. Sagt er í dag að matur til sveita hafi verið óhollur en mamma varð níræð. Seinna meir þegar frystikistan og ísskápurinn komu var farið að hafa meira ferskt og þurfti ekki lengur að kæla í bæjarlæknum. Á þessum árum var matur nýttur vel og engu hent. Morgunmatur, hádegismatur, síðdegiskaffi, kvöldmatur og kvöldkaffi, þá kom oft á borð hin fræga flumpa eins og mamma kallaði kökuna. Eins og sést á þessu var erfitt að halda kjörþyngd á Fit. Ekki er annað hægt en að minnast á Reykjavíkurferðirnar, það var tilhlökkunarefni hjá mömmu að fara til Reykjavíkur til Ólafíu systur í Langagerðið en það var eins og okkar annað heimili, notalegt að koma þar og vera. Í Langagerðinu var oft glatt á hjalla hvort sem var afmæli, útskriftir eða verslunarferðir. Þá var tækifærið notað til að birgja sig upp af nauðsynjavörum og voru öll innkaup stórinnkaup. Ekki má gleyma þegar systurnar fóru í fatabúðir en að vera með þeim þar voru ógleymanlegar stundir og á afgreiðslufólkið sem afgreiddi þær eflaust margar ógleymanlegar minningar. Facebook og GSM var ekki til á þessum árum en það kom ekki að sök hjá mömmu því hennar Facebook var sveitasíminn, tvær langar og tvær stuttar en það var hringingin á Fit. Síðan var farið í bíltúr um sveitina, eftir bíltúrinn lá fyrir hvað fólk á þessum bæjum var að gera. Einnig var mikið um heimsóknir á milli bæja, þetta var Facebook mömmu. Af mörgum vinkonum var Ásta Sveinbjarnadóttir á Núpi henni kærust og töluðust þær við á hverjum degi og verða fagnaðarfundir hjá þeim þegar þær hittast á grænum engjum ásamt Guðsteini og Ólafíu og víst er að þar á eftir að vera glatt á hjalla.

Við þetta tækifæri vil ég þakka starfsfólki Kirkjuhvols sérstaklega fyrir alúðlega og frábæra umönnun mömmu en þar dvaldist hún síðustu árin en flestum helgum gat hún eytt á Fit og sótti pabbi hana á föstudögum en þetta var alltaf tilhlökkunarefni hjá mömmu og var hún einmitt að bíða eftir að Covid-19 liði hjá svo hún gæti farið austur að Fit en þá dundi áfallið yfir.

Það verða erfiðir tímar fram undan, horfin er á braut mikill karakter en ekkert er eilíft svo það verður að takst á við það eins og svo margt í lífinu sem maður vill hafa öðruvísi en ræður ekki för. Guð blessi þig mamma.

Jóhann Baldursson.

Tengdamóðir mín, Sigga á Fit, hefur kvatt okkur. Afar lífleg og skemmtileg kona, alltaf glöð og hress í bragði, á stundum óþægilega hreinskiptin. Hún fylgdist vel með sínu fólki og eins gott að svara þegar hún hringdi. Eins og ég kynntist henni í sveitinni þá var hún mikill verkstjóri, fylgdist vel með verkum utandyra og að þau væru unnin. Þegar ég var í sveitinni með dætur mínar var ekki setið auðum höndum, það var nóg að gera. Hún aðstoðaði við að mjólka kýrnar, sá um öll verk innandyra ásamt því að sjá um móður sína, sem þá var rúmliggjandi til fjölda ára. Íslensk ofurkona hún Sigga mín. Hafðu þökk fyrir allt og allt mín kæra.

Svanhvít Ólafsdóttir.

Elsku besta amma Sigga hefur kvatt okkur. Stórt skarð er höggvið í okkar hóp við fráfall hennar. Hún var algjörlega einstök. Hún var hress og skemmtileg og það var gaman að vera í návist hennar. Hún bar hag okkar svo sannarlega fyrir brjósti. Hún hringdi mjög reglulega allt fram undir síðustu stundu til að tékka á stöðunni hjá okkur, hvernig við hefðum það, hvort allir væru hraustir og til að fá fréttir. Henni fannst ófært fyrir okkur að búa á 4. hæð orðin þetta gömul og gladdist mjög fyrir okkar hönd þegar við fluttum í annað húsnæði. Hún var mikill matarunnandi, elskaði góðan mat og var saltað hrossakjöt og hangikjöt í sérstöku uppáhaldi og ekki var það verra eftir því sem það var feitara. Hún elskaði líka ís og vildi hafa þá vel stóra. Hún sagði það dásamlegt að hafa góða matarlyst. Hún var blátt áfram og sagði oft ýmislegt án þess að hugsa sig mikið um áður en hún talaði og gat þá jafnvel stuðað fólk. Við sem þekktum hana vel tókum orðum hennar passlega alvarlega. Henni fannst hárið á okkur systrum t.d. ansi oft lufsulegt ef við vorum með það slegið og sagði okkur að setja það upp eða greiða okkur. Ef henni fannst einhver flík sem við vorum í flott átti hún til að vilja máta eða spurði hvort þetta væri ekki til í hennar stærð. Hún elskaði mussur og vildi helst hafa þær mynstraðar og rauður litur var í sérstöku uppáhaldi. Ég minnist allra stundanna í sveitinni okkar sem við elskuðum báðar svo mikið. Í heyskapnum, að taka upp kartöflur, í fjósinu, í garðinum, á rúntinum, að spjalla og spila. Það voru forréttindi að fá að alast upp í nágrenni við ömmu sína og afa og missir afa á þessari stundu er mikill. Tíminn sem ég fékk með ömmu á spítalanum síðustu daga hennar er mér mjög dýrmætur þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Á stundu sem þessari er gott að eiga góðar minningar að ylja sér við og sumar hverjar geymi ég út af fyrir mig.

Hvíl í friði elsku amma mín og guð veri með þér. Þín

Ragnheiður.

Elsku Sigga amma mín. Nú er draumalandið orðið þitt og þar eru þeir sem farnir eru. Eins sorgmædd og ég er að missa þig frá okkur get ég rétt ímyndað mér hvað hin eru glöð að vera sameinuð þér á ný.

Hjá okkur sem eftir erum er stórt skarð sem ekki verður fyllt. Þú varst alger máttarstólpi í fjölskyldunni okkar. Ég byrjaði ung að koma í sveitina til ykkar afa, alltaf líf og fjör á Fit og margt um manninn og sást þú amma um að allt færi fram eftir röð og reglu. Það sem við hlógum oft saman og gerðum grín og glens að hinu og þessu.

Þú varst stórkostlegur persónuleiki, aldrei hitti maður manneskju sem þig þekkti sem ekki hafði einhverja skemmtilega frásögn af þér. Þú lagðir mér lífsreglurnar, sagðir til dæmis að ég ætti ekki að ná mér í drykkjuhrút og í guðanna að bænum ekki vera að hleypa strákum upp á mig, svo skellihlógum við.

Að fá að vera í sveitinni með ykkur afa voru forréttindi. Ég fylgdist með þér amma hvernig þú hugsaðir af natni um langömmu sem stóran part af lífi sínu var lömuð inni í stofu og sýndi það mér hversu óendanlegan kærleika þú barst í brjósti til þeirra sem voru í hjarta þínu.

Það var skóli út af fyrir sig að spila með þér og Gutta. Spilamennskan fór meira í að kenna hvor öðrum um hver svindlaði og svo var meira hlegið en spilað. Það fannst mér lítilli Eyjastelpu alveg mjög gaman.

Með svona marga í mat þurfti nú að taka til hendinni og baka. Stundum tók ég þátt í því og ekki minnist ég þess að þú hafir nokkru sinni notað uppskriftir heldur var þetta bara sirkað saman og hef ég notað þá tækni á mínu heimili.

Hápunktur vikunnar hjá mér var að fara á rúntinn með þér og afa í sund í Seljavallalaug og í bakaleiðinni var stoppað í Steinum og smávegis af gotteríi keypt.

Í einni af ferðum okkar á Hellu vorum við í kaupfélaginu og mig langaði í ís. Þú varst heldur treg til þannig að ég sagði að þetta væri nokkuð sem mamma myndi alltaf kaupa. Þú ákvaðst að kaupa þetta þá fyrir mig. Tvo lítra af skafís. Upp frá því varð ekki aftur snúið og borðuðum við oft skafís á kvöldin. Ís var með því betra sem þú fékkst ásamt spikfeitu hrossakéti.

Ég lærði líka eftir þér og langömmu, að þegar maður kyssti einhvern bless í sveitinni þá þvoði maður sér aðeins um munninn með lampaspritti svo maður fengi nú ekki einhvern óþverra í sig. Júgursmyrslið var svar við öllum kvillum, alveg sama hvað það var, enda tel ég elsku amma að þú hafir verið svona slétt og fín í andlitinu vegna notkunar á júgursmyrsli. Þú hafðir svör við öllu, man að ég var með þrálátar vörtur á puttunum, þá bastu hnút um vörtuna með lopabandi, svo létum við amma bandhnútinn inn í holuvegg og þá átti vartan að hverfa. Vartan mín hvarf allavega.

Ef einhver var að fara til útlanda þá sagðir þú ósjaldan: „Oj bara, hvað er fólk að þvælast svona til útlanda?“ og svo hlógum við saman.

Já, ég á endalaust dásamlegar minningar um þig sem munu verma hjarta mitt um ókomna tíð. Ég elska þig ofboðslega mikið amma mín. Hittumst í draumalandinu þegar kallið mitt kemur.

Saknaðarkveðja,

Marý Linda

Jóhannsdóttir.

Elsku amma.

Það er þungt að missa þá sem maður elskar. Stórt skarð hefur myndast í Fitarfjölskylduna, þú varst á einhvern hátt höfuð fjölskyldunnar, sú sem stjórnaði fyrir framan og á bak við tjöldin.

Þú varst alltaf hress og kát, fylgdist vel með þínum og hafðir einlægan áhuga á öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Þú varst óspör á að segja okkur hversu myndarleg, góð og einstök við værum og hversu mikilvægt það er að vera þakklát fyrir sitt. Þú kenndir okkur að vera ánægð með hvernig Guð skapaði okkur, að það er dásamlegt að geta borðað og yndislegt að geta talað.

Þú varst einstök persóna og hægt að fullyrða að þú varst engum öðrum lík, skelfilega skemmtileg og hrikalega hreinskilin. Stundum auðvitað einum of. Eftir þig liggja margar frábærar setningar sem ekki er hægt að birta en við ætlum að muna. Þér fannst mikilvægt að geta gert að gamni þínu og leiddist þegjandagangur.

Á Svíþjóðarárunum hugsaði ég margoft hvernig færi ef ég hefði ekki ömmu Siggu. Þú hringdir oft og fylltir mig með fréttum. Þú kunnir langa sænska númerið utan að og stundum þegar ég kom heim voru 11 ósvöruð samtöl, loksins þegar þú náðir sambandi sagðirðu: „Hvar í ósköpunum ertu búin að vera?“ Þú þoldir ekkert droll né heimóttarskap, lést verkin tala, gerðir hlutina hratt og örugglega.

Það er smá Sigga amma í mér en fyrir utan að hafa erft vaxtarlag þitt eins og þú fullyrtir sjálf þá þykir mér óskaplega gaman að tala, ég á erfitt með að fylgja uppskrift, gomsa bara einhverju í skál, ég hef takmarkaða þolinmæði og læt oft út úr mér hluti án þess að hugsa.

Þú varst svo myndarleg og fjörug að þú hefðir getað náð þér í hvaða mann sem var en þú valdir afa af þeirri einföldu ástæðu að hann var svo sætur. Þetta sagðirðu okkur oft. Þú sagðir mér stundum að hann Gísli væri agalega myndarlegur, hann væri með svo kyssilegar varir. Þú baðst mig um að vera góð við Gísla svo hann færi ekki frá mér. Ég svaraði að ég yrði eins góð við hann og þú varst við afa. Þið áttuð einstakt samband, svo ólík en bæði svo yndisleg.

Amma hafði áhuga á útliti sínu og annarra. Hún sagði okkur systrum hispurslaust hvað henni fannst um hárið á okkur, klæðaburð og annað. „Mikið svakalega er ljótt á þér hárið, ætlarðu ekki að láta klippa þig; í hvaða lufsu ert þú, mikið agalega er þetta ljótt.“ Að sama skapi ef henni líkaði eitthvað: „Mikið er þetta falleg mussa, farðu úr henni, ég ætla að máta hana. Af hverju keyptirðu ekki svona handa mér? Er þetta ekki til í minni stærð?“

Ég er þakklát fyrir tímann sem við áttum saman á sjúkrahúsinu. Ég sagði þér hversu dáð og elskuð þú ert, ég gat þakkað fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur, við fórum með bæn og ég fann að þú heyrðir í okkur þó þú ekki gætir svarað.

Það huggar mig að hugsa að nú séuð þið systur saman og Gutti að stríða ykkur. Ég er sannfærð um að það er gaman hjá ykkur. Ég mun sakna þess að horfa inn í fallegu brúnu augun þín, að heyra röddina þína og fá ráð hjá þér um hitt og annað.

Ég kveð þig nú eins og þú alltaf kvaddir mig: „Vertu sæl og Guð veri með þér.“

Þín

Jóhanna.

Elsku langamma. Þín verður sárt saknað. Þú varst alltaf jafn skemmtileg, málglöð, og stundum virtist mér þú alltaf vera svöng. Alltaf að biðja „Baldur“ að ná i eitthvað gómsætt handa þér. Að vinna á Kirkjuhvoli er eitt af því besta sem ég hef gert. Að fá að vera til staðar og nálægt þér var alltaf gaman og aldrei var leiðinlegt á vinnustaðnum þegar Sigga Páls var vakandi. Þú varst alltaf að reyna að gifta mig einhverjum af starfsfólkinu og vildir alls ekki að ég færi út til Svíþjóðar aftur, því ég átti að „fá mér fallega íslenska konu“ hér á landi, helst einhverja sem vann á Kirkjuhvoli.

Eitt atvik er mér sérstaklega minnistætt og kært. Sumarkvöld eitt í vinnunni hringdir þú margoft því þig sárvantaði svefntöfluna þína. Hjúkrunarfræðingurinn var upptekin og ég vissi ekki hvar svefntöflurnar þínar voru svo ég sagði þér að bíða í smástund. „Já já væni minn, vektu mig bara þegar þú kemur með töfluna,“ svaraðir þú. Þegar ég loksins kom með hana varst þú sofandi, en minnugur þess sem þú sagðir vakti ég þig. „Ég er kominn með töfluna,“ sagði ég. „Jæja væni, settu hana á borðið, ég tek hana ef ég þarf þess,“ svaraði þú og lagðist aftur og sofnaðir. Búin að bíða allt kvöldið eftir svefntöflu og segist svo ekki þurfa hana loksins þegar hún kemur!

Ekkert verður það sama án þín þegar ég mæti í vinnu í sumar. C-gangurinn verður tómlegur því mikilvægur og skemmtilegur karakter verður ekki til staðar.

Ég elska þig langamma, og mun alltaf gera það.

Þinn

Ólafur Pálmi.

Elsku langamma. Orð geta ekki lýst hversu mikið ég mun sakna þín og þinnar einstöku, skemmtilegu persónu sem heillaði alla. Ég hugsa um fallegu röddina þína og þinn glaða og orkumikla persónuleika, þú þreyttist ekki á að stöðugt spyrja mig hvar ég vildi búa, á Íslandi eða í Svíþjóð? Þú vildir alltaf vera að gefa okkur barnabörnunum ís, nammi og til og með saltkjöt og aðra matrétti þó svo að við værum pakksödd. Ég mun sakna þess að fá ekki lengur það verkefni að fara út og klippa njóla fyrir utan garðinn þinn. Það var mikilvægt fyrir þig, að hafa fínt i garðinum og í kringum húsið, og þú hugsaðir um þetta þótt þú værir stóran hluta af vikunni á Kirkjuhvoli. Ég mun sakna nærveru þinnar og raddarinnar sem okkur þykir svo vænt um. Ég sakna sumarsins sem ég vann á Kirkjuhvoli, það var gaman að hitta þig á hverjum degi og fá að hjálpa þér. Ég á minningar sem ég mun bera með mér allt lífið og aldrei gleyma. Það var alltaf jafn skemmtilegt að setjast niður og tala við þig um heima og geima, stundum baðstu mig að sækja smá auka lifrarpylsu því þú varst svöng, eða þá bara af því það var svo gott. Stundum baðstu mig að sækja símann þinn, þú ætlaðir að hringja í langafa og biðja hann að sækja þig því þig langaði heim.

Það er óhætt að segja, elsku langamma, að þú hafir verið dásamleg persóna. Persóna sem er svo einstök að við munum aldrei nokkurn tímann gleyma þér. Þú hafðir jákvæð og skemmtileg áhrif á alla fjölskylduna, það var virkilega enginn annar eins og þú amma Sigga. Ég sakna þín ótrúlega mikið og ég vildi óska að ég gæti verið með fjölskyldunni á þessum erfiða tíma. Ég veit að þú munt fylgja mér hvert sem ég fer og hvað sem ég vel að gera í lífinu. Ég elska þig.

Þinn

Snorri.

Elsku langamma, erfitt er að hugsa til þess að hitta þig ekki aftur, spjalla og hlæja með þér en minningarnar eru óteljandi. Ein af mínum fyrstu er þegar ég sat á eldhúsbekknum upp frá og þú varst að útbúa þessa dýrindisappelsínu fyrir mig sem var skorin í annan endann og stútfull af sykurmolum. Þvílík snilld og gott undir tönn þótt mögulega ekki fyrir tönn en það skipti engu. Svo fannst mér svaka sport að draga ritningarvers úr viðarboxi sem þú flettir upp í biblíunni og last fyrir mig.

Þú varst einstök, sérstök og án nokkurs filters, þú lést þig allt varða og stóðst aldrei á þínum skoðunum. Þú kenndir mér að vera samkvæm sjálfri mér, kannski líka að láta allt flakka þegar tilefni er til eða jafnvel ekki tilefni til.

Ekkert fór fram hjá þér og þú vissir allar fréttir manna fyrst. Alvitað var að þegar símasnúran var strekkt inn í lokað reykherbergi þá ætti ekki að trufla rétt á meðan. Símtölin áttu það til að standa yfir tímunum saman, enda af mörgu að taka í sveitinni og víðar. Nú er fjör hjá þér, Gutta, Ásdísi og Ólafíu get ég rétt svo ímyndað mér, spilandi og svindlandi hægri vinstri. Enginn er eins og þú varst. Ég kveð þig með broti úr lagi sem minnir mig alltaf á þig og líka eins og þú kvaddir alltaf. Vertu margblessuð og sæl, guð geymi þig og varðveiti, elsku langamma mín.

Nú set ég tvistinn út

og ég breyti í spaða.

Þig ég kveð í kút

ef þú segir pass.

Og þar næst þristinn út,

nú, nú, hvaða hvaða?

Enga sorgarsút

láttu ekki eins og skass.

Þín

Tinna Björt.

Elsku Sigga langamma, mikið er það sárt að þurfa að kveðja þig. Þótt lengi væri leitað væri erfitt að finna jafn hressa og skemmtilega manneskju eins og þig. Þú hafðir ofboðslega stórt hjarta og varst svo gífurlega stór karakter sem skipti fólkið í kringum þig miklu máli.

Ég ylja mér við allar þær minningar sem ég á af þér í sveitinni en þar er best að vera eins og við vitum báðar tvær. Að koma inn til ykkar langafa, spila og spjalla voru dýrmætar stundir. Þú vildir alltaf gefa manni eitthvert gotterí og þegar matur var annars vegar þá var allt leyfilegt. Ég held að ég hafi verið um sex ára þegar við Tinna laumuðumst einu sinni í ísskápinn hjá þér og fengum að sprauta upp í okkur gervirjóma til skiptis, þér þótti það nú ekki leiðinlegt enda fannst þér rjómi svo ofboðslega góður. Það jafnaðist þó ekkert á að koma inn til þín og fá bleikt salat ofan á brauð, eða jafnvel ekki á brauð heldur bara beint upp úr krukkunni. Ég man eftir því þegar þú skelltir oft góðri skeið í lófann og beint upp í munn og hlóst. Þú varst frábær í alla staði, fórst þínar eigin leiðir og hikaðir ekki við að segja fólki til ef þér fannst vera þörf á því. Eins varstu ofboðslega forvitin eins og maður sá þegar að þú varst farin að hringja á milli allra í fjölskyldunni til að komast að því hver væri eiginlega að tala við þann sem þú þurftir að ná í ef það var á tali.

Mikið óska ég þess að þú hafir það gott á himnum, takk fyrir allt og takk fyrir að vera þú!

Langamma þú varst einstök, langamma þú varst engum lík, langamma ég á eftir að sakna þín.

Þín

Erna Guðlaug (Erna Gulla).

Í dag kveðjum við góða nágrannakonu, Sigríði Pálsdóttur eða Siggu á Fit eins og hún var alltaf kölluð. Sigga ól nær allan aldur sinn á Fit að undanskildum fáeinum árum sem hún bjó úti í Bjóluhjáleigu þaðan sem Baldur maður hennar er ættaður. Þau fluttu austur á Fit og tóku þar við búi. Ekki síst kom hún heim til að annast móður sína sem var við rúmið í mörg ár sem hún annaðist af miklum dugnaði og ósérhlífni. Einnig voru faðir hennar og uppeldisbróðir í heimili. Þau hjón voru samtaka í búskapnum og byggðu hann upp. Sigga hafði alltaf metnað fyrir sínu búi, ef henni fannst eitthvað fara úrskeiðis utandyra skyldi laga það strax og það þýddi engan duðrugang eins og hún komst stundum að orði. Það var mikið verk að vera með stórt bú og sjá líka um þrjá aldna einstaklinga þegar ellin fór að segja til sín hjá þeim. En allt fórst henni þetta vel úr hendi. Oft voru miklar gestakomur á Fit og allir fengu kaffi og með því. Sigga gat oft verið dálítið frökk í tali og því var oft kátt yfir umræðunum í eldhúsinu. Elsti sonur þeirra og tengdadóttir komu inn í búið og áfram var byggt upp af myndarskap, og síðar tóku þau alfarið við búinu. Þótt Sigga væri hætt að búa fylgdist hún vel með öllu sem sneri að búskapnum. Hún ferðaðist ekki mikið en þótti gaman að fara um sveitina sem hún gerði oft og fylgdist vel með hvað væri að gerast á bæjunum og gladdist yfir allri uppbyggingu í sveitinni. Er aldurinn færðist yfir þurfti hún að fara á dvalarheimilið Kirkjuhvol en Baldur var áfram heima. Baldur sótti hana hverja helgi svo hún gæti verið heima nokkra daga. Henni leið vel á Kirkjuhvoli en hugurinn var alltaf heima við og spáði hún alltaf hvað væri að gerast í búskapnum. Nú er sonardóttir og nafna hennar og sambýlismaður tekin við búskapnum og hafa þau byggt nýtt fjós þannig að það verður áfram vel búið á Fit og yfir því gladdist hún. Alltaf hefur verið töluverður samgangur á milli bæjanna. Ég var ekki gamall þegar ég fór að fara á milli og ávallt hefur verið gott að koma á Fit í gegnum árin.

Fjölskyldan á Fitjarmýri þakkar Siggu fyrir samfylgdina og vináttuna í gegnum árin og vottum Baldri, bræðrunum og fjölskyldu þeirra innilega samúð okkar.

Baldur Björnsson.

Í dag kveðjum við Siggu á Fit, eina litríkustu og skemmtilegustu konu sem ég hef kynnst. Hún var ein af bestu vinkonum mömmu minnar, þ.a.l. fékk ég að kynnast henni á barnsárum mínum þegar ég fór í heimsóknir til hennar með mömmu. Ég man vel eftir mömmu hennar, henni Jóu sem var rúmliggjandi í mörg ár og sinnti Sigga henni af einstakri alúð og kærleika. Þær mæðgur voru ótrúlega léttar og hressar í lund þrátt fyrir það sem lífið hafði rétt þeim. Sigga átti líka dúkku sem ég var heilluð af og fékk ég bæði að skoða hana og svo sagði Sigga mér ýmislegt um hana. Sigga var mikill töffari hér á árum áður þegar hún reykti filterslausar Camel. En hún var ekki minna töff þegar hún hætti að reykja á fullorðinsárum, ég veit ekki hvort hún hafi notað eitthvað af nikótínlyfjum sér til hjálpar. Seinna þegar ég varð fullorðin og vinkonurnar enn eldri fórum við í skemmtiferðir þar sem allt var látið flakka eins og Sigga gerði svo skemmtilega, stundum hélt mamma að þetta væri of mikið fyrir litlu dótturina og sagði við Siggu „þetta er of mikið fyrir hana BB“ en ég skemmti mér hið besta og gullkornin hrundu. Alltaf þegar við Sigga hittumst eftir að mamma dó rifjuðum við upp minningar um hana, þá hlýnaði mér alltaf um hjartarætur, því hún talaði svo fallega um hana mömmu. Til að fleiri fengju að njóta skemmtilegra stunda með Siggu fékk ég stundum vinkonur mínar til að koma með mér til hennar í kaffi. Þá lék hún á als oddi, allir fengu kökur og kaffi. Hún hélt uppi hressandi og upplýsandi samræðum meira en nokkur hafði upplifað í venjulegu kaffiboði. Eftir að hún flutti á Kirkjuhvol var hún alltaf glöð þegar við hittumst en það var þó minna um heimsóknir á síðasta ári en ég hefði viljað. Ég kveð í dag einstaka komu sem gerði lífið hressilegra og litríkara. Óska henni góðrar ferðar í ný ævintýri. Ég býst við að þær mamma hittist og nái að ræða það sem á dagana hafi drifið síðan þær hittust síðast. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég eiginmanni hennar Baldri og sonum, Óskari, Jóa, Óla og fjölskyldum þeirra.

Guðbjörg B. Guðmundsdóttir frá Núpi.