Sundabrautin um Kleppsvík hefur nokkrum sinnum fengið á sig óvæntar beygjur og nú síðast er lagt til að þar verði byggð „lág hábrú“.
Aðdragandinn er sá að í júní 2019 kom út skýrslan „Sundabraut – Viðræður ríkisins og SSH“ þar sem var lagt til að skoða tvo valkosti fyrir þverun Kleppsvíkur, jarðgöng og lágbrú. Greinarhöfundur hafði samband við nokkra aðila sem sömdu skýrsluna og lagði til að botngöng um Kleppsvík yrðu skoðuð og kostnaðarmetin ásamt öðrum valkostum.
Það gerðist ekki og voru botngöngin afgreidd með þeim ókostum að „óvissa fylgir því að engin reynsla er af gerð botnganga hér á landi og kostnaðaráætlanir því ótryggar“. Í niðurstöðum skýrslunnar segir: „Miðað við þau gögn sem starfshópurinn hefur undir höndum til að leggja til grundvallar tillögum sínum telur hann að botngöng eða hábrú yfir Kleppsvík á leið I séu ekki fýsilegar lausnir. Þessar leiðir eiga það sameiginlegt að vera dýrar og munu hafa truflandi áhrif á hafnarstarfsemi sérstaklega á framkvæmdatíma og setja starfseminni skorður til framtíðar. Kröfur til bæði hæðar brúar og dýptar ganga hafa aukist sem líklegt er til þess að hækka kostnað auk þess sem það gerir hönnun m.t.t. hönnunarstaðla erfiða. Báðar lausnir nýtast illa eða ekki öðrum ferðamátum svo sem gangandi og hjólandi. Hábrúin gæti jafnvel reynst erfið í rekstri við íslenskar veðuraðstæður.“
Aðalniðurstaða skýrslunnar var sú að skoða ætti bara tvo valkosti frekar, jarðgöng og lágbrú, og ótrúlegt að helstu rökin fyrir því að skoða ekki botngöng frekar séu þau að „engin reynsla sé af gerð botnganga hér á landi og kostnaðaráætlanir því ótryggar“.
Í framhaldi af ofannefndri skýrslu var nýr starfshópur skipaður „til að vinna nauðsynlega greiningarvinnu á þeim tveim valkostum sem eftir standa við þverun Kleppsvíkur“. Ég kom mér í samband við fulltrúa Faxaflóahafna í þessum nýja starfshóp og benti honum á að þessir tveir valkostir sem ætti að skoða ýtarlega væru óheppilegir fyrir Faxaflóahafnir þar sem jarðgöng væru ekkert að tengjast Sundahöfn og væru það dýr að þau yrðu varla valin til framkvæmda og að lágbrú á ytri leið myndi kosta Samskip lífið. Ég lagði því til við hann að Faxaflóahafnir færu fram á að 3. valkosturinn, botngöng, yrði skoðaður ýtarlega í þessum nýja starfshóp.
Nú er komin skýrsla frá þessum starfshóp, „Sundabraut – Greinargerð starfshóps, janúar 2021“.
Og viti menn, greinargerðin sem átti aðeins að fjalla um jarðgöng og lágbrú fjallar nær eingöngu um nýja útfærslu, nefnilega lága hábrú.
Nú eru allir ókostir hábrúar gleymdir og hæð undir brú á ytri leið sem var áður skilgreind 55 metrar til framtíðar er nú skilgreind 30 m til fortíðar (þ.e. að skoðað var hvaða skip hafa siglt þarna um síðustu árin).
Aðeins er minnst á botngöng og þau afgreidd fljótt. Dýpi ofan á botngöng sem var áður skilgreint 12,3 m er nú skilgreint 13,8 m til framtíðar og að erfitt sé að komast upp á Sæbraut með 5% langhalla. Einnig eru botngöngin talin dýr þó að þau hafi ekki verið kostnaðarmetin af starfshópnum. Lokaorðin um botngöng eru þau að „botngöng á leið I eins og þau hafa verið útfærð hafa ýmsa annmarka og eru ekki talin hafa augljósa kosti umfram Sundabrú eða Sundagöng“.
Greinarhöfundur lagði fram tillögu um þverun Kleppsvíkur með botngöngum fyrir níu árum og hefur reynt að halda henni á lofti með blaðagreinum og samskiptum við aðila hjá Vegagerðinni, Faxaflóahöfnum, Reykjavíkurborg og skipafélögunum og hefur aldrei skilið af hverju þessir aðilar hafa aldrei viljað skoða botngöng sem alvöru valkost.
Og engu er ég nær núna eftir nýjustu greinargerðina þar sem allt er sett fram á sérkennilegan hátt til að upphefja nýja lága hábrú á sama tíma og allt er sett fram á sérkennilegan hátt til að setja botngöng út af borðinu.
Ég ætla hér að taka nokkur dæmi:
• Botngöng og hábrú hafa verið kostnaðarmetin gróft upp á svipaðar upphæðir og því undarlegt að tala um að botngöngin séu dýr (hafa ekki verið kostnaðarmetin lengi) og hvergi talað um að nýja brúin sé dýr.
• Fyrri ókostir hábrúar eru gleymdir.
• Fyrri skilgreining um 55 m hæð undir brú er nú skilgreind 30 m og þá miðað við fortíðina.
• Fyrri skilgreining um 12,3 m dýpi ofan á göng í siglingarennu er nú orðin 13,8 m til framtíðar. Mjög athyglisvert er að nú í janúar 2021 birtu Faxaflóahafnir skýrsluna „Þróun Sundahafnar – Mat á umhverfisáhrifum“ þar sem eru skilgreind dýpkunarsvæði Sundahafnar og eru svæði almennt skilgreind með dýptina 12,5 m og svæði rétt sunnan við fyrirhuguð botngöng er sett í 10,0 m dýpkun. Það er því óskiljanlegt að vera að setja fram framtíðarkröfu um 13,8 m dýpi yfir mögulegum botngöngum.
• Fullyrðing um að hæðarlegan sé illleysanleg er ekki rétt, allavega meðan dýptin yfir botngöngunum er ekki skilgreind meiri og meiri.
• Í greinargerðinni er rætt um að leiðin úr botngöngunum og upp að Sæbraut skeri djúpt í landið og er það vissulega rétt, en sú skering er svipuð og verður í fyrirhugaðri nýrri hafnartengingu sem þarf að gera til að tengja Sundahöfn við Sæbraut og Sundabraut/Sundabrú.
• Í greinargerðinni er rætt um flókin gatnamót við Sæbraut með botngangalausn og að botngöng setji skorður á hafnarstarfsemina til framtíðar. Þessu er mótmælt og bent á mynd þar sem möguleg gatnamót við Sæbraut eru sýnd (aðeins austurakrein Sæbrautar til norðurs er niðurgrafin og annað í planlegu) og einnig sést hve hafnarsvæðið er lítið skert og þar er góð gatnatenging við Sundahöfn.
• Tenging Sundabrautar með Sundabrú gerir tenginguna við hafnarsvæðið verri en með botngangaútfærslu og með nýrri hafnartengingu er reynt að laga þá tengingu.
• Í skýrslunum er fjallað um að botngöng og hábrú henti illa fyrir gangandi og hjólandi umferð. Þegar fjallað er um nýju lágu hábrúna í greinargerðinni er kynnt að hún verði fyrir gangandi og hjólandi umferð, en þess ekki getið að gangandi og hjólandi umferð geti líka ferðast um botngöng.
Þess má geta að botngöng hafa verið og eru byggð um víða veröld og hafa reynst vel. Áhugavert væri að skoða að botngöngin sjálf væru byggð erlendis og þeim svo fleytt til landsins í góðu veðri. Ekki víst að það kosti mikið í stóra samhenginu.
Enn á ný skora ég á aðila þessa máls að skoða botngöng af alvöru sem þriðja valkostinn til að ræða um á næstunni og bera saman við jarðgöng og nýja lága hábrú/Sundabrú.
Greinarhöfundur mun fara fram á að botngöng verði skoðuð sem valkostur þegar kemur að mati á umhverfisáhrifum.
Höfundur er verkfræðingur og lífeyristaki.