Halldór Guðmundsson fæddist 4. ágúst 1935. Hann lést 27. desember 2020.

Útför hans fór fram 5. janúar 2021.

Þá hefur góður maður kvatt þennan heim. Þótt aldurinn væri orðinn hár var þetta skyndilegt og ófyrirséð, rétt eins og þú værir að drífa þig yfir um og langar mig að trúa því að ætlunin hafi verið að hitta ömmu daginn eftir því þá áttuð þið 55 ára brúðkaupsafmæli.

Þegar ég var barn var alltaf pláss fyrir okkur barnabörnin hjá ömmu og afa. Þar var allt leyfilegt og framkvæmanlegt og brölluðum við ýmislegt á háaloftinu og sama hvaða vitleysa okkur datt í hug var aldrei sagt nei. Hvort sem það var að mála veggi, bræða niður öll kertin, setja eldhúsið á hvolf með sulli, fá ís í morgunmat, læra á verkfærin í smíðahorninu eða fylla húsið af skeljum og blómum. Það var allt svo sjálfsagt og velkomið. Þá var farið í ófáar fjöruferðir, bíltúra um Snæfellsnes og eitt sinn buðum við Heimir okkur sjálfum með í hringferð um landið og auðvitað var því svarað játandi.

Þegar barnabarnabörnin bættust í hópinn var gleðin ekki minni, ykkur þótti yndislegt að hafa þau í heimsókn og fengu þau að kynnast ykkur og góðvild ykkar. Nýjasta fjölskyldumeðliminn náðuð þið hvorugt að hitta, en þú, afi, fékkst þó að sjá hann í símanum. Fyrir ykkur skipti fjölskyldan öllu máli, rétt eins og það á að vera, og pössuðuð þið bæði upp á að muna eftir öllum afmælisdögum og öðrum merkisdögum.

Mikið er ég þakklát fyrir ykkur bæði tvö.

Takk fyrir allt, elsku afi og langafi. Við biðjum að heilsa ömmu.

Sólrún og fjölskylda.