Bólusetningar Eldri borgarar í Köln í Þýskalandi bíða þess að verða bólusettir, en fólk yfir 65 ára aldri er ekki bólusett með AstraZeneca-efninu þar.
Bólusetningar Eldri borgarar í Köln í Þýskalandi bíða þess að verða bólusettir, en fólk yfir 65 ára aldri er ekki bólusett með AstraZeneca-efninu þar. — AFP
Stjórnvöld í Suður-Afríku tilkynntu í gær að þau hygðust fresta upphafi bólusetningarherferðar með bóluefni Oxford-háskóla og AstraZeneca, eftir að þarlend rannsókn gaf til kynna að virkni þess væri minni gegn suðurafríska afbrigði veirunnar, sem sagt...

Stjórnvöld í Suður-Afríku tilkynntu í gær að þau hygðust fresta upphafi bólusetningarherferðar með bóluefni Oxford-háskóla og AstraZeneca, eftir að þarlend rannsókn gaf til kynna að virkni þess væri minni gegn suðurafríska afbrigði veirunnar, sem sagt er meira smitandi. Var til skoðunar að bólusetja færri en áður var ráðgert, meðan virkni efnisins væri könnuð nánar.

Forsvarsmenn AstraZeneca sögðu hins vegar að enginn af þeim 2.000 manns sem tóku þátt í rannsókninni, sem enn á eftir að ritrýna, hefði heldur sýkst alvarlega eftir að hafa fengið bóluefni fyrirtækisins. Sögðu forsvarsmenn AstraZeneca, að þegar væri í þróun ný útgáfa af bóluefninu, sem tæki á suðurafríska afbrigðinu, og að þess mætti vænta ekki síðar en í haust.

Bóluefnið veiti öfluga vernd

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði við breska fjölmiðla í gær að stjórnvöld í Bretlandi teldu bæði bóluefni Oxford og AstraZeneca og bóluefni Pfizers og BioNTech veita öfluga vernd gegn því að veikjast alvarlega eða láta lífið af völdum kórónuveirunnar.

Rúmlega 12 milljónir Breta hafa nú verið bólusettir fyrir kórónuveirunni, og hefur aðallega verið stuðst við þessi tvö bóluefni.

Nokkur aðildarríki ESB hafa lýst yfir áhyggjum sínum um virkni AstraZeneca-efnisins í eldra fólki. Hafa stjórnvöld í níu ríkjum, þ.á m. Frakklandi og Þýskalandi, ákveðið að takmarka notkun þess meðal fólks yfir 65 ára aldri.

Breskir vísindamenn segja hins vegar enga ástæðu til þess að efast um virkni efnisins meðal eldra fólks.