Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í síðustu viku Trausta Hafliðason, ritstjóra Viðskiptablaðsins, og Myllusetur ehf., útgefanda blaðsins, í meiðyrðamáli sem Lúðvík Bergvinsson lögmaður höfðaði vegna ummæla í skoðanapistlinum Óðni sem birtist í blaðinu og á vef þess í apríl á síðasta ári.
Í pistlinum, sem skrifaður er undir dulnefni, var fjallað um störf Lúðvíks sem óháður kunnáttumaður fyrir Samkeppniseftirlitið vegna sáttar sem N1 og Festi gerðu við eftirlitið þegar félögin sameinuðust. Var kostnaður af störfum Lúðvíks þar umfjöllunarefni, en hann hafði fengið um 33 milljónir fyrir störf sín og einnig var þar fjallað um tengsl hans við aðstoðarforstjóra eftirlitsins.
Málið var höfðað vegna tiltekinna ummæla í pistlinum þar sem Lúðvík taldi vegið, með ólögmætum og einstaklega grófum hætti, að æru sinni og starfsheiðri og honum m.a. gefið að sök að hafa gest brotlegur gegn hegningarlögum. Krafðist Lúðvík ómerkingar á ummælunum og þess að Trausti og Myllusteinn greiddu honum þrjár milljónir króna í miskabætur.
Trausti krafðist sýknu og sagði ummælin hvorki ærumeiðandi móðganir né aðdróttanir í garð Lúðvíks. Ummælin í pistlinum bæru með sér að þungi væri í orðum Óðins svo sem umfjöllunarefnið og almenn efnistök dálks á sviði þjóðmálaumræðu dagsins krefðust en þar væru ekki borin fram nein hróp, ósæmilegt orðfæri eða svigurmæli. Þá sagði Trausti að markmiðið með málaferlunum virtist líka augljóst; að þagga niður í litlum og viðráðanlegum fjölmiðli, öðrum til viðvörunar.
Í niðurstöðu sinni segir Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari að játa verði fjölmiðlum ríkt svigrúm til að gera grein fyrir málum sem veita upplýsingar um málefni sem eiga erindi við almenning. Fallast verði á að ummælin í pistlinum feli í sér gildisdóma og séu sett fram sem skoðun og huglægt mat, eða upplifun á málefni. Ekki sé um staðhæfingar um staðreyndir að ræða. Þá tengist umfjöllunin málefni sem varði almenning, þ.e. starfsemi eftirlitsstofnana og kostnaði við eftirlit og framkvæmd þess. Það sé hluti af sjálfsagðri og hefðbundinni þjóðfélagsumræðu. Jafnframt hafi fjölmiðlar, í ljósi stöðu sinnar, ríkara svigrúm til að gera grein fyrir málum sem eiga við almenning og því þurfi ríkar ástæður til að skerða það frelsi.
Segir dómarinn síðan, að sú tjáning sem fólst í öllum ummælunum hafi fallið innan marka stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu og ekki hafi verið gengið nær einkalífi Lúðvíks en óhjákvæmilegt var. Voru Trausti og Myllusetur sýknuð af öllum kröfum Lúðvíks og honum jafnframt gert að greiða 1,5 milljónir í málskostnað.