María Áslaug Guðmundsdóttir fæddist 27. febrúar 1930. Hún lést 22. janúar 2021.

Útför fór fram 4. febrúar 2021.

Yndislega María. Henni kynntist þegar ég byrjaði 19 ára gömul að vinna í félagsmálaráðuneytinu, algjörlega blaut á bak við eyrun í öllu sem þar var fengist við. Hún og aðrir þar tóku mér afar vel og hófust strax handa við uppeldi mitt í stjórnsýslunni. Í því uppeldi var mér stundum treyst fyrir að leysa Maríu af þegar hún fór í frí. Það var heiður. Með henni vann ég þar til hún lét af störfum árið 1999 eftir afar farsælan starfsferil í ráðuneytinu. Við tvær vorum saman í einkaklúbbi í vinnunni, febrúarklúbbnum, ásamt Inga Val og Þorgerði. Þá gerðum við okkur dagamun í sameiginlegum afmælismánuði okkar og nutum þess m.a. að borða saman á Holtinu. Góðar minningar tengjast því. Nákvæmni og fagmennska einkenndu hennar verk og kenndi hún mér mikið á þessum árum. Allt það hefur nýst mér síðan í mínum störfum. Nærvera hennar var líka alltaf svo notaleg. Hláturinn var eftirminnilegur og væntumþykjan þegar hún talaði um fjölskylduna sína skein í gegn. Að leiðarlokum vil ég þakka Maríu fyrir allt sem hún kenndi mér. Ég var lánsöm að fá að kynnast henni. Samúðarkveðjur sendi ég fjölskyldunni.

Sesselja Árnadóttir.

Það var glaðleg og glæsileg kona sem tók á móti mér þegar ég mætti á fyrsta vinnudegi í félagsmálaráðuneyti í ársbyrjun 1985. Þetta vingjarnlega viðmót er mér minnisstætt. Síðan setti María mig inn í ýmislegt í gangvirki ráðuneytisins enda eldklár og vel að sér. Héldust hin góðu samskipti okkar þau 14 ár sem við unnum saman. Hún var úrræðagóð, fróð um þjóðfélagið sem kom sér vel sem ritari ráðherra. Hún leiðbeindi fólki um rétt þess og möguleika innan kerfisins og svaraði spurningum af fjölbreyttu tagi.

Það sópaði að henni og hún naut sín greinilega í hinu vandasama starfi fyrir ráðherra, svo og aðra yfirmenn ráðuneytisins. Samviskusemi hennar og dugnaður einkenndi hana og stundum óttaðist ég að hún gengi fram af sér. Þar áttu nú ráðherrar hauk í horni í öllu því sem á gekk.

Dýrmætt var að með okkur Maríu tókst góður vinskapur. Við áttum góðar stundir saman þar sem við ræddum m.a. um málefni þjóðfélagsins, sem var sannarlega hluti af starfinu. Enda þótt á okkur væri aðeins 15 ára aldursmunur fannst mér oft eins og um kynslóðamun væri að ræða. Hún fræddi mig um félagsleg kjör fólks þegar hún var ung að árum, svo sem um verkamannabústaði og þýðingu þeirra fyrir láglaunafólk. Ekki síður vakti athygli mína frásögn hennar um tíðarandann varðandi menntun kvenna á miðri 20. öld, þegar hún lauk stúdentsprófi, hversu sjálfsagðara þótti að karlar fremur en konur legðu stund á háskólanám. Við, nokkrir samstarfsmenn Maríu, sem vorum fædd í febrúar, tókum upp þann góða sið að borða saman á Hótel Holti í febrúar á hverju ári. Sá siður hélst í mörg ár eftir að María lauk störfum.

Ég vil þakka fyrir mín góðu og eftirminnilegu kynni af Maríu. Aðstandendum votta ég samúð mína.

Þorgerður Benediktsdóttir.