[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þessar tölur sýna afleiðingar kórónuveirunnar á íslenskt samfélag,“ segir Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þessar tölur sýna afleiðingar kórónuveirunnar á íslenskt samfélag,“ segir Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu.

Barnaverndarstofa hefur tekið saman og greint tölur frá barnaverndarnefndum vegna tilkynninga í nóvember og desember á síðasta ári. Barnaverndarstofa hefur tekið slíkar upplýsingar saman í hverjum mánuði frá upphafi kórónuveirufaraldursins.

Í nóvember bárust 1.144 tilkynningar vegna 922 barna og er sá fjöldi yfir hæsta gildi samanburðartímabilsins. Í desember var fjöldi tilkynninga hins vegar innan sveiflu sem vænta má á milli mánaða, eða 1.077 vegna 889 barna.

Heiða Björg segir í samtali við Morgunblaðið að tölurnar fyrir allt árið 2020 sýni gríðarlega fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda á milli ára. „Þetta staðfestir þann grun okkar að Covid-ástandið hefur haft töluverð áhrif á aðstæður barna. Það verða alltaf sveiflur á milli mánaða en í fyrra vorum við alltaf með tölur um ofbeldi og vanrækslu yfir meðaltali. Það þýðir að börnum sem búa við slæmar aðstæður á Íslandi hefur fjölgað. Við erum ekki að fara í neitt skammtímaátaksverkefni til að bæta úr því. Það verður langtímaverkefni fyrir barnaverndarkerfið að vinda ofan af því ofbeldi og vanrækslu sem börn hafa orðið fyrir.“

Heiða segir að tryggja þurfi greiðan aðgang að stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. „Það ætlar sér enginn að vanrækja barnið sitt, það gerist eitthvað hjá fólki og það missir tökin. Hlutverk barnaverndarkerfisins er að geta brugðist við, stutt við fjölskyldur og hjálpað þeim á réttu brautina. Sama er með ofbeldismálin; foreldrar missa tökin og beita röngum uppeldisaðferðum. Þar þurfum við bæði að styðja við fólk og kenna því og eins að hjálpa barninu að vinna úr áfallinu sem ofbeldið hefur valdið.“

Heiða segir það einmitt sérstakt áhyggjuefni hversu tilkynningum vegna ofbeldis hefur fjölgað. Í fyrra bárust 25,3% fleiri slíkar tilkynningar en árið 2019. Í nóvember einum voru tilkynningar um ofbeldi gegn börnum 138 talsins og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði. „Þetta er rosaleg fjölgun, alger sprenging,“ segir Heiða og getur þess í framhaldi að jákvætt sé að augljóst sé að passað sé vel upp á börn í íslensku samfélagi. „Það er verið að fylgjast vel með aðstæðum barna og fólk er duglegt að tilkynna þegar eitthvað kemur upp á. Víða erlendis fækkaði tilkynningum mikið í kórónuveirufaraldrinum en þetta norræna módel sem við notum greip börnin vel í vor þegar skólum var lokað. Fólk er meðvitað um að það hafa allir hlutverki að gegna og tekur það alvarlega.“

Tilkynningum um vanrækslu fjölgaði um tæp 19% á milli ára. Sérstaka athygli vekur að 27,5% fleiri tilkynningar vegna foreldra í áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu bárust í fyrra en árið 2019. „Líf margra hefur farið úr skorðum og við það breytist neyslumynstur. Vandinn hefur aukist hjá fjölskyldum sem voru í einhverjum vanda fyrir Covid. Fólk setti börn í pössun og fór út að djamma áður, en svo færðust partíin í heimahús og þá eru kannski börnin sofandi í næsta herbergi. Neyslan breytist og hefur meiri áhrif á börn.“