Átta Tandri Már Konráðsson var markahæstur Stjörnumanna gegn ÍBV og hér reyna Eyjamenn að verjast langskoti frá honum.
Átta Tandri Már Konráðsson var markahæstur Stjörnumanna gegn ÍBV og hér reyna Eyjamenn að verjast langskoti frá honum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handboltinn Víðir Sigurðsson vs@mbl.is FH-ingar tylltu sér í annað sæti úrvalsdeildar karla í handbolta, Olísdeildarinnar, með allsannfærandi sigri á Aftureldingu í Mosfellsbæ, 33:27.

Handboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

FH-ingar tylltu sér í annað sæti úrvalsdeildar karla í handbolta, Olísdeildarinnar, með allsannfærandi sigri á Aftureldingu í Mosfellsbæ, 33:27. Afturelding var síðasta liðið til að tapa leik í deildinni en nú eru ósigrarnir orðnir tveir í röð og Mosfellingar eru því aðeins að missa flugið eftir góða byrjun á mótinu.

„FH-ingar virðast vera í góðum málum með leikmannahópinn hjá sér í augnablikinu og þeirra lykilmenn virðast flestir vera heilir heilsu. FH-ingar urðu fyrir miklum vonbrigðum á dögunum þegar þeir misstu unna stöðu niður í jafntefli gegn KA en hafa hrist það af sér. Þeir eru líklegir til að safna stigum á næstunni. Afturelding er ekki einungis án fimm leikmanna eða svo heldur leikur liðið ekki með örvhentan mann í skyttustöðunni hægra megin. Stórskyttan Birkir Benediktsson sleit jú hásin þegar tímabilið var að hefjast. Ofan á meiðsli nokkurra góðra leikmanna var Þrándur G íslason auk þess í leikbanni,“ skrifaði Kristján Jónsson m.a. í grein um leikinn á mbl.is.

Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði 8 mörk fyrir Aftureldingu og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 6 en Einar Rafn Eiðsson var atkvæðamestur FH-inga með 9 mörk. Phil Döhler varði 15 skot í marki FH, þar af þrettán í seinni hálfleiknum og tvö vítaköst frá Guðmundi árna Ólafssyni. Arnór Freyr Stefánsson varði 14 skot í marki Aftureldingar.

Betri staða Stjörnunnar

Stjörnumenn hafa verið mistækir það sem af er tímabilinu en sýndu í gærkvöld með því að vinna Eyjamenn, 30:29, í Garðabæ að þeir geta lagt hverja sem er á góðum degi.

Með sigrinum kom Stjarnan sér af hættusvæði deildarinnar og með þá reynslu sem er til staðar í liðinu ætti það að hafa burði til að þoka sér ofar. Reynsluboltarnir Björgvin Þór Hólmgeirsson, Ólafur Bjarki Ragnarsson og Tandri Már Konráðsson eru liðinu mikilvægir og spiluðu talsvert saman þrír fyrir utan. Björgvin var sérlega dýrmætur á tveimur ögurstundum, hann gerði glæsilegt mark á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks og 80 sekúndum fyrir leikslok náði hann frákasti og skoraði, kom Stjörnunni í 30:28 og tryggði í raun með því sigurinn. Tandri var markahæstur með 8 mörk.

Eyjamenn áttu frekar slæman dag lengi vel en tóku sér tak, fimm mörkum undir, þegar tíu mínútur voru eftir, og hleyptu spennu í leikinn. Kári Kristján Kristjánsson jafnaði í tvígang, 27:27 og 28:28, en ÍBV náði ekki að fylgja því eftir og ræna stigi sem hefði þó ekki verið sanngjarnt. Petar Jokanovic markvörður var besti maður ÍBV og varði 18 skot.