Marsibil Guðrún Anna Gunnarsdóttir fæddist 22. febrúar1933. Hún lést á Hrafnistu, Nesvöllum, 1. febrúar 2021. Hún var sjöunda í röð níu systkina. Foreldrar hennar voru Gunnar Guðmundsson, fæddur 30. maí 1898, látinn 23. október 1987, og Guðmunda Jóna Jónsdóttir, fædd 19. október 1905, látin 21. október 1991. Börn þeirra eru: Jón Gunnarsson, fæddur 8. ágúst 1921, dáinn 6. mars 1991, Guðmunda Steinunn Gunnarsdóttir, fædd 1. mars 1923, dáin 9. október 2011, Gunnar Ríkharður Gunnarsson, fæddur 5. ágúst 1924, dáinn 14. nóvember 2007, Guðmundur Aðalsteinn Gunnarsson, fæddur 17. apríl 1926, dáinn 15. júní 1927, Aðalsteinn Gunnarsson, fæddur 2. mars 1928, dáinn 2. júlí 2013, Björgvin Hofs Gunnarsson, fæddur 23. nóvember 1931, dáinn 24. ágúst 2017. Eftirlifandi eru Katrín Gunnarsdóttir, fædd 25. janúar 1941, og Kristján Gunnarsson, fæddur 19. maí 1943, bæði búsett á Þingeyri við Dýrafjörð.

Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju 9. febrúar 2021 klukkan 13.

Í ljósi aðstæðna munu einungis nánustu aðstandendur vera viðstaddir athöfnina. Athöfninni verður streymt á:

www.facebook.com/groups/marsibil

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Mig langar að minnast tengdamóður minnar og vinkonu með nokkrum orðum.

Billa var ótrúlegur dugnaðarforkur, miklaði ekkert fyrir sér, alveg sama hvort það var í vinnu eða áhugamálum.

Alltaf til í að hjálpa ef einhver var í erfiðleikum.

Við áttum yndislegan vinskap í gegnum öll árin.

Billa var einhver besta prjónakona sem ég hef kynnst. Ég var svo heppin að vera með Billu í 10 daga í endaðan nóvember sem ég mun lifa á lengi.

Ótrúlega dýrmætt fyrir mig.

Ég vil þakka heimahjúkrun í Reykjanesbæ sem var frábær.

Elsku Billa, takk fyrir mig, ég sé þig í sumarlandinu.

Birna Ísaksdóttir.

Það eru margar góðar minningar sem koma upp í hugann þegar komið er að því að kveðja Billömmu.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann okkar eru myndirnar af okkur í öllum þeim fötum sem hún hefur saumað og prjónað á okkur í gegnum tíðina. Hún var svo mögnuð handavinnukona, að nota uppskrift var eitthvað sem hún þurfti ekki. Það var nóg að lýsa því sem maður óskaði sér og hún töfraði það fram. Við höfum alltaf dáðst að hæfileikum hennar og henni tókst að smita okkur af áhuganum. Það var alltaf hægt að stóla á hjálp frá henni, hún hafði ráð við öllum lykkjuföllum og endalausa þolinmæði við að kenna manni.

Hún var svo góð amma og vildi alltaf allt fyrir okkur gera. Þegar við komum í heimsókn til þess að „hjálpa“ ömmu að spóla lopaplöturnar upp í hnykla þá lét hún eins og maður væri að gera henni mikinn greiða og svo fékk maður jafnvel vasapening fyrir. En það besta sem maður græddi var spjall og knús hjá ömmu.

Billamma var ótrúlega sjálfstæð, sterk og fyndin kona sem lét ekkert stoppa sig. Hún var hörkutól sem gat alltaf bjargað sér með ýmsum heimagerðum remedíum. Ef kvefið ætlaði að kíkja í heimsókn þá var hún ekki lengi að hita mjólk með hvítlauk sem hún bruddi eins og brjóstsykur og ef henni var illt einhvers staðar í kroppnum þá þurfti bara að djöflast á staðnum með rafstuðsgræjunni þar til verkurinn fór. Auðvitað var þessi rafstuðsgræja fullkomið leikfang fyrir ömmubörnin sem skemmtu sér alltaf vel með því að elta hvort annað um húsið vopnuð rafmagni.

Billömmu verður sárt saknað en hún mun lifa áfram í hjarta okkar og minningum.

Marsibil Lillý

og Ragna Dögg.

Elsku Billa amma mín er fallin frá.

Mínar fyrstu minningar af Billu ömmu eru líklega þegar hún las fyrir mig myndasögur fyrir svefninn sem barn, þetta voru ekki myndasögur sem ég hafði komið með heldur myndasögur sem hún sjálf var að lesa og maður lá dolfallinn yfir. Billa amma var víst mikið fyrir myndasögur og mér skilst að pabbi hafi á unglingsárunum orðið ansi hissa þegar hann komst að því að hann var skírður eftir ljóninu Núma úr Tarzan-myndasögunum en ekki Núma Rómarkeisara, og núna erum við orðnir þrír ættliðir af Númum.

Á barns- og unglingsárunum gaukaði amma iðulega einhverjum seðlum að manni og var stefnan þá sett beint út á vídeóleigu að leigja vídeóspólu og kaupa svo nammi fyrir afganginn. Síðan lagðist maður fyrir í rauða sófanum hjá henni og horfði með henni á meðan hún sat og prjónaði eina af þeim ótalmörgu ullarpeysum sem hún gaf mér. Hún var nú til í að horfa á hvað sem var, en eina reglan sem hún setti var að það mætti ekki skarast á við Jessicu Fletcher eða Leiðarljós. Það var líka vinsælt að kíkja við hjá Billu ömmu seinnipartinn þegar hún kom heim úr vinnunni í flatkökugerðinni og smurði heitar flatkökur með rúllupylsu, það gerist ekki mikið betra.

Billu ömmu fannst mikilvægt að barnabörnin stæðu sig vel í skóla og kom á fót hvatakerfi þar sem greidd var ákveðin fjárhæð eftir því hver einkunnin var í hverju fagi og vanalega var það fyrsta sem maður gerði eftir einkunnaafhendingu að reikna út Billu ömmu-hagnaðinn sinn.

Börnin mín voru svo heppin að fá að kynnast langömmu sinni og voru alltaf spennt fyrir heimsóknum til hennar, þá var spjallað við ömmu, hið ýmsa glingur skoðað og smáhlutir sem hún hafði sankað að sér um árin og síðast en ekki síst leikið við köttinn. Amma var alltaf með einhver dýr á heimilinu, í talsverðan tíma var það páfagaukur en á seinni árum voru þetta kettir sem iðulega voru nefndir eftir hundum í fjölskyldunni, það var alltaf stutt í húmorinn hjá ömmu.

Billa amma var alltaf ótrúlega hress og hlæjandi og þótt heilsubrestir síðustu áranna hefðu lítil áhrif á það þá held ég að hún hafi verið hvíldinni fegin og sé á betri stað í dag. Hvíldu í friði, elsku Billa amma mín, þín verður sárt saknað.

Einar Númi.