Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Færðin er góð og fjöllin heilla,“ segir Sveinbjörn Halldórsson, formaður Ferðaklúbbsins 4x4. Fjöldi jeppamanna var á ferðinni um helgina og margir voru til dæmis á svæðinu við Skjaldbreið og norður af Þingvöllum. Einnig lögðu margir leið sína inn á Kjöl. „Núna er harðfenni yfir öllu sunnanverðu hálendinu og undirlagið því öruggt. Á harðskafanum er hægt að aka langar leiðir líkt og á malbikuðum vegi sé. Í fyrravetur og nú í haust var lítið um ferðir vegna kórónuveirunnar. Nú þegar faraldurinn er í rénun er frelsinu tekið fagnandi og farið á fjöll.“
Meiri snjór veit á gott
Samfélag jeppafólks er stórt og félagsstarfið fjölbreytt. Alls eru 4-5.000 félagar í 4x4, sem efnir til nýliðaferðar síðar í mánuðinum og stórar skipulagðar ferðir detta inn alltaf öðru hverju. Einnig er fólk í hópum duglegt að taka sig saman um leiðangra, lengri sem skemmri. Til eru á samfélagsmiðlum hópar þar sem fólk hópar sig saman og fer í ferðir. Suðurhálendið er þá ofarlega á blaði, Langjökulsslóðir, Kjalvegur, Kerlingarfjöll og Landmannalaugasvæðið. Einnig er mikið farið um Línuveginn svonefnda, sem liggur frá Sultartanga um hálendið til vesturs að Skjaldbreið.
„Til ferðalaga upp á hálendið þarf öfluga bíla og ekki er ráðlegt að fara á jökul á jeppa á minna en 38 tommu dekkjum. Og nú er besti tíminn til jeppaferða fram undan. Að vera inni á fjöllum í mars og apríl er ævintýr; daginn farið vel að lengja og yfirleitt nægur snjór. Núna er líka spáð snjókomu þegar líður á vikuna og meiri snjór veit á gott um ferðalög á næstunni,“ segir Sveinbjörn.
Meðal þeirra sem fóru á fjöll um helgina var Rúnar Kjartansson, jeppamaður úr Garðabæ, með hópi fólks á fimm bílum sem lagði upp snemma á laugardagsmorgun. Farið var úr bænum austur á Lyngdalsheiði vestan við Laugarvatn, hvar ekið var að Skjaldbreið, Tjaldafelli og Slunkaríki. Þaðan var svo ekið inn á suðurhluta Langjökuls og af honum vestanverðum niður að Húsafelli í Borgarfirði þangað sem komið var síðdegis.
Bílamix í gangi í öðrum hverjum skúr
„Færið var þægilegt og útsýnið tært. Svona ferðir eru algjört ævintýri,“ segir Rúnar sem ekur um á Jeep Cherokee, kröftugum bíl sem er á 38 tommu dekkjum. „Þetta er þrjátíu ára gamall bíll vestan af fjörðum sem ég eignaðist fyrir nokkru. Þennan jeppa mixaði ég saman með hjálp pabba míns og frænda. Notaði í smíðina varahluti úr öðrum bíl sem ég átti. Viðgerðabrasið er skemmtilegt. Margir jeppakarlar hafa notað rólega tímann að undanförnu til þess að breyta bílum. Í öðrum hverjum skúr í bænum hefur verið eitthvert mix í gangi og nú eftir nokkurra mánaða stopp er verið að taka bílana fram einn af öðrum. Fjallaflotinn er sennilega aldrei öflugri en nú og ferðahugur í flestum,“ segir Rúnar