Haukur Helgason fæddist 24. júlí 1933. Hann lést 22. janúar 2021. Útförin fór fram 1. febrúar 2021.

Mér var brugðið er ég las um andlát vinar míns Hauks í Morgunblaðinu.

Með söknuði og þakklæti vil ég aðeins minnast Hauks. Ég kynntist honum á haustdögum 1952 þegar hann hóf nám í 2. bekk í Kennaraskóla Íslands þar sem ég og kona mín, Karen Vilhjálmsdóttir, vorum nemendur. Haukur kom frá Svíþjóð þar sem hann hafði unnið og verið við nám. Hauki var vel tekið í bekknum með sinn léttleika og góða skap. Með okkur tókst góður vinskapur. Á haustdögum í 3. bekk spurði hann mig hvort ég væri til í að koma og taka vakt á móti sér í vinnu sem vaktamaður á kvöldvakt á Kleppi. Það varð úr, og unnum við þar í tvo vetur með skólanum.

Eftir lokapróf frá KÍ vorið 1955 fór okkar bekkur ásamt mörgum útskriftarnemum úr stúdentsdeild skólans í kynnisferð til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs. Þetta var góð og fróðleg ferð. Það kom sér vel að Haukur var með í ferðinni, en fararstjóri okkar, sr. Árelíus Níelsson, hafði ekki farið áður til útlanda.

Haukur hóf sinn kennaraferil í Lækjarskóla í Hafnarfirði, en varð síðar skólastjóri við Öldutúnsskóla. Algengt var að kennarar fengju sér einhverja aðra vinnu yfir sumartímann. Haukur hafði tekið að sér umsjón með sumarnámskeiðum á vegum Hafnarfjarðarbæjar fyrir drengi úr 2. til 6. bekk sem haldið var í Krísuvík. Tvö sumur fékk Haukur mig með sér. Eiginkonur okkar, þær Karen og Kristín H. Tryggvadóttir, ásamt börnum okkar sem þá voru fædd voru með. Ýmislegt var gert með drengjunum. Farið í gönguferðir, í heyskap, að moka út úr fjárhúsum, að gróðursetja tré í Undirhlíðum o.fl.

Við Haukur vorum í félagi áhugaljósmyndara en síðar vorum við fimm sem stofnuðum sér klúbb sem við kölluðum Myndbræður. Við settum okkur ákveðin verkefni, fórum saman í myndatökuferðir og dæmdum myndir hver hjá öðrum. Fundir voru haldnir til skiptis heima hjá félögunum þar sem við fengum gott kaffi og meðlæti.

Fyrsta skipulagða sólarlandaferðin sem Haukur kom á með 6 vinahjónum var farin kringum 1974 til Costa del Sol á Spáni, mjög góð ferð. Ótal utanlandsferðir fórum við hjónin með Hauki og Kristínu, og síðar með Hauki og Sigrúnu, en oftast var farið til Kanarí, þar sem mikið var spilað bridge. Eins var farið í sumarbústaðaferðir og einu sinni til Ísafjarðar, heimabæjar Hauks.

Síðustu árin voru Hauki erfið. Eftir heilablóðfall missti Haukur málið, en hann skildi þó allt sem við hann var sagt. Vegna Covid-19-plágunnar gat ég ekki hitt Hauk eins oft eins og ég hefði viljað á Hrafnistu.

Ég sendi samúðarkveðju til Sigrúnar Davíðsdóttur og barna Hauks um leið og ég kveð minn góða vin.

Þorvaldur Óskarsson.