Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingu á lögum um fjölmiðla og snýst um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Frumvarp þetta var lagt fram í nóvember síðastliðnum og átti að taka gildi í byrjun þessa árs, en er enn til umræðu á Alþingi. Þær tafir koma út af fyrir sig ekki á óvart enda átti að afgreiða slíkt frumvarp fyrir rúmum tveimur árum, á sama tíma og Alþingi samþykkti stuðning við bókaútgáfu, en síðan hefur málið þvælst um innan og utan þings í ýmsum myndum um leið og íslenskir fjölmiðlar eiga í miklum rekstrarerfiðleikum og hafa sumir orðið að draga úr þjónustunni við almenning.
Þetta er alvarleg staða og á henni eru ýmsar skýringar. Tvær vega mjög þungt, annars vegar sú staðreynd að íslenskir fjölmiðlar þurfa að keppa við ríkismiðil, ekki aðeins um framboð á efni og þar með um athygli almennings, líkt og þekkt er til dæmis annars staðar á Norðurlöndum, heldur líka á auglýsingamarkaði, en sú staða er ekki uppi annars staðar á Norðurlöndum og er raunar nánast óþekkt erlendis. Hins vegar búa innlendir fjölmiðlar við vaxandi samkepppni frá erlendum risafyrirtækjum á borð við Google og Facebook og nú virðist staðan orðin sú að þessi fyrirtæki taki til sín allt að tvöfalt meira af íslenskum auglýsingamarkaði en Ríkisútvarpið, sem þó tekur um tvo milljarða af þessum markaði. Það er því ljóst að nú er svo komið að stór hluti íslensks auglýsingafjár fer annars vegar til ríkisins og hins vegar til erlendra risafyrirtækja sem halda ekki úti starfsemi hér á landi og greiða ekki skatta hér. Fullyrða má að fáar atvinnugreinar, ef nokkur, búi við sambærilegar aðstæður og íslenskir fjölmiðlar.
Þrátt fyrir þessar aðstæður er Ísland „eina norræna ríkið sem veitir ekki beina eða óbeina styrki til einkarekinna fjölmiðla“, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi menntamálaráðherra. Þar má einnig sjá að verði þetta frumvarp að lögum með þeim heildarstyrk sem fyrirhugaður er, 400 milljónir króna, þá verður Ísland í hærri kantinum þegar horft er á beinan ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla á Norðurlöndum á íbúa og þær tillögur sem þar liggja fyrir um aukinn stuðning. Í greinargerðinni er hins vegar ekkert minnst á þann óbeina styrk sem ekki skiptir minna máli fyrir marga miðla og felst í því að ekki er greiddur virðisaukaskattur af áskriftum. Óbeinn stuðningur, hvort sem er í gegnum virðisaukaskattskerfið, eins og algengt er í Evrópu, eða í gegnum tryggingagjald, eins og hugmyndir hafa verið um hér á landi, er æskilegri en beini stuðningurinn og ætti að minnsta kosti að koma til samhliða beina stuðningnum. Í því sambandi verður að hafa í huga að beini stuðningurinn sem frumvarpið gerir ráð fyrir er mjög lítill miðað við stuðning við bókaútgáfu, tónlist og kvikmyndir, en þessar greinar eru nefndar til samanburðar við fjölmiðla í greinargerð frumvarpsins.
Þegar horft er til bókaútgáfunnar vekur athygli að sem hlutfall af rekstrarkostnaði er veittur mun hærri styrkur til bóka en ætlaður er til fjölmiðla og ekki vekur síður athygli að einstakar erlendar bíómyndir sem að hluta eru teknar upp hér á landi geta fengið margfaldan íslenskan ríkisstyrk á við stærstu íslensku einkareknu fjölmiðlana. Það er eitthvað mjög bogið við þessa mynd og hún sýnir í öllu falli að hugur fylgir aðeins máli að hluta til þegar rætt er um þýðingu íslenskra fjölmiðla og stuðning við þá.
Æskilegast væri að rekstrarumhverfi fjölmiðla, líkt og annarra fyrirtækja, væri með þeim hætti að ekki þyrfti að ræða ríkisstuðning. Slíkur stuðningur er út af fyrir sig aldrei æskilegur og getur í tilviki fjölmiðla verið mjög varasamur. Ríkisvaldið verður til að mynda að gæta sín mjög að tengja hann ekki við efni fjölmiðla með þeim hætti að svo virðist sem reynt sé að hafa áhrif á umfjöllun. Þess vegna verður stuðningurinn að vera eins almennur og nokkur kostur er. Ríkisvaldið ætti líka að stíga þau skref sem það getur til að gera stuðninginn óþarfan, til dæmis með því að draga ríkismiðilinn af auglýsingamarkaði og draga úr framboði hans eins og kostur er á. Ríkisútvarpinu ætti til að mynda ekki að líðast að leggja í sérstaka samkeppni við einkarekna miðla, en í umsögn Símans um frumvarpið eru nefnd dæmi um grunsamlegt athæfi Ríkisútvarpsins sem stjórn stofnunarinnar og ráðherra hljóta að taka til alvarlegrar skoðunar.
Þá ætti ríkið að beita sér gagnvart auknum umsvifum samfélagsmiðla og leitarvéla á auglýsingamarkaði í skjóli skattleysis. Slíkar aðgerðir eru augljóst sanngirnismál og löngu tímabærar.