Höfundur „Sagan er einföld, falleg og þó nokkuð grípandi,“ segir um skáldsögu Björns Halldórssonar. Og hún „vekur lesandann til umhugsunar um hvaða hlutverki orðin og þagnirnar gegna í samskiptum við hans nánustu.“
Höfundur „Sagan er einföld, falleg og þó nokkuð grípandi,“ segir um skáldsögu Björns Halldórssonar. Og hún „vekur lesandann til umhugsunar um hvaða hlutverki orðin og þagnirnar gegna í samskiptum við hans nánustu.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björn Halldórsson. Mál og menning, 2021. Kilja, 195 bls.

Fjölskyldubönd, samvera og samskipti og sjálf kveðjustundin eru í lykilhlutverki í fyrstu skáldsögu Björns Halldórssonar, Stoli . Áður hefur komið út smásagnasafn hans Smáglæpir (2017).

Það er hinn ráðvillti ungi maður, Baddi, sem segir söguna í Stoli og ávarpar hann föður sinn, Hörð. Baddi er nýfluttur heim frá New York og búinn að slíta sambandi við kærastann sem hann bjó með þar. Ástæðan fyrir flutningnum er sú að faðirinn er alvarlega veikur af krabbameini og á skammt eftir. Hann hefur verið skorinn upp á heila og er ekki samur eftir það, hefur glatað miklu af getunni til þess að tjá sig og að stórum hluta bæði skammtíma- og langtímaminni.

Þegar Magnea, eiginkona föðurins, stingur upp á að þeir feðgar fari saman í ferðalag um Suðurland líst Badda ekki á blikuna en hann lætur þó til leiðast. Þetta ferðalag myndar meginboga frásagnarinnar en stöku endurlit til barnæsku Badda og lífsins í New York brjóta hann upp.

Feðgarnir hafa, hingað til, ekki verið sérlega nánir en ferðalagið neyðir þá til þess að eyða tíma saman og þrátt fyrir málstol og minnisleysi föðurins eru þessar samverustundir ómetanlegar.

„Við þurfum ekki lengur að fylla hvert andartak með skvaldri af ótta við þögnina; að ef við leyfum henni að teygja úr sér munum við missa eitthvað ógætilegt út í hana. Ég man ekki hvenær við sátum síðast saman í þögn með hvorki útvarp né sjónvarp til þess að fylla upp í tómið á milli okkar,“ segir Baddi (113).

Björn lýsir vel þögninni sem myndast svo auðveldlega á milli okkar mannfólksins, kannski einkum og sér í lagi milli karlmanna. Feðgasambandið, samband skilnaðarbarns og helgarpabba, sem höfundurinn dregur upp í Stoli , er ekki einsdæmi og ekki ólíklegt að margir geti speglað sambönd sín við sína nánustu í þeim lýsingum.

Aðrir þættir verksins falla í skuggann af sambandi þeirra feðga og skakkaföllunum á ferðalagi þeirra, enda sumir hverjir í hlutverki hálfgerðs uppfyllingarefnis. Frásagnir af ástarlífi Badda og samskiptum hans við unga krabbameinssjúka konu eru til dæmis hálfflatneskjuleg í samanburði við hátinda þess fjallalandslags sem bæði ferðalag og samskipti þeirra feðga eru.

Birni tekst nokkuð vel að fanga hið íslenska ferðasumar, með tilheyrandi ferðamannaflaumi, bensínstöðvum og lélegum vegum, eins og við þekktum það áður en til faraldursins kom og munum ef til vill kynnast á nýjan leik þegar fram líða stundir.

Sagan er einföld, falleg og þó nokkuð grípandi og textinn flæðir vel áfram. Það gerir söguna auðlesna og aðgengilega auk þess sem hún vekur lesandann til umhugsunar um hvaða hlutverki orðin og þagnirnar gegna í samskiptum við hans nánustu.

Ragnheiður Birgisdóttir

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir